Saga - 2010, Blaðsíða 40
Gareth Stedman Jones, An End to Poverty. A Historical Debate
(London: Profile Books 2004).
Ég ætla ekki að halda því fram að bók Gareths Stedman Jones sé
skemmtileg. Hann færir ítarleg rök fyrir máli sínu, umræðan er sér-
hæfð, lærð og flókin. yfirlýstur tilgangur bókarinnar er að láta við -
fangsefnið, 200 ára gamlar rökræður um leiðir til að útrýma fátækt,
gagnast þeim sem glíma við það sama í upphafi 21. aldar. Jones nefnir
í þessu sambandi stjórnmálin, nánar tiltekið sósíaldemókrata, en
stíllinn er varla nógu aðgengilegur fyrir önnumkafið stjórnmálafólk.
Bókin er líklegri til að hafa náð eyrum þeirra heimspekinga, stjórn-
málafræðinga og félagsfræðinga sem leita leiða til að auka jöfnuð og
kannski líka stefnusmiða evrópusambandsins, sem helgaði árið 2010
baráttu gegn fátækt. en það ræður ekki úrslitum um hvort þetta sé
góð sagnfræði. Styrkurinn felst í mínum huga í því að röksemda-
færslan og aðferðin eru grípandi og sannfærandi.
Þráðurinn er í sjálfu sér einfaldur: Hvernig verða hugmyndir til,
hvernig reiðir þeim af og hvernig getur kúrsinn sem tekinn er á
ákveðnum tímapunkti breytt því sem á eftir kemur. Í vissum skiln-
ingi fjallar bókin um það sem ekki varð. Til skoðunar eru skrif
englendingsins Thomas Paine og Frakkans Antoine-Nicolas Con -
dorcet, sem settu fram hliðstæðar tillögur um almannatryggingar (e.
social security) á síðasta áratug 18. aldar. Tillögurnar voru skilgetið
afkvæmi amerísku og frönsku byltinganna og í grundvallaratriðum
ólíkar þeim tillögum sem komu fram á 19. og 20. öld að því leytinu
til að þær síðarnefndu miðuðu að því að eyða ríg á milli tveggja
stétta, verkalýðs og kapítalista. Condorcet og Paine ætluðu ekki að
draga úr slíkum átökum enda höfðu menn ekki enn, að sögn Jones,
séð fyrir sér að þessir hópar ættu sér andstæða hagsmuni. (Í fræg-
ustu bók sinni, Languages of Class, heldur hann því fram að verka -
lýðsstéttin hafi orðið til í stjórnmálaorðræðu 19. aldar.)
Tillögur Paines og Condorcets um öryggisnet handa þeim sem
ekki gátu framfleytt sér sjálfir áttu hvorki að vera dúsa né ölmusa,
heldur nauðsynlegur liður í uppbyggingu nýs, upplýstara og réttlát-
ara samfélags þar sem forréttindi konungs, aðals og kirkju viku fyrir
viðskiptafrelsi, einstaklingsfrelsi, skynsemi, efnahagslegu og félags-
legu jafnrétti. Paine og Condorcet byggðu jafnt á lýðræðishugmynd-
um lýðveldissinna í Bandaríkjunum og Frakklandi sem og hug-
myndum Adams Smiths um markaðssamfélag. Jones leggur sig eftir
að túlka Smith upp á nýtt og aftengja hann frá hugmyndum Burkes,
spurning sögu40
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 40