Skírnir - 01.09.2014, Page 12
lítið um uppruna Sturlu, fjölskyldu og ævi, og án Hákonar sögu
væri aðeins brot af kveðskap hans varðveitt og litlar upplýsingar
um norsku hliðina á Íslandssögu þrettándu aldar. Í Sturlu þætti er
sagt frá stuðningi Sturlu við Snorra son sinn sem fékk Staðarhól,
þar sem Sturla líkist dálítið Sighvati í einbeittum stuðningi við
metnaðarfullan son — en í síðari hluta þáttarins er frama hans við
hirð Magnúsar lagabætis lýst. Ekki er sagt meira frá Snorra Sturlu-
syni hinum yngri, en Þórður eldri sonur Sturlu hlaut frama í Nor-
egi og varð prestur við hirðina. Í Árna sögu heyrum við um
ráðaleysi Sturlu sem lögmanns þegar hann snýr heim eftir dvöl í
konungsgarði. Allar þessar frásagnir hafa gengið í handritum og
verið endurmetnar á öllum öldum, skýrðar og skildar eftir því
hvernig skoðanavindar hafa blásið á hverjum tíma. Íslendingasaga
var felld inn í Sturlungu og margir drættir í henni gerðir enn skýrari
af ritstjóra safnsins um 1300, sem var væntanlega Þórður Narfason,
náfrændi Helgu Þórðardóttur, konu Sturlu. Sagan er síðan endur-
rituð á fjórtándu öld og birtist okkur í tveimur gerðum í handritum
frá lokum þeirrar aldar. Í hinni skagfirsku Reykjarfjarðarbók er
bætt við Þorgils sögu skarða og líklega Sturlu þætti — og þar er
Sturlunga í handriti með jarteinum Guðmundar biskups góða og
Árna sögu biskups og því sett í samhengi við mikilvæg rit kirkj-
unnar. En í hina vestlensku Króksfjarðarbók er bætt við löngum
draumaköflum fyrir Örlygsstaðabardaga og eftir Flugumýrar-
brennu sem undirstrika svo um munar þessi tvö mikilfenglegu ris í
frásögninni. Þar er líka kaflinn um árás Skagfirðinga á bæinn í Sæl-
ingsdalstungu árið 1245, þar sem Sturla dvaldi með tengdamóður
sinni. Sturla er þá fjarri en árásarmenn hræða konu hans og ung
börn. Snorri, aðeins fjögurra vikna, er borinn í skjól kirkjunnar.
Amma hans Guðný er ein af konunum sem minna stöðugt á sig
í Íslendingasögu Sturlu; hún kom auga á mannkosti unga drengsins
og tók hann með sér í Reykholt í læri til Snorra. Frá sumu er sagt
af nákvæmni lögmannsins, lið fyrir lið, skref fyrir skref, en oft eru
stór örlög falin í aukasetningu — ekki síst þegar við nálgumst einka-
hagi Sturlu, fjölskyldu hans eða ritun bókmennta. Hann skírir yngri
dóttur sína Guðnýju eftir ömmu sinni, en þá eldri Ingibjörgu. Til
hvaða Ingibjargar hugsuðu þau Helga þegar þau völdu nafnið?
236 guðrún nordal skírnir
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 236