Skírnir - 01.09.2014, Blaðsíða 130
Þegar sveinstaulinn Snorri kom í Odda bjó þar stórhöfðinginn
Jón Loftsson, dóttursonur Magnúsar berfætts, Noregskonungs.
Jóni er lýst svona í Þorlákssögu, í svonefndri B gerð:
Í þann tíma réð Jón Loftsson fyrir Odda, sá er þá var mestur höfðingi á Ís-
landi. Hann var goðorðsmaður. Hann var hinn vísasti maður á klerkligar
listir, þær sem hann hafði numið af sínum foreldrum. Hann var djákn að
vígslu, raddmaður mikill í heilagri kirkju.3
Jón var veraldarhöfðingi og um leið menntaður klerkur eins og títt
var um íslenska goðorðsmenn á þessum tíma. Loftur prestur, faðir
Jóns, var sonur Sæmundar prests fróða sem dó 1133 og lifir þó í
þjóðsögum. Annar sonur Sæmundar var Eyjólfur prestur í Odda
og hjá honum lærði Þorlákur Þórhallsson, síðar biskup, sem
nefndur var Þorlákur helgi og Þorláksmessa er við kennd. Jón gat
numið af þeim feðgum öllum, jafnvel af Sæmundi, en hefur þá verið
ungur að árum. Ætlandi er að af þessum mönnum muni Loftur helst
hafa kennt Jóni klerkleg fræði.
Í sögu Þorláks biskups, í A-gerð, segir að þau móðir hans réðust
„í hinn æðsta höfuðstað í Odda undir hönd Eyjólfi presti Sæmund-
arsyni er bæði hafði höfðingskap mikinn og lærdóm góðan …“ Í B-
gerð sögunnar er Oddi nefndur „hinn hæsti höfuðstaður“ en ekki
hinn æðsti, eins og segir í hinni gerðinni (Þorláks saga A 2002: 49.
Þorláks saga B 2002: 145). Oddi taldist auðsæilega mikilvæg kirkju-
og valdamiðstöð og menntasetur.
Lýsingin á veru Þorláks í Odda er að öðru leyti svipuð í B-gerð
og í báðum er fullyrt að Eyjólfur hafi metið Þorlák mest allra sinna
lærisveina. Þessar lýsingar hafa gefið mörgum efni til að álykta að í
Odda hafi verið rekinn skóli og þar hafi sveinar verið búnir undir
að gerast klerkar. Eyjólfur hefur vafalaust kennt Þorláki latnesk
fræði og þau skiptust í það sem nefndist þrívegur og fjórvegur; þrí-
vegurinn voru málfræði, mælskulist og rökvísi en fjórvegurinn, eða
fervegurinn, voru tölvísi, flatarmálsfræði, stjörnuíþrótt og söngur.
Talið er að byrjendur hafi lært utan að atriði úr saltaranum á latínu,
354 helgi þorláksson skírnir
3 Þorláks saga B 2002: 166. Forn ritháttur er hér færður til nútíðarhorfs og jafnan í
því sem á eftir fer.
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 354