Morgunblaðið - 09.02.2017, Blaðsíða 82
82 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. FEBRÚAR 2017
✝ Eiður Svan-berg Guðnason
fæddist í Reykjavík
7. nóvember 1939.
Hann varð bráð-
kvaddur á heimili
sínu, Bjarkarási 18,
Garðabæ, 31. jan-
úar 2017.
Foreldrar Eiðs
voru Guðni Guð-
mundsson, verka-
maður í Reykjavík,
f. 14.6. 1904, d. 17.11. 1947, og
Þóranna Lilja Guðjónsdóttir,
húsmóðir, f. 4.6. 1904, d. 17.3.
1970. Systkini Eiðs voru Ingi-
gerður Þórey, f. 1940, d. 1982,
var gift Bjarna Þjóðleifssyni, og
Guðmundur Brynjar, f. 1942,
maki Guðríður Eygló Þórð-
ardóttir. Bræður Eiðs, samfeðra,
voru Tryggvi, f. 1930, d. 1952,
og Sverrir, f. 1937, d. 1988, var
giftur Erlu Ásgeirsdóttur.
Eiður kvæntist hinn 16. mars
1963 Eygló Helgu Haraldsdóttur
píanókennara, f. 19.1. 1942, d.
13.5. 2015. Foreldrar hennar
voru Haraldur Gíslason, f. 1917,
d. 1999, og Þórunn Guðmunds-
dóttir, f. 1918, d. 2005. Börn
þeirra Eiðs og Eyglóar eru: 1)
Helga Þóra, f. 1963, maki Ingvar
Örn Guðjónsson, f. 1963. Þeirra
börn: Eygló Erla, f. 1989, Hildur
Helga, f. 1993, og Kolfinna Katr-
ín, f. 1999. 2) Þórunn Svanhild-
ur, f. 1969, maki Gunnar Bjarna-
ráðherra Norðurlandanna
1991-93. Hann var sendiherra Ís-
lands í Noregi 1993-98, skrif-
stofustjóri auðlinda- og um-
hverfisskrifstofu
utanríkisráðuneytisins 1998-
2001, aðalræðismaður Íslands í
Winnipeg í Kanada 2001-2002,
sendiherra Íslands í Kína 2002-
2006 og skrifstofustjóri menn-
ingarmálaskrifstofu utanrík-
isráðuneytisins 2006. Hann var
skipaður aðalræðismaður Ís-
lands í Færeyjum 2007. Eiður lét
af störfum í ársbyrjun 2009. Eið-
ur sat í fjölmörgum nefndum og
stjórnum. Hann sat m.a. í stjórn
Skátafélags Reykjavíkur 1959-
60, Fulbright-stofnunarinnar
1964-69, Blaðamannafélags Ís-
lands 1968-73 (formaður 1971-
72), flokkstjórn Alþýðuflokksins
1964-69 og 1978-93, og útvarps-
ráði 1978-87. Hann var formað-
ur fjárveitinganefndar Alþingis
1979-80. Hann sat í Norð-
urlandaráði 1978-79 og 1981-89
og var formaður Íslandsdeildar
ráðsins 1978-79 og jafnframt í
forsætisnefnd þess. Hann var
formaður menningarmála-
nefndar Norðurlandaráðs 1981-
87, laganefndar ráðsins 1987-89
og sat í fjárlaganefnd þess 1981-
89.
Hann var fulltrúi á allsherj-
arþingi SÞ 1980 og á þingi Evr-
ópuráðsins 1989-1991. Hann sat í
stjórn Samtaka um vestræna
samvinnu frá 1982 og var for-
maður Skátasambands Reykja-
víkur 1988-89.
Eiður Svanberg verður jarð-
sunginn frá Hallgrímskirkju í
dag, 9. febrúar 2017, og hefst
athöfnin kl. 15.
son, f. 1969. Þeirra
börn: Eiður Sveinn,
f. 1993, og Lára
Lilja, f. 1995. 3)
Haraldur Guðni, f.
1972, maki Ragn-
heiður Jónsdóttir, f.
1973. Þeirra börn:
Eygló Helga, f.
1999, Jón Hilmir, f.
2003, og Halldór
Hrafn, f. 2011.
Eiður var í
Austubæjarskóla og lauk stúd-
entsprófi frá Menntaskólanum í
Reykjavík 1959. Hann nam
stjórnmálafræði við háskólann í
Delaware í Bandaríkjunum
1960-61, varð löggiltur dómtúlk-
ur og skjalaþýðandi í ensku 1962
og lauk BA-prófi í ensku og
enskum bókmenntum við HÍ
1967.
Eiður var blaðamaður og síð-
ar ritstjórnarfulltrúi á Alþýðu-
blaðinu 1962-67, var fréttamað-
ur Sjónvarpsins 1967-78,
varafréttastjóri 1971-78 og um
skeið yfirþýðandi. Hann stjórn-
aði gerð fjölda sjónvarpsþátta
og heimildamynda, og þýddi út-
varpsleikrit og -sögur.
Eiður var varaborgarfulltrúi
Alþýðuflokksins í Reykjavík
1966-70, alþingismaður Alþýðu-
flokksins í Vesturlandskjördæmi
1978-93, þingflokksformaður Al-
þýðuflokksins 1983-91 og um-
hverfisráðherra og samstarfs-
Það er of stutt síðan ég skrifaði
minningargrein um mömmu, að-
eins tæp tvö ár. Í veikindum
hennar, sem stóðu hátt í áratug,
stóð pabbi við hlið hennar eins og
kletturinn sem hann var. Þrátt
fyrir að aðdragandinn að kveðju-
stund mömmu hafi verið langur
var fráfall hennar pabba þung-
bært. Þau voru samrýnd hjón og
hvort öðru afar kær. Segja má að
hann hafi að vissu leyti aðeins
verið hálfur maður eftir að hún
kvaddi.
Pabbi var engu að síður búinn
að finna aftur takt í lífinu. Hann
var alla tíð mjög vinnusamur
maður, frá unga aldri fram á síð-
asta dag.
Var duglegur að hitta vini og
ættingja. Hann naut þess, bæði á
námsárum og þeim vinnustöðum
sem hann vann á, að eignast vini
fyrir lífstíð sem voru honum afar
dýrmætir – ekki síst síðustu árin.
Hann hafði sterkar skoðanir á
mönnum og málefnum og kom
þeim á framfæri, oft á nokkuð
kjarnyrtri íslensku. Hann var af-
ar fylginn sér og var baráttumað-
ur fyrir því sem hann taldi þess
virði að berjast fyrir. Vel þekkt er
ástríða hans fyrir íslenskri tungu
og svo munaði nú minnstu að við
hefðum þurft að sækja hann í
fangelsi vegna mótmæla þegar
hann var vel kominn á áttræðis-
aldurinn. Misbauð honum, eins og
mörgum öðrum, þau umhverfis-
spjöll sem unnin voru í Gálga-
hrauni þar sem hann hafði iðulega
gengið og notið útivistar og nátt-
úru.
Þegar ég kveð pabba er mér
þakklæti efst í huga. Þakklæti
fyrir það líf sem pabbi og mamma
gáfu okkur systkinunum. Þau
bjuggu okkur gott heimili í upp-
vextinum sem var okkur það skjól
sem börnum er svo mikilvægt og
góð kjölfesta út í lífið. Þau voru
einstaklega góðar fyrirmyndir,
góðir vinir og stoð þegar á þurfti
að halda. Þau voru alltaf til staðar
fyrir okkur, hvort sem var í æsku
eða á okkar fullorðinsárum, og
ekki síður fyrir barnabörnin.
Ég veit að það mikilvægasta í
lífi pabba var fjölskyldan;
mamma, við systkinin og fjöl-
skyldur okkar. Hann er nú kom-
inn aftur til mömmu, þar sem
hann vildi helst vera.
Elsku pabbi, takk fyrir allt.
Haraldur Guðni Eiðsson.
Elskulegur tengdafaðir minn
er fallinn frá, allt of fljótt og
óvænt. Ég var fimmtán ára þegar
ég kom fyrst inn á heimili þeirra
Eyglóar og Eiðs í Kúrlandinu,
sem varð svo mitt annað heimili.
Þó svo að Eiður væri e.t.v. ekki
sáttur við að elsta dóttir hans
væri komin með kærasta svona
ung að árum tók Eiður mér frá
upphafi afar vel.
Örlögin höguðu því svo þannig
að við bjuggum lengi vel í hvort í
sínu landinu, við Helga Þóra við
nám eða störf erlendis eða Eiður
og Eygló að sinna embættisstörf-
um erlendis. Þrátt fyrir það voru
tíðar heimsóknir á milli okkar þar
sem við dvöldum á heimilum
hvert annars í fríum og áttum
góðar stundir saman. Sérstak-
lega minnist ég sumarfríanna í
Noregi, en við heimsóttum þau
með börnin lítil á hverju sumri
mánuð í senn þau fimm ár sem
Eiður var sendiherra þar. Einnig
áttum við góðar heimsóknir til
Kína þar sem Eiður lóðsaði okk-
ur um Peking og nágrenni eins og
innfæddur.
Eiður var einstaklega fróður
maður, mikill lestrarhestur og
munaði ekki um að klára heilu
doðrantana á einum degi. En
hann var ekki einungis sílesandi,
heldur mundi hann allan þann
fróðleik sem hann las og kom ég
aldrei að tómum kofanum hjá
honum. Einnig var hann góður
kokkur. Ég man eftir honum frá
fyrstu tíð að hann eldaði til jafns
við Eygló ofan í fjölskylduna,
sem var ekki algengt á þeim tíma.
Einnig var hann öflugur grill-
meistari, hvort sem það var steik
á kolagrilli eða lambalæri í holu í
garðinum. Hjá Eiði lærði ég að
meta „annars konar kjöt“, s.s. fol-
alda- og hrossakjöt, vel mariner-
að og útigrillað.
Við Eiður vorum um margt lík-
ir og áttum margar góðar sam-
verustundir, bara tveir að sýsla
við tölvuna hans eða ræða um
málefni líðandi stundar. Á síð-
ustu vikum áttum við óvenju
margar stundir saman þar sem
hann þurfti að uppfæra tölvubún-
aðinn heima hjá sér og var ég
honum innan handar með það.
Keypt var öflug tölva og tveir
stórir skjáir og var hann alsæll
með nýja búnaðinn þar sem hann
ætlaði að skrifa næstu þúsund
Molana sína.
Tveimur dögum fyrir andlátið
var Eiður í kvöldmat hjá okkur
og lék á als oddi. Hann var m.a.
búinn að panta ferð til útlanda
seinna á árinu og ekkert benti til
þess að neitt amaði að honum.
Þess vegna kom andlátsfregnin
eins og þruma úr heiðskíru lofti
og skilur okkur eftir í áfalli. Hann
tengdafaðir minn var kletturinn í
fjölskyldu okkar og missirinn er
mikill.
Ég sakna góðs manns sem ég
bar mikla virðingu fyrir og syrgi.
Þinn tengdasonur
Ingvar Örn.
Mig langar að stinga niður
penna og skrifa örfá orð til að
minnast tengdaföður míns og
vinar, Eiðs Svanbergs Guðnason-
ar, sem lést 31. janúar síðastlið-
inn. Mér var brugðið að heyra að
maður sem var jafn hress og
sprækur og Eiður væri svo
skyndilega farinn. Bara nokkrum
dögum áður setti ég nagla í sól-
ana á nýju gönguskónum hans.
Hann ætlaði að eiga auka
gönguskó til að nota í hálku,
þannig að færðin tæki ekki frá
honum gönguferðirnar. Mér er
efst í huga þakklæti þegar ég
minnist hans. Þakklæti fyrir hvað
sá tími sem við áttum með honum
og Eygló tengdamömmu, þessi
tæplega 30 ár sem við þekktumst,
var góður og skemmtilegur.
Áreynslulaus. Okkur Eiði kom
afskaplega vel saman og eins og
er með fólk, þá byggir það gjarn-
an brýr sín á milli með sameig-
inlegum áhugamálum. Þar var
áhuginn á landafræði, landinu
okkar og útiveru ofarlega á lista,
sem gaf okkur báðum mikið. Póli-
tík var líka gaman að ræða við
hann, sérstaklega þegar við vor-
um ekki sammála.
Hann passaði vel upp á sína og
var alla tíð duglegur að vera í
sambandi við fjölskyldu og vini til
að heyra hvernig gengi og ætíð
tilbúinn að bjóða fram hjálp ef
þurfti. Það var gott að fá að kynn-
ast þér, kæri tengdó, hafðu þökk
fyrir allt.
Gunnar Bjarnason.
Við fráfall elsku afa Eiðs hef
ég misst mann sem var mér ein-
staklega mikilvægur. Hann hefur
fylgt mér í gegnum lífið og alltaf
verið til staðar fyrir mig. Ég er
einkar þakklát fyrir allar góðu
stundirnar sem við áttum saman
enda eru þær ómetanlegar. Hvar
í heiminum sem þær áttu sér
stað. Margar skondnar, aðrar
lærdómsríkar og enn fleiri mót-
andi fyrir mig sem manneskju.
Þegar afi og amma bjuggu til að
mynda í Kína var ég svo lánsöm
að fá að vera ein eftir hjá þeim
þegar afgangurinn af fjölskyld-
unni hélt heim á leið. Þessa tíma
minnist ég með mikilli hlýju. Ég
var duttlungafullur unglingur og
lét hafa fyrir mér. Þau gerðu þó
allt til þess að láta mér líða sem
best. Sem dæmi má nefna að það
var farið út að borða á sama
pítsustaðnum annan til þriðja
hvern dag, einungis af því að
hann var í miklu uppáhaldi hjá
mér. Eitt atvik er mér þó sér-
staklega minnisstætt frá kvöld-
verðum okkar. Við vorum að
borða á kínverskum veitingastað
og þar afgreiddi okkur glaðleg
stúlka. Afi benti mér þó á að taka
eftir höndunum á henni.
Eftir að hann vakti athygli
mína á þeim tók ég eftir því
hversu illa þær voru farnar.
Hann sagði mér að ástæðan væri
sú að stúlkan hefði þurft að vinna
mikla erfiðisvinnu sem barn og
unglingur og afleiðingarnar voru
afmyndaðar hendur. Þetta var
nokkuð sem hann var meðvitaður
um og tók eftir, hann vissi hvað
það var að þurfa að vinna og
virkilega hafa fyrir hlutunum.
Ég og afi tengdumst sterkum
böndum í gegnum bækur. Við
vorum bæði miklir lestrarhestar
og hann var sá fyrsti sem kynnti
gæðabókmenntir fyrir mér. Mér
leiddist aldrei að fara í gegnum
bókaskápana hans og ömmu. Svo
var hann alltaf að gauka að mér
bókum. Hvort sem það var af því
að hann vissi að ég myndi njóta
þeirra eða þá að hann hafði óvart
keypt sömu bókina tvisvar. Einn-
ig var ég alltaf sú fyrsta sem fékk
að koma þegar hann var að grisja
í bókaskápunum. Við áttum
margar góðar stundir þar sem ég
fékk að fara í gegnum kassa eftir
kassa hjá honum og hann sagði
mér frá bókunum.
Afi var ein helsta fyrirmyndin
mín enda kom ég aldrei að tóm-
um kofanum hjá honum.
Hann hafði einstaklega marga
góða eiginleika að bera en um-
fram allt var hann þó mikill fjöl-
skyldumaður. Ég vissi alltaf að
hann myndi gera allt sem í hans
valdi stæði til að hjálpa mér ef
eitthvað bjátaði á eða ef ég leitaði
til hans.
Hjartað mitt brestur við til-
hugsunina að hann sé ekki að
koma í mat á næstunni eða heim-
sækja mig í Eymundsson eins og
hann gerði reglulega. Ég átta
mig ekki alveg á því hvort að
hann átti svona oft erindi í
Kringluna eða hvort honum
fannst bara svona gaman að
koma og spjalla við mig. Fá
kannski einstaka bók lánaða í
leiðinni.
Sorgin og myrkrið er ansi yf-
irgnæfandi þessa dagana. Á sama
tíma er ég þó afar þakklát. Þakk-
lát fyrir að hafa fengið að vera
þess heiðurs aðnjótandi að eiga
Eið sem afa minn. Hann var eini
afinn sem ég átti og hefði ekki
getað staðið sig betur í því mik-
ilvæga hlutverki. Hvíl í friði,
elsku afi Eiður.
Eygló Erla.
Elsku afi Eiður, klári og frá-
bæri afi minn. Ég á svo erfitt með
að trúa því að þú sért farinn.
Ekki voru margir jafn hraustir
og þú á þínum aldri. Ég er svo
þakklát fyrir minningarnar og
góðu tímana sem við höfum átt
saman.
Ég mun alltaf muna eftir því
þegar ég fór með þér nokkrum
sinnum í Garðinn og þú sagðir
sögur frá þér þegar þú varst lítill
og ættinni minni í Garðinum.
Einnig í bílferðunum á leiðinni,
þangað varstu að segja mér sög-
ur frá öllu í kringum okkur, ég er
nokkuð viss um að ég muni aldrei
kynnast neinum jafn fróðum og
þér.
Ég er mjög þakklát fyrir þess-
ar stundir og eru þær mér ofar-
lega í huga og hjarta.
Þó að þið amma byggjuð ekki
alltaf á Íslandi var samt svo ótrú-
lega gaman að koma í heimsókn
til ykkar og fá ykkur í heimsókn,
ég var alltaf svo spennt að fá
loksins að hitta ömmu og afa. Ég
mun seint gleyma góðu tímunum
sem við fjölskyldan áttum með
ykkur í Kína. Bara góðar minn-
ingar sem ég á frá þessum ferð-
um.
Þú varst og verður alltaf fyrir-
myndin mín og þú átt stóran
hluta af hjartanu mínu, elsku afi.
Ég veit að amma Eygló mun taka
vel á móti þér.
Ég kveð þig með miklum sökn-
uði og mér mun þykja ótrúlega
vænt um þig alla tíð. Þín afa-
stelpa,
Kolfinna Katrín.
Eiður Guðnason var bæði
sannur og skemmtilegur vinur
sem skilur eftir sig tóm sem erfitt
verður að fylla. Hann var sérlega
áhugasamur um menn og málefni
og fylgdist afskaplega vel með
bæði hér innanlands og með al-
þjóðastjórnmálum. Hann lá ekki
á skoðunum sínum og einmitt
þess vegna hafði ég unun af sím-
tölum okkar og spjalli um sam-
félagsmál, stjórnmál, menn og
málefni enda var Eiður reyndur,
víðlesinn og bráðgreindur maður
sem hafði áratugum saman
margvísleg áhrif á samfélagið.
Það gerði hann sem fjölmiðla-
maður, stjórnmálamaður, nátt-
úruverndarsinni og á liðnum ár-
um skeleggur baráttumaður fyrir
vönduðu málfari með reglulegum
bloggfærslum sínum og skrifum
á Facebook. Pistlar hans voru
skyldulesning á mörgum fjöl-
miðlum og þar naut hann virð-
ingar, þótt sumum þættu skrifin
hans stundum helst til beitt. En
það var hans stíll og hluti af því
að koma hugsunum sínum og
skoðunum á framfæri þannig að
eftir var tekið.
Eiður var spaugsamur maður
og hafði góðan húmor, ekki síst
gagnvart sjálfum sér. Hann var
mikill listunnandi og þau voru ófá
skiptin sem hann hringdi til að
segja frá tónleikum sem hann
ýmist fór á eða fylgdist með af
áhuga á erlendum sjónvarps-
stöðvum.
Næmi hans fyrir góðri og vel
spilaðri tónlist leyndi sér ekki í
þau skipti sem við fórum saman á
tónleika og kom vel í ljós hversu
vel hann var að sér í tónlistarsög-
unni, þeirri klassísku, djassi, blús
og rokki.
Ég kveð vin minn og mannvin-
inn Eið Svanberg Guðnason með
söknuði og sendi aðstandendum
hans mínar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Þorsteinn G. Gunnarsson.
Þetta var honum líkt. Að
morgni síns hinsta dags birti Eið-
ur bloggfærslu nr. 2103 um hugð-
arefni sitt, íslenskt mál, um það
sem betur mætti fara. Seinasti
dagurinn reyndist vera venjuleg-
ur vinnudagur í þágu góðs mál-
efnis. Það lýsir manninum betur
en mörg orð.
Sumir kynnu að ætla, að þessi
málvöndunaráhugi hans hefði
vaknað með honum á efri árum,
svona fremur en að gera ekki
neitt. Grunur minn er hins vegar
sá, að þetta hafi verið rauði þráð-
urinn í starfi fjölmiðlamannsins.
Eiður Guðnason var nefnilega alla
tíð blaðamaður par excellence.
Sem slíkur sleit hann barnsskón-
um á Alþýðublaðinu. Einn
margra, sem það litla blað kom til
manns á vettvangi þjóðmálanna.
Þá þegar sannfærður jafnaðar-
maður.
Síðar gerðist hann brautryðj-
andi íslensks sjónvarps, eftir að
það hóf göngu sína 1966, þá af
miklum vanefnum. Og alltaf var
hann í starfi sínu sami metnaðar-
fulli málvöndunarmaðurinn. Það
olli honum allt að því líkamlegri
vanlíðan að heyra málinu mis-
þyrmt. Að sama skapi gladdi það
hann að heyra og sjá meistaratök
á máli og stíl. Og hafði orð á.
Við vorum samstarfsmenn í
þingflokki Alþýðuflokksins í hálf-
an annan áratug, þar af undir
þingflokksformennsku hans í tvö
kjörtímabil. Eiður var eðalkrati.
Traustur og óbifanlegur. Ég hafði
hins vegar fetað pólitíska refil-
stigu, áður en ég rataði aftur
heim. Eðlilega gætti því nokkurr-
ar tortryggni af hans hálfu gagn-
vart þessu aðskotadýri í upphafi.
En hún hvarf brátt eins og dögg
fyrir sólu í vinnugleði þess skap-
andi umbótastarfs, sem einkenndi
Alþýðuflokkinn á þessum árum.
Eiður Guðnason var í verk-
stjórnarhlutverki sem þingflokks-
formaður og síðar ráðherra við að
tryggja hverju stórmálinu á fætur
öðru framgang á Alþingi. Þeir
sem ekki þekkja þessa sögu, geta
kynnt sér hana af öndvegisriti
Guðjóns Friðrikssonar, sagnfræð-
ings: „Úr fjötrum“ Átakasaga – en
árangursrík.
Nokkur dæmi: Einmanaleg
barátta Alþýðuflokksins fyrir
þjóðareign á auðlindunum. Við
náðum að lögfesta það, en fram-
kvæmdin er enn í skötulíki. Skatt-
kerfisbyltingin 1987-88, sem end-
urreisti tekjustofna velferðar-
ríkisins. Þjóðþrifaverk, lítt til
vinsælda fallið. EES-samningur-
inn, sem enn í dag er aðgöngumiði
okkar að stærsta fríverslunar-
markaði heims og þar með lyfti-
stöng efnahagsbatans eftir hrun.
Lausnir á húsnæðisvandanum:
Annars vegar félagslegar lausnir,
kaupleiguíbúðir og endurnýjun
verkamannabústaðakerfisins,
sem illu heilli var síðar rústað af
skammsýnum mönnum. Hins veg-
ar markaðslausnir húsbréfakerf-
isins. Skapandi utanríkispólitík,
sem enn er minnst með þakklæti
með öðrum þjóðum. Og er þá fátt
eitt talið.
Í öllum þessum málum var Al-
þýðuflokkurinn frumkvöðull og
gerandi í harðri andstöðu við
kyrrstöðuöfl. Sem þingflokksfor-
maður Alþýðuflokksins á þessu
umbótaskeiði gegndi Eiður
Guðnason þýðingarmiklu forystu-
hlutverki.
Nú, þegar komið er að leiðar-
lokum, vil ég fyrir hönd gamalla
samstarfsmanna þakka Eiði fyrir
drengskap og dug í baráttu fyrir
þörfum umbótamálum í þágu
lands og þjóðar.
Við Bryndís flytjum afkomend-
um Eiðs og Eyglóar innilegar
samúðarkveðjur. Það er huggun
harmi gegn, að minningin um góð-
an dreng mun lifa.
Jón Baldvin Hannibalsson,
fv. formaður Alþýðuflokks-
ins.
Eiður Svanberg
Guðnason
HINSTA KVEÐJA
Með tárin í augunum
segi ég hvíldu í friði, elsku
besti afi minn. Hjartað mitt
er í molum. Þú reyndist
okkur systrum alltaf svo
ólýsanlega vel og varst fyr-
irmynd mín í einu og öllu.
Ég mun alltaf elska þig og
sakna.
Þín afastelpa,
Hildur Helga.
Þú ert áfram líf af okkar lífi:
líkt og morgunblær um hugann
svífi
ilmi og svölun andar minning
hver
– athvarfið var stórt og bjart hjá
þér.
Allir sem þér unnu þakkir gjalda.
Ástúð þinni handan blárra tjalda
opið standi ódauðleikans svið.
Andinn mikli gefi þér sinn frið.
(Jóhannes úr Kötlum)
Þín elskandi
Helga Þóra, Þórunn Svan-
hildur og Haraldur Guðni.