Saga - 2010, Page 133
maðurinn geti með þekkingu verið sinnar eigin gæfu smiður og að
heimurinn sé ekki kyrrstæður og óumbreytanlegur. Þegar upplýs -
ingarmenn fóru að velta fyrir sér möguleikum mannsins á því að
móta sjálfur samfélag sitt varð þeim ljóst að lýðræði og menntun
hlytu að fylgjast að, uppeldisfræði og stjórnlist væru í rauninni
hliðstæður.19
Það uppeldis- og menntunarmarkmið sem mótaðist í lok 18. ald-
ar fól í sér hugsjón um þroskaðan samfélagsþegn sem væri gæddur
víðsýni, þekkingu og dómgreind og væri fær um að hugsa sjálfs-
tætt.20 Það fól í sér ákveðna sátt milli vísindahyggju upplýsingar-
innar og hinna klassísku mennta húmanismans.21 Þessa mennta-
hugsjón skilgreindu þýskir heimspekingar með hugtakinu Bild ung;
Herder talaði m.a. um „Bildung zum Menschen“. Þjóðverjinn Hans-
Georg Gadamer, einn helsti forvígismaður túlkunarfræðinnar á 20.
öld, lét svo ummælt að sú þroskahugsun sem væri fólgin í hugtakinu
Bildung væri e.t.v. mikilvægasta hugmynd 18. aldarinnar.22 Hún
snerist ekki aðeins um að rækta meðfædda hæfileika heldur stíga
lengra með hjálp nýrrar vitneskju. Að standa andspænis hinu
óþekkta og þurfa bókstaflega að skilja það og sætta sig við tilvist
þess; geta gert hið áður óþekkta að hluta af sínum eigin heimi, svo
sem eins og þegar maður lærir nýtt tungumál; í því var sjálfur kjarni
hugvísindanna fólginn, að mati Gadamers. Hugvísindin fóru hins
vegar snemma að leita sér aðferðafræðilegra fyrirmynda í pósitíf-
isma náttúruvísindanna, sem þau áttu þó bágt með að líkja eftir, og
þannig var ákveðinni frumhugmynd hugvísindanna drepið á dreif.
Menntun varð ekki heldur almenningseign; menntunarhugsjón
upplýsingarinnar, Bildung varð að forréttindum þeirra sem gengu í
menntaskóla. Í Danmörku, þar sem menntaskólar voru sniðnir eftir
prússneskri fyrirmynd, notuðu menn hugtakið dannelse, sem varð
að tákni menntaelítunnar. Þó að dregið hafi verið úr áherslu á hina
sögukennsla og menntastefna 133
19 Sbr. Peter kemp, Verdensborgeren som pædagogisk ideal (kaupmannahöfn: Hans
Reitzels Forlag 2005), bls. 170–187.
20 Um þetta vitna m.a. fyrirlestrar kants um uppeldisfræði frá árunum
1776–1777: Immanuel kant, Om pædagogik (Århus: Forlaget klim 2001). Sbr.
ennfr.: Immanuel kant, „Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?“, Skírnir
167 (haust 1993), bls. 379–386.
21 Atli Harðarson, „Húmanisminn, upplýsingin og íslenska stúdentsprófið“.
Væntanleg í Skírni, vorhefti 2011.
22 Hans-Georg Gadamer, Truth and Methode. [Wahrheit und Methode, 1960],
(New york og London: Continuum 2003), bls. 9–19.
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:06 Page 133