Skírnir - 01.09.2014, Blaðsíða 138
djákna eða æðri vígslur. Má því árétta að hann var á sinn hátt
menntaður í klerklegum eða latneskum fræðum, eins og Sverrir
Tómasson benti á, en það hefur hann varla orðið með því að lesa
sjálfur lærð rit á latínu; slíka menntun hefur hann líklega helst sótt
til annarra sem hafa miðlað henni á norrænu máli.
Ætlað laganám
En í hverju skyldi veraldlegt nám Snorra helst hafa verið fólgið?
Turville-Petre (1953/1967: 221) segir að í Odda hafi Snorri hlotið
menntun leikmanns og telur námsefnið hafa verið fornan kveðskap,
sögu og goðafræði. Gísli Sigurðsson (2013: 202, 206, 207) telur að
Snorri hafi menntast í lögfræði, skáldskaparfræðum, ættfræði,
heimsmyndarfræði, goðafræði og frásagnarlist. Þeir Turville-Petre
fjalla ekki nánar um þetta nám en við þessa upptalningu ætti að bæta
sögulegri þekkingu og tengja því hvernig Snorri færði sér í nyt forn
kvæði um Noregskonunga. Hér geri ég fastlega ráð fyrir að hann
hafi látið taka saman Snorra-Eddu og að Heimskringla sé frá honum
komin, a.m.k. Ólafs saga helga.
Snorri varð lögsögumaður og hlýtur því að hafa verið vel að sér
í lögum. Í Odda voru líklega ófáir sem gátu kennt honum eitt og
annað í veraldlegum fræðum, t.d. menn sem voru fróðir um lög og
lagakróka. Um suma fornmenn er sagt að þeir hafi verið lögvitrir,
aðrir leituðu ráða hjá þeim. Um goða einn á 12. öld er sagt, „[e]ngi
var hann lagamaður“ og þótti ljóður á ráði hans (Sturlunga saga I
1946: 68). Hann hefur þá þurft að hafa sér við hlið ráðgjafa um lög
og málaferli. Hér má rifja upp það sem segir í Njálu að Njáll bauð
Þórhalli Ásgrímssyni til fósturs. Um Þórhall segir: „Hann unni
meira Njáli en föður sínum. Njáll kenndi honum lög, svo að hann
varð mestur lögmaður á Íslandi“ (Brennu-Njáls saga 1954: 74).
Þarna sjáum við þekkt mynstur og Njáll gerðist fóstri Þórhalls eins
og Eyjólfur í Odda varð fóstri Þorláks, annar kenndi lög, hinn
klerkleg fræði. Snorri hefur væntanlega fengið fóstra í laganámi,
sennilega einhvern í Odda en um það vitum við ekki.
Á Alþingi störfuðu lögsögumenn og þóttu líklega með mestu
lögspekingum á hverjum tíma. Eins og kunnugt er varð Snorri lög-
362 helgi þorláksson skírnir
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 362