Skírnir - 01.09.2014, Blaðsíða 144
gert sér ljóst að hann var gott skáld, upprennandi höfðingi og laga -
maður og kannski vissu þeir líka að hann var góður fræðimaður,
vel að sér um sögu Noregs og þannig fengur fyrir hirðina.
Snorri varð því að tileinka sér þekkingu sem gat höfðað til
norskra ráðamanna. Við höfum vísbendingar um hvað féll í kramið
hjá þeim, Snorri gerðist vinur Skúla jarls í Noregi. Skúli hlaut her-
togatitil og hafði illan bifur á stórhöfðingjanum Gauti á Meli, sem
hann taldi ala á úlfúð. Hákonar saga segir:
Hertugi spurði einn dag Snorra Sturluson í skemmtan: „Hvort er það satt“,
sagði hann, „að þér segið að Óðinn, sá er atti saman fornkonungum, héti
Gautur öðru nafni?“ „Satt er það, herra“, sagði Snorri. „Yrk nú vísu að
því“, sagði hertugi, og seg hversu mjög þessi líkist þeim.“ (Hákonar saga
Hákonarsonar II 2013: 42 43)
Sagan sýnir áhuga Skúla á Óðni en jafnframt vissa fjarlægð sem
hefur þótt hæfa sannkristnum höfðingja. Snorri gerði sem hann var
beðinn, orti vísu og kom fram sem skáld og sérfræðingur um forna
trú og sögu og hefur vitað hvað höfðaði til norskra ráðamanna.
Þeim hefur væntanlega þótt forvitnilegt að heyra um Æsi og Vani
og komu ekki að tómum kofum þar sem Snorri var. Það er til vitnis
um þetta áhugamál að Snorri nefndi búð sína á Þingvöllum Val-
höll. Snorra-Edda sýnir að hverju áhuginn beindist, þ.e. að goða -
fræði og fornum skáldskap, þar með að kveðskaparfræði. Þetta var
varla nýtt áhugamál meðal norskra höfðingja, Norð maður inn
Rögnvaldur Kali, sem varð jarl í Orkneyjum, orti Háttalykil um
1142 með Íslendingnum Halli og þar kveða þeir undir ýmsum
háttum um forna kappa og líka um hernaðarafrek danskra og
norskra konunga á fyrri tíð (Guðrún Nordal 2001: 29 36). Rögn-
valdur orti vísu þar sem hann lýsir því hvað norrænn aristókrati
þarf að kunna og það var m.a. bragfræði, rúnalestur og bóklestur.
Snorra-Edda er undir stöðurit um bragfræði eða skáldskaparfræði
og einn þáttur hennar er Háttatal sem Snorri orti um þá Hákon
konung og Skúla.12
368 helgi þorláksson skírnir
12 Í bók sinni Snorri Sturluson and the Edda telur Kevin J. Wanner (2008) að Hákon
hafi ekki haft neinn áhuga á þessum fræðum. Fyrir því eru ekki þungvæg rök og
margt sem bendir til hins gagnstæða.
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 368