Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2006, Side 39

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2006, Side 39
RITRÝND GREIN frásagnir af daglegum gangi og með því að athuga eða kanna það sem fólk er að fást við í merkíngarbæru samhengi (Benner o.fl., 1996). Við vettvangsathugun skoðar rannsakandinn venjur og hætti ákveðins samfélags og reynir að átta sig á fyrirkomulaginu og ferlinu innan hópsins (Polit og Hungler, 1997). Vettvangsathugun felur í sér viðveru á staðnum þó nokkurn tíma, en vegna eðlis verkefnisins var talið réttlætanlegt að aðlaga aðferðafræðilega nálgun markmiðum þess og einfalda gagnasöfnun. Enn fremur höfðu báðir höfundar talsverða reynslu af störfum á hjúkrunarheimilum og annar höfunda hafði unnið þar umfangsmikla vettvangsrannsókn (Margrét Gústafsdóttir, 1999). Við gagnasöfnun var fyrst og fremst lögð áhersla á það að komast að því með viðtölum hvernig fyrirkomulag á ákveðínni deild hafði áhrif á mat og meðferð við þvagleka í daglegum gangi og þá hvernig markmið meðferðarinnar voru ákveðin. Hjúkrunarheimilin, sem athugunin var framkvæmd á, voru áþekk að mörgu leyti. Þau höfðu bæði orð á sér fyrir góða umönnun, voru af svipaðri stærð, höfðu álíka fjölda deilda og íbúa og voru bæði á höfuðborgarsvæðinu. Herbergjaskipan og aðgengi að salernum var um flest sambærilegt. Fjöldi stöðugilda var jafn og bæði heimilin höfðu reynda sjúkraliða í verkefnastjórastöðum1. Með því að velja tvö heimili gafst ekki tími til að kanna viðfangsefnið eins vel og ef einungis um eitt heimili hefði verið að ræða. Hins vegar gaf þetta fyrirkomulag tækifæri til samanburðar auk þess sem það var talið æskilegra til að fá meiri yfirsýn þar sem viðfangsefnið hafði ekki verið kannað hérlendis áður með sambærilegum hætti. Eftir að viðeigandi leyfi höfðu fengist voru tekin viðtöl við hjúkrunarforstjóra heimilanna og hjúkrunardeildarstjóra og sjúkraliða á almennri deild og heilabilunardeild á hvoru heimili um sig, alls 10 aðila. Við val á þátttakendum var litið til þess að þeir gæfu sem réttmætasta mynd af samfélaginu sem kannað var, að þeir væru trúverðug rödd og gæfu sannferðugar upplýsingar (Sapsford og Abbott, 1992). Hvert viðtal tók um 30-60 mínútur og var stuðst við spurningaviðmið sem samið hafði verið í þessum tilgangi (Anný Lára Emilsdóttir, 2003). í viðtölum við hjúkrunarforstjóra var leitast við að fá fram upplýsingar um heildarstefnu heimilanna varðandi þvagleka íbúanna, fjárhagslegan kostnað tengdan þvagleka og niðurstöður RAI-mats2. í viðtölum við deildarstjóra og sjúkraliða var leitað eftir upplýsingum um markmið deildarinnar með meðferð við þvagleka, hvernig mat á vandanum færi fram, og útfærslu meðferðar. Svör eða áherslur í frásögn viðmælenda voru punktaðar niður meðan á viðtali stóð en síðan unnið úr hverju viðtali samdægurs til þess að draga það saman í heildarmynd. Við gagnasöfnunina var einnig varið dagsparti í sameiginlegu rými á deildunum, þar sem athugunin var framkvæmd, til að fá yfirlit yfir aðstæður og setja upplýsingarnar í samhengi. Að lokinni gagnasöfnun var gerð samantekt á þeim gögnum sem safnað hafði verið á hverri deild og þau því næst túlkuð með því að leggja út af og bera saman frásagnir viðmælenda innan sömu deilda, milli deilda og síðan milli heimila. Við útlegginguna og samanburðinn var leitað eftir áhersluatriðum í frásögn þátttakenda til þess að draga fram heildstæða mynd þar sem sameiginlegir þættir og mismunur í reynslu þátttakenda af mati og meðferð við þvagleka kom fram. Niðurstöður Óverulegur munur reyndist á deildunum varðandi algengi þvagleka og hvers konar meðferð var beitt við honum samkvæmt RAI- mati. RAI-matið sýndi að um 65% íbúa deildanna í athuguninni 'þjáðust af þvagleka alla jafna. Um 75% heimilismanna notuðu bleiu en þvagleggir voru lítið sem ekkert notaðir. Einni tegund atferlismeðferðar var beitt, það er reglubundnum salernisferðum, en tæpum 60% íbúa var veitt sú meðferð á vökutímum (óbirtar RAI-niðurstöður viðkomandi heimila árið 2002). Áþekkt fyrirkomulag var viðhaft um markmiðsetningu og mat á deildunum. Markmiðið með meðferð við þvagleka var talið að ná mesta mögulega árangri hjá hverjum og einum íbúa með hliðsjón af líkamlegri og vitsmunalegri getu hans. Við mat á vandanum var upplýsinga aflað úr sjúkraskrám og við aðhlynningu og „rapportin" notuð til að miðla upplýsingunum. Tímasetningar reglubundnu ferðanna voru aðallega í tengslum við matmálstíma og sýndu íbúar almennt góða samvinnu. Þátttakendur töldu að vel gengi að fá starfsfólk til að framfylgja meðferðaráætluninni og þetta væri eitt af forgangsverkefnunum. Hjúkrunarforstjórar ræddu um mikilvægi þess að halda umræðunni um þvagleka og meðferð við honum opinni og sjúkraliðar sögðust gæta þess að óreynt starfsfólk fengi fræðslu og kennslu í faglegum vinnubrögðum við meðhöndlun þvagleka. Góð samvinna og traust virtist ríkja á milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í þessum efnum. Fullnægjandi mönnun hafði að flestra mati áhrif á gæði þvaglekaumönnunar. Sjúkraliðar voru mjög ánægðir með það fyrirkomulag að bera ábyrgð á sama íbúahópi í marga mánuði í senn og töldu umönnunina batna við það. Margþættur ávinningur var talinn felast í því að beita forvörnum og reglubundnum salernisferðum. Þrátt fyrir að mikill tími og vinna færi í að framfylgja reglubundnum ferðum var það talið fyrirhafnarinnar virði og var vilji til að beita þessari aðferð enn frekar. Starfsfólk skynjaði vinnuálag mjög ólíkt eftir heimilunum þrátt fyrir að hjúkrunarþyngd og íbúafjöldi væri sambærilegur. í Ijósi þessa voru mönnunartölur deildanna skoðaðar nánar og kom í Ijós að heildarfjöldi starfsmanna var sá sami á báðum heimilum. Aftur á móti reyndist hlutfall fagfólks, það er að segja hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, töluvert hærra á heimilinu þar sem starfsfólkinu fannst umönnunarálag minna, og hlutfall ófaglærðra var þá lægra þar. Þess ber og að geta að aðgengi að salernum var ívíð betra á því heimili. 1 Verkefnastjóri er reyndur sjúkraliði sem sinnir sama íbúahóp í langan tíma og gegnir sérstöku umsjónarhlutverki við ákveðna þætti í umönnun hópsins í samvinnu við hjúkrunarfræðing. 2 RAI, resident assessment instrument/raunverulegur aðbúnaður ibúa, er heiti á matskerfi sem mælir aðbúnað og þjónustu á öldrunarstofnunum og heilsufar íbúanna. Tímarit hjúkrunarfræðinga - 3. tbl. 82. árg. 2006 37

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.