Skírnir - 01.04.2014, Blaðsíða 44
42
PÉTUR GUNNARSSON
SKIRNIR
atriðið í 1. kafla Mósebókar, að auki gegnsýrt kristilegum boðskap,
samanber andlátsorð Höskuldar: „Guð hjálpi mér, en fyrirgefi
yður.“ Sem þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart þar sem sjálf
kristnitakan á sér stað í köflunum næst á undan voðaverkinu. Það
er engu líkara en með morðinu á Höskuldi skipti höfundurinn yfir
á kristna bylgju, atriðin sem á eftir fylgja hafa mörg hver augljósa
biblíulega skírskotun.
Og eitthvað vill höfundurinn sýnilega koma Skarphéðni — jafn
ólíklegur og hann er — í slagtog við Frelsarann, samanber þegar
hann finnst í brunarústunum uppréttur eins og krosshangi, með
krosslagðar hendur og krossa brennda á bak og bringu. Dauði
Skarphéðins er sýndur sem fórnardauði í anda Krists, en líkt og
Kristur hefði með einni bendingu geta ráðið niðurlögum hópsins
sem fór að honum í Grasgarðinum, höfðu Njálssynir í fullu tré við
andstæðinga sína á hlaðinu á Bergþórshvoli. En Njáll býður engu að
síður að þeir hopi inn í húsin. „Vel má ég gera það til skaps föður
míns að brenna inni með honum því að ég hræðist ekki dauða
minn,“ segir Skarphéðinn. Samanber orð Krists þegar hann á í
vændum að mæta örlögum sínum: „Faðir minn, ef verða má þá fari
þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt“
(Matt. 26:39).
Þá er sjálf brennan augljós táknmynd fyrir hreinsunareldinn sem
allir miðaldamenn verða að ganga í gegnum, áréttað ef þurfa þykir
með orðum Njáls: „... Guð mun ekki láta okkur brenna bæði þessa
heims og annars.“
Njála er ákaflega lærð bók, augljóslega sprottin úr jarðvegi þar sem
menntir voru grónar, enda enginn hörgull á menntastofnunum á
leiksviði sögunnar: Skálholt, Kirkjubæjarklaustur að ógleymdu
Þykkvabæjarklaustri í Veri — allt hátimbraðar menntastofnanir sem
höfðu starfað vel á aðra öld. I Veri er vitað að var mikil ritsmiðja með
starfandi höfundum, má fyrstan telja sjálfan ábótann, Brand Jóns-
son. Hann var af einni helstu höfðingjaætt landsins, faðir hans goð-
orðsmaður á Svínafelli í Oræfum, þaðan sem einn aðalleikandi
Njálu var kominn. Vitað er að Brandur þýddi Gyðingasögu og