Breiðfirðingur - 01.04.1986, Page 57
BREIÐFIRÐINGUR
55
líka næstu árin suður á Kvennabrekku, sem „áttu mestan
þáttinn í því sem úr mér varð“, eins og hann sagði fyrr.
Ekkert er aðgengilegra en að fylgja þessum þræði langtum
lengra. Svo margt drepur Mattthías á, sem gefur hugmynd
um hvernig hann mótaðist á unga aldri, eða öllu fremur
hvernig hann þandist út í andlegum skilningi, fyrir áhrif
heimahaganna, bæði fyrr og síðar. Hversu freistandi sem
það er, þá er hvorki til þess staður né stund. Þess í stað
verður tækifærið notað til að geta um samkomu í þessari
sveit, Reykhólasveit, þegar þjóðskáldinu var fagnað vorið
1913.
Matthías var á ferð um fornar stöðvar. Hann kom til að
heilsa bernskuslóðum, til að kveðja þær hinstu kveðju. Var
á 78. árinu og ekki seinna vænna. Það voru ekki aðeins
bjartar bernskuminningar, sem skáldið kom til að endur-
lífga. Það var líka ein bjartasta minning fullorðinsáranna.
Og hugur Matthíasar var löngu farinn af stað vestur að Stað.
Hann sendi presthjónunum þar bréf um veturinn:
Með vorinu kem ég vestur að Stað,
því vinum er enn að mæta.
Oss hjálpar ei neitt að harma það,
sem heimurinn má ei bæta . . .
Hann er með hugann við brúðina ungu, Ingveldi Ólafs-
dóttur Johnsen, sem honum hlotnaðist einmitt á Stað, en
missti aftur svo undrafljótt. Hann lifir upp í ljóði vef
minninganna, bæði í bernskunni og á vaxinni ævi:
Og fagurt mér síðan fannst á Stað
en fegurst þó einu sinni;
því letrað var þá hið ljúfasta blað
á lífdaga sögunni minni;
þá hlógu fjöllin og fossinn kvað
með fegurstu röddu sinni.
Síðan ég lærði þessi stef, hefur mér þótt Staðarfossinn
raddfegurri og hátíðlegri en aðrir fossar. Hann býr yfir ein-
hverju af andagift skáldsins.