Breiðfirðingur - 01.04.1986, Page 210
208
BREIÐFIRÐINGUR
vaxandi áhugi á ættfræði. Sökum fámennis þjóðarinnar, þá
er hér óvenjugóður jarðvegur fyrir slík fræði, enda ákjósan-
legur grundvöllur fyrir ýmsar rannsóknir í þágu vísinda.
Nokkrir eru þeir, sem hefur fundist að ættarskrár ættu
lítið erindi í Breiðfirðing. Er það þó ekkert einsdæmi að
slíkt efni sé birt í hliðstæðum ritum. Mér finnst aftur á móti
að það hafi engin ofrausn verið, þótt nokkru rúmi hafi verið
fórnað í ritinu fyrir niðjatalið. Kemur þar margt til. Fyrst er
á það að líta, að forföðurinn, Lauga-Magnús, má hiklaust
telja til merkustu manna á sínum tíma við Breiðafjörð. Má
þar einkum nefna fjölbreytta hæfileika Magnúsar, sem
komið hafa ríkulega fram meðal margra niðja hans. Með
fyrsta ættarþættinum birtist æviágrip hans. Þar kemur glögg-
lega fram kjarkur hans og manndómur í eldraunum Móðu-
harðindanna og er mér til efs að við Breiðfirðingar eigum
margar trúverðugri frásagnir frá þeim tíma, er bregði
skýrara ljósi yfir það hörmungatímabil sögunnar.
Á hinn bóginn eru þeir margir, sem látið hafa í ljósi þakk-
læti sitt fyrir þessa ættarþætti. Þess er líka skylt að geta að án
beinnar þátttöku margra afkomenda hefði vinna af þessu
tagi verið óframkvæmanleg. Skal þeim öllum hér með
færðar alúðarþakkir fyrir þeirra mikilsverða framlag.
Nokkrir hafa líka komið auga á þann mun, sem er á því að
gefa svona þætti út á bók, eða birta þá í ársriti þar sem hægt
er að koma við leiðréttinpum síðar eins og eftirfarandi við-
aukar og leiðréttingar bera vitni.
Sá, er þetta ritar hefur aldrei áður fengist við fræðigrein af
þessu tagi, enda má sjálfsagt sjá þess merki á marga grein.
Einna erfiðast hefur reynst að fá samræmi í skrárnar, t.d.
gagnvart starfsheiti og búsetu. Skortir allmjög á það. Einnig
reyndist viðhorf ættingja vera afar misjafnt til slíkra atriða.
Það er þó von mín að verk þetta hafi verið betur unnið en
óunnið.