Morgunblaðið - 03.12.2015, Síða 44
44 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. DESEMBER 2015
Stöndum öll saman sem ein þjóð
Sýnum kærleik og samkennd í verki.
Við megum ekki gleyma fátæka fólkinu
á Íslandi. Jólasöfnun er hafin hjá
Fjölskylduhjálp Íslands.
546-26-6609, kt. 660903-2590
Hjálpið okkur að hjálpa öðrum.
Margt smátt gerir eitt stórt. Guð blessi ykkur öll
FRÉTTASKÝRING
Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Nú þegar setningarathöfn loftslags-
ráðstefnunnar í París (COP21) er af-
staðin og leiðtogar á annað hundrað
ríkja horfnir aftur heim eru fulltrúar
ráðstefnuþjóðanna teknir til óspilltra
málanna við að semja um atriði sem
ágreiningur ríkir um í drögum að
ályktum ráðstefnunnar. Stækkandi
eyðimerkur í Afríku og sökkvandi
eyjar í Suður-Kyrrahafi af völdum
aukinnar hlýnunar andrúmsloftsins
knýr þá áfram. Einn helsti ásteyting-
arsteinninn er hversu mikla fjármuni
ríkari lönd heims skuli leggja þeim
fátækari til svo þau geti aðlagast
breytingunum og dregið úr eigin los-
un gróðurhúsalofts.
Viðfangsefnið í París er að komast
að samkomulagi um aðgerðir til að
sporna við enn frekari hlýnun and-
rúmsloftsins með öllum þeim hörm-
ungum sem því annars fylgdi ef engir
samningar tækjust. Er þar um að
ræða ráðstafanir til að takmarka los-
un gróðurhúsalofts sem koma til
framkvæmda frá og með 2020 er
Kyoto-samningurinn rennur sitt
skeið. Hann er lagalega bindandi að-
eins fyrir lönd Evrópusambandsins
(ESB), Ástralíu og nokkur ríki til við-
bótar. Í hliðarskjali við hann lýsti
fjöldi ríkra sem snauðra ríkja vilja –
en án skuldbindinga – til að draga úr
losun. Er ráðstefnan í París sögð síð-
asta tækifærið sem ríki heims hafa til
að ná fram raunhæfu samkomulagi til
að taka við af Kyoto-samkomulaginu.
Á sögulegum stað
Fundarstaðurinn er stærðar skýli
á Le Bourget-flugvelli við borg-
arjaðar Parísar, þar sem Charles
Lindbergh lenti flugvél sinni, Spirit
of St. Louis, hinn 21. maí 1927, eftir
að hafa orðið fyrstur manna til að
fljúga viðstöðulaust yfir Atlantshafið
einn síns liðs. Hin síðari ár hefur Le
Bourget fyrst og fremst verið heima-
völlur og áfangastaður forstjóra- og
fyrirmennaflugvéla og einkaþotna,
en enginn samgöngumáti er jafn kol-
efnalosandi og mengandi á hvern far-
þega en einkaþotuflug. Á þessum
sögulega velli þreyja samningamenn
þorrann fram á föstudaginn 13. des-
ember nk.
Í tvær vikur er flugvöllurinn
krökkur af stjórnmálamönnum, dipl-
ómötum, blaðamönnum, fulltrúum
stofnana og ýmissa borgaralegra
samtaka. Tölfræði tengd ráðstefn-
unni er um margt lýsandi. Samnings-
uppkastið er aðeins eitt og markið
þess sem það á eftir að kveða á um er
að takmarka hlýnun við 2°C að há-
marki eftir 2020 og út öldina. Það er
sú hámarks hækkun sem talin er
óhætt eigi að vera hægt að forðast
hörmulegar loftslagsbreytingar í
framtíðinni. Þetta markmið hefur
lengi verið samkomulag um en með
engu móti tekist á fyrri COP-
ráðstefnum að fá aðildarríkin til að
samþykkja raunverulegar aðgerðir
til að ná því marki.
Skuldbindingarnar duga ekki
Og í aðdraganda Parísarráðstefn-
unnar hafa heit og skuldbindingar
um aðgerðir af hálfu rúmlega 170
ríkja með um 97% heimslosunar kol-
efna ekki náð lengra en svo að sér-
fræðingar telja að á grundvelli þeirra
muni hlýnunin verða 50% meiri en
stefnt er að, eða á bilinu 2,7 til 3,3°C.
Verulega er það þó skárra en ef ekk-
ert yrði gert, því þá yrði hlýnunin á
bilinu 4-6°C. Vegna þessa mikla mun-
ar á markmiðum og loforðum styðja
mörg ríki tillögur um að komið verði
á skuldbindandi kerfi sem endur-
skoði markmiðin, og lagi þau að raun-
veruleikanum, á fimm ára fresti.
Mikið er í húfi að vel takist í París.
Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna
(WFP) hefur til dæmis varað við því,
að hungur muni breiðast út með auk-
inni hlýnun. Við 2°C hækkun myndu
milljónir svangra munna bætast við í
Mið-Ameríku, Afríku og Asíu. Og
verði hlýnunin meiri 4-5°C yrði heim-
skortið þakið stórum blettum þar
sem um varanlegt hörmungarástand
og hungur yrði að ræða. Þessa dökku
mynd dregur stofnunin upp sem
brauðfætt hefur milljónir manna á
hungursvæðum en fékk þó ekki í
fyrra nema 5,5 milljarða dollara
framlög af 8,5 umbeðnum, sem til
þurfti til að hjálpa hungruðum í rúm-
lega 80 ríkjum.
20 ára samningaviðræður
Samningaviðræðurnar um aðgerð-
ir í loftslagsmálum hafa staðið yfir í
20 ár. Talsvert hefur miðað það sem
af er árinu þótt með engu móti sé
hægt að segja með nákvæmni hver
niðurstaðan verður; hvort árang-
urinn teljist mikill eða enginn. Í júní í
sumar var samningsuppkastið 89
blaðsíður að stærð en var komið nið-
ur í 20 síður í lok október sl. Hefur
það vaxið á ný og var rúmlega 50
blaðsíðna skjal lagt fyrir ráðstefnuna.
Til setningarathafnarinnar á
mánudag komu 147 þjóðarleiðtogar
og sama dag var efnt til útifunda í 150
löndum þar sem hvatt var til raun-
hæfra ráðstafana í þágu andrúms-
loftsins. Í svonefndu G77 sambandi
þróunarríkja eru 134 lönd sem eiga
fulltrúa í París og síðustu daga hafa
alls 166 ríki af 196 aðildarríkjum
loftslagssamningsins lagt fram skuld-
bindingar um aðgerðir til að draga úr
losun.
Ekki komust allir til Parísar sem
vildu. Tæplega 6.000 blaðamenn
sóttu um aðgang að henni til að flytja
fréttir af ráðstefnunni en einungis
var hægt að taka á móti 3.000 í einu á
fundarstað. Alls hafa 20.000 fulltrúar
verið skráðir til þátttöku í fundunum
og gæta 2.800 lögreglumenn öryggis
þeirra allan sólarhringinn á fund-
arstað. Til viðbótar standa 8.000 lög-
reglumenn vakt á landamærum
Frakklands, allt í þágu öryggis fund-
argesta. Reiknað hefur verið út að
ráðstefnan sjálf á Le Bourget losi
sem svarar 21.000 tonni af koltvíildi
og hétu gestgjafarnir frönsku mót-
vægisaðgerðum á fundarstað til að
jafna út mengunina.
Pólitískur vilji loks fyrir hendi?
Meginverkefni fundarmanna úr
þessu er í megindráttum annars veg-
ar að takast á um það hvort nið-
urstöður COP21 verði skuldbindandi
eða leiðbeinandi. Og hins vegar
hversu mikla fjármuni ríkari þjóðir
skuldbindi sig til að láta þróun-
arríkjum í té til að hjálpa þeim við að
takast á við breytingarnar. Einn
helsti erindreki Frakklands í lofts-
lagsmálum, Laurence Tubiana, gerir
ráð fyrir að fjármögnunin verði erf-
iðasta viðfangsefni samningafund-
anna. Auk þess greini Evrópusam-
bandsríkin (ESB) og Bandaríkin enn
verulega á um hvort og hversu laga-
lega bindandi samkomulag ætti að
vera.
Spurt er hvort horfur á sam-
komulagi séu góðar. Aðalsamn-
ingamaður Kína og fundarstjóri síð-
ustu ráðstefnu, í Lima í Perú, eru
meðal þeirra sem halda því fram að
nú sé loksins pólitískur vilji fyrir
hendi til samkomulags. Stefnubreyt-
ing hefur orðið hjá Kínverjum sem
áttu stærstan þátt í að koma í veg
fyrir árangur af samningum í Kaup-
mannahöfn 2009. Losa þeir meira
gróðurhúsaloft en nokkurt annað
ríki. Bandaríkin eru í öðru sæti og
Indland í því þriðja.
Munu niðurstöður COP21 ráð-
stefnunnar í París breyta lífi okkar í
einhverju? Því er óhætt að svara ját-
andi, en þó ekki strax. Langtíma
ákvarðanir sem ríkisstjórnir og fyr-
irtæki taka á grundvelli sam-
komulags munu meðal annars hafa
áhrif á það hvers konar orku orkuver
bjóða upp á, hvers konar matvæli
menn leggi sér til munns, hversu lík-
leg flóð verði í sjávarbyggðum og
hvernig veðuröfgar leiki heims-
byggðina í framtíðinni.
Veröldin að afkolavæðast
Það þykir þröngsýni að ætla að al-
þjóðlegt samkomulag eitt og sér leysi
vandamálin sem við blasa vegna
loftslagsbreytinga. Til allrar ham-
ingju eigi aðgerðir sér stað á öllum
sviðum, frá einstaklingum til fyr-
irtækja, frá borgum til heilla rík-
iskerfa og vaxandi slagkraftur er í
breytingaskriðinu. Ástæða sé til að
ætla að jarðarbúar séu að nálgast
vatnaskil. Árið 2014 hafi hagvöxtur á
heimsvísu numið 3% en kolefnalosun
á því ári jókst um aðeins hálft pró-
sent. Með öðrum orðum, merki eru
um að sambandið milli vaxtar og los-
unar sé að rofna. Ein ástæða þess sé
að orkuframleiðsla með kolum hafi
verið á undanhaldi. Bandaríkjamenn
brenna minna af kolum og Kínverjar
hafa sett sér sem markmið að draga
úr kolanotkun frá og með 2020. Mörg
lönd segjast og ætla að hætta henni
alfarið og því bendir margt til þess að
kolin heyri senn sögunni til sem
orkugjafi. Þrýstingur á fjárfesta á að
draga sig út úr fyrirtækjum sem nota
jarðefnaeldsneyti hefur aukinheldur
vaxið. Hefur hjálpað til að óttast er
að verðmæti þeirra geti hrapað fái
þau ekki að nýta forðabúr sín öll. Þær
raddir heyrast að það væri að missa
marks að gagnrýna niðurstöður Par-
ísarráðstefnunnar á þeirri forsendu
að þær gengju ekki nógu langt eða
væru gallaðar. Það sem mestu máli
skipti sé að frá París komi sterk
skilaboð þess efnis að veröldin sé að
afkolefnavæðast og af þeirri braut
verði ekki horfið.
Þráttað um lofthita og kolefnalosun
Talið mestu máli skipta að sterk skilaboð komi frá París um að veröldin sé að afkolefnavæðast
Ríkari pólitískur vilji til samkomulags en áður Spurning hvað ríkari löndin eru tilbúin að gera
AFP
Loftslagsmál Francois Hollande, forseti Frakklands, og Jean-Louis Borloo frá Orku fyrir Afríku stinga saman nefjum á loftslagsráðstefnunni í París í vik-
unni. Við pallborðið sitja einnig frönsku ráðherrarnir Segolene Royal og Annick Girardin, ásamt forseta Kamerún, Paul Biya.
Það kaldhæðnislega við tilraunir manna til að sporna
við hlýnun andrúmsloftsins er að þær hafa mikla meng-
un í för með sér. Reiknað hefur verið út að ráðstefnan
sjálf losi á Le Bourget-flugvelli sem svarar 21.000 tonni
af koltvíildi. Mun það samsvara árlegri losun Eistlands á
koltvíildi. Hétu gestgjafarnir frönsku mótvægis-
aðgerðum á fundarstað til að jafna út mengunina.
Þessu til viðbótar hlýst gríðarleg mengun af ferðalög-
um hundraða þjóðarleiðtoga, embættismanna og fylgd-
armanna til og frá loftslagsráðstefnunni í París. Sam-
kvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir tímaritið Wired munu um
50.000 manns ferðast úr öllum heimshornum til að sækja fundi ráð-
stefnunnar í París. Ferðalögin eru sögð skilja eftir sig 300.000 tonn af
kolefni í andrúmsloftinu. Sem þykja sem blaut tuska í andlit markmiða
ráðstefnunnar.
Barack Obama Bandaríkjaforseti er ábyrgur fyrir einum stærsta
skammtinum af þessari mengun. Að sögn stofnunarinnar Daily Caller
News Foundation mun forsetaþotan ein og sér hafa losað um 189 tonn af
kolefni á leiðinni til Parísar og til baka.
Forsetinn viðurkenndi þátt Bandaríkjanna í hlýnunarvandanum í ræðu
sinni á opnunardegi ráðstefnunnar og hét bragarbót. „Hingað er ég kom-
inn, í eigin persónu, sem leiðtogi stærsta hagkerfis heimsins og næst-
mesta losanda mengunar, til að lýsa því yfir að ekki einungis viðurkenna
Bandaríkin að hafa átt þátt í að búa vandamálið til, heldur tökum við líka
á okkur þá ábyrgð að gera eitthvað í málinu,“ sagði Obama.
RÁÐSTEFNAN SJÁLF HEFUR MIKLA MENGUN Í FÖR MEÐ SÉR
Barack Obama
300.000 tonn af
kolefni á ferðalaginu