Saga - 2010, Blaðsíða 99
skreiðin á skriðu 99
að komast yfir jarðir, er liggja utarlega í fjörðum …“12 og það bæði
vegna útróðra og reka. klaustrið hefur væntanlega sóst eftir útvegs-
jörðum til að afla tekna af útflutningi og vegna mataröflunar til eigin
nota. Tekjur fengust einnig með öðrum hætti, eins og í gegnum pró-
ventuna, fyrir sáluhjálp af ýmsu tagi, áheit, almennt líknarstarf og
eflaust sölu bóka, svo eitthvað sé nefnt.
Narfi Jónsson, fyrsti príorinn á Skriðu, hófst þegar handa við að
treysta efnahagslegan grundvöll klaustursins og koma upp eigna-
safni eftir að hann tók við stjórn þess. klaustrið eignaðist til dæmis
fljótlega jarðir víðsvegar um Austurland, einkum og sér í lagi sjáv-
arjarðir. Meðal þessara jarða voru Brimnes í Seyðisfirði og jarðir í
Loðmundarfirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.
Samkvæmt úttekt Heimis Steinssonar á rituðum heimildum um
Skriðuklaustur koma um 70 jarðir við sögu í viðskiptum þess. Átti
það 23 jarðir þegar siðbreytingin varð.13 Oft er ekki alveg ljóst hvort
þeir príorar á Skriðu eru í jarðabraski fyrir eigin reikning eða fyrir
hönd klaustursins. Heimir Steinsson víkur að þessu álitamáli í rit-
gerð sinni og bendir á tilvik þar sem príor virðist fyrst kaupa sjálf-
ur og selur síðan áfram til klaustursins.14 Það væru í dag talin
viðskipti skyldra aðila.
Príorarnir á Skriðuklaustri sóttust mest eftir jörðum í Múlaþingi.
Frá því er þó ein mikilvæg undantekning. Þeir keyptu í áföngum
alls 60 hundruð í útvegsjörðinni Borgarhöfn í Suðursveit og auk
þess ítök í fjöru í Öræfum. klaustrið hafði starfað í átta ár þegar
Narfi príor keypti fyrstu 20 hundruðin í Borgarhöfn af Ásgauti
Ögmundssyni prestssyni á Stafafelli í Lóni. kaupbréfið er frá 4. júlí
árið 1504 og að auki kaupir Narfi hlut Ásgauts í fjöru í Öræfunum.
Fyrir þetta borgaði hann með annarri jörð, Sumarliðabæ í Holtum,
og skólavist fyrir einn prestlærling.15 Síðar bætir Þorvarður príor,
eftirmaður Narfa, tvisvar sinnum 20 hundruðum í Borgarhöfn við
eign klaustursins. Þetta er árin 1520 og 1522 og lætur hann fyrir
smjör, nautpening, hesta og sjávarjarðirnar Vík og Sævarenda í
Fáskrúðs firði og auk þess peninga.16 Samtals eignaðist Skriðu -
12 Heimir Steinsson, Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal, bls. 139.
13 Heimir Steinsson, „Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur“, Múlaþing 1 (1966),
bls. 74–103.
14 Heimir Steinsson, Saga munklífis að Skriðu í Fljótsdal, bls. 98.
15 Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn VII (= DI) (kaup manna höfn og
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1857–1972), bls. 714–715.
16 DI VIII, bls. 747–748. — DI IX, bls. 122–123.
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 99