Náttúrufræðingurinn - 2017, Side 29
29
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
6. mynd. Hér sést hvernig örlítill afgasaður svartur hraunfláki hefur runnið upp úr
sprungu í gliðnunaratburðunum í Kröflu í október 1980. Samfara gosi rennur hraun ofan
í sprungur og upp úr þeim aftur annars staðar. Slík hraun hafa verið nefnd gjávellur.55 – A
tiny degassed lava patch flowed out of this fracture during a rifting event in the Krafla
fissure swarm in October 1980. Such lava patches are formed when lava flows into fractures
and out of them again. Ljósm./Photo: Ásta Rut Hjartardóttir.
eftir því sem sigið óx, og eftir fyrstu
vikuna urðu skjálftar stærri en 5 stig
nánast daglegt brauð.35 GPS-mælir
sem komið var fyrir á ísnum innan
öskjunnar sýndi að sigið nam um
hálfum metra á sólarhring. Hæðar-
mælingar úr flugvél og InSAR-
myndir úr gervitunglum sýndu vel
lögun sigskálarinnar.35
Hinn 24. ágúst náði skjálfta-
virknin norður fyrir Vatnajökul
og 27. ágúst sást í könnunarflugi
vísindamanna með TF-SIF, flugvél
Landhelgisgæslunnar, að gamlar
sprungur höfðu hreyfst og nýjar
myndast norðan Vatnajökuls. Um
700–1.000 m breiður og 5 km lang-
ur sigdalur hafði myndast norð-
ur frá jaðri Vatnajökuls. Norðan
þess sigdals mátti sjá mjórri sigdal
sem var einungis um 250–450 m
breiður (7. mynd). Nýjar sprung-
ur í Vatnajökli gáfu til kynna að
sigdalur hefði einnig myndast undir
jöklinum.34
Hinn 29. ágúst náði kvikan loks
til yfirborðs eftir að hafa farið um
48 km leið frá Bárðarbungu, og úr
varð eldgos sem stóð í um tvær
klukkustundir. Þetta eldgos átti sér
stað innan gömlu gígaraðarinnar
sem Holuhraun eldra hafði runnið
úr örfáum öldum fyrr, og innan
nýja mjóa sigdalsins sem hafði sést
í könnunarfluginu tveimur dögum
fyrr (7. mynd). Hið skammlífa eldgos
varð á um 600 m langri gossprungu,
en tveimur dögum síðar, 31. ágúst,
hófst aðalgosið. Það varð á sömu
gossprungu en lengdi hana um 300
m til suðurs og 1.000 m til norðurs.
Þetta gos stóð í um sex mánuði.
Að auki opnuðust þrjár 110–250 m
langar gossprungur 2,3 km sunn-
an við meginsprunguna. Eldvirkni
í þessum syðstu gossprungum varð
þó lítil og skammlíf, stóð einungis í
um tvo daga. Bergfræðileg greining
á efni gossins og mælingar á inni-
haldi gassýna gáfu til kynna að kvik-
an væri komin úr kvikuhólfi á um
12 km dýpi, sem er í samræmi við
niðurstöður aflögunarmælinga.35
Flestar sprungnanna sem hreyfð-
ust í gliðnunaratburðunum árið
2014 liggja í jöðrum sigdalsins og
teikna upp útmörk hans. Eldgosin
árið 2014 áttu sér stað innan sigdals-
ins, yfirleitt nærri miðju hans (7. og
8. mynd). Þetta er nokkuð dæmigert
fyrir atburði af þessu tagi, enda er
það kvikugangurinn sem myndar
og víkkar sigdalinn, þar sem kviku-
gangar geta orðið fáeinir metrar að
breidd og taka þar með pláss í jarð-
skorpunni (3. mynd). Vídd sigdals
er talin geta gefið upplýsingar um
dýpi niður á kviku,36,37 og þar með
sagt til um hvort von sé á eldgosi.
Sem áður segir var syðri sigdalur-
inn sem sást í könnunarfluginu 27.
ágúst um 700–1.000 m breiður en
sá nyrðri einungis um 250–450 m
breiður. Þetta gaf til kynna að kvika
væri komin grunnt í jarðskorpuna,
líklega á innan við 300 m dýpi,8
enda kom á daginn að eldgos hófst
innan mjóa sigdalsins tveimur dög-
um síðar.