Náttúrufræðingurinn - 2017, Side 41
41
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
þunga niður brekkur eða að loftið
leiti upp brekku ef það er hlýtt.
Vindur er að jafnaði hægari eftir
því sem nær dregur yfirborði jarðar,
eins og flestir sem legið hafa í grasi
hafa veitt eftirtekt. Orða má það
á þann veg að bremsuáhrif jarðar-
innar á vindinn séu mest við yfir-
borð jarðar, en fjari smám saman
út eftir því sem ofar dregur. Þegar
kalt og eðlisþungt loft er niðri við
yfirborð jarðar og hlýrra og eðlis-
léttara loft er ofar (hitahvörf) ber-
ast þessi bremsuáhrif ekki að ráði
upp á við. Þá getur verið logn við
yfirborð jarðar, en strekkingur í
aðeins nokkur hundruð metra hæð.
Hentugt getur verið að sjá slíkt fyrir
sér með því að ímynda sér hvass-
viðri yfir vatni sem er miklu eðlis-
þyngra en loftið; loftið er á fleyg-
iferð, en straumurinn í vatninu er
mjög hægur miðað við loftið.
Gögn
Í grein þessari er byggt á mælingum
á sjálfvirkum veðurstöðvum Veður-
stofu Íslands á klukkustundarfresti.
Að jafnaði er notast við mælingar
árin 2005 til 2015 að báðum árum
meðtöldum. Gert er ráð fyrir að
mælabilanir séu óháðar því hvort
það er logn eða ekki og er því
horft framhjá þeim. Þess er þó
gætt að bilanir sem leiða til þess
að vindur mælist enginn, til dæmis
vegna ísingar, séu ekki túlkaðar
sem logn. Við skoðun á stöðugleika
lofts var litið til allra mælinga sem
gerðar hafa verið samtímis á toppi
Skálafells og á Korpu í Mosfellsbæ
árin 1997–2016.
Veðurstöðvarnar sem um ræð-
ir eru Eyrarbakki, Skarðsfjöruviti
og Raufarhöfn og er meðal-
tal þeirra nefnt strönd; Kálfhóll,
Kirkjubæjarklaustur og Ásbyrgi,
en meðaltal þeirra er nefnt inn-
sveit; Húsafell, Reykir í Fnjóskadal
og Hallormsstaður sem nefnd-
ar eru dalur; Flateyri, Akureyri og
Kollaleira sem saman mynda fjörð;
og Hveravellir, Sáta og Sandbúðir
sem nefndar eru hálendi. Sjálfvirkar
veðurstöðvar eru vissulega mun
fleiri á Íslandi, en aðeins hluti þeirra
hefur mælt samfellt allt umrætt
tímabil. Þá er landslag á Íslandi
margbreytilegt, ströndin vogskorin
og margar veðurstöðvar geta fall-
ið í fleiri en einn flokk. Gögn frá
slíkum stöðvum eru ekki notuð og
takmarkar það fjölda veðurstöðva
enn frekar. Það kemur þó ekki að
sök vegna þess að ekki er ætlun-
in að leggja nákvæmt mat á tíðni
logns við mismunandi aðstæð-
ur. Það veður aðeins gert af sæmi-
legri nákvæmni með mælingum á
þeim stað sem um ræðir hverju
sinni. Þessum stöðvum til viðbót-
ar eru Veðurstofan í Reykjavík og
Hjarðarland í Biskupstungum. Í
þessari grein er einkum fjallað um
hægviðri og er það skilgreint á þann
veg að 10 mínútna meðalvindhraði
sé undir 1 m/s.
Hversu oft er hægviðri?
Nánasta umhverfi sérhverrar veð-
urstöðvar hefur vitaskuld áhrif á
tíðni hægviðris en ætla má að þættir
á borð við fjarlægð frá sjó og fjöllum
og hæð yfir sjó hafi líka áhrif.
Skoðum það nú nánar. Súluritið á
3. mynd sýnir hlutfall hægviðris í
fyrrnefndum flokkum veðurstöðva.
Hægviðri er áberandi fátíðast við
ströndina og á hálendinu eða í
aðeins um og undir 3% allra mæl-
inga. Töluverðu munar þegar farið
er inn til sveita en þar eru hæg-
viðrisathuganir að meðaltali um
7% allra athugana. Hægviðri er enn
tíðara í fjörðum, eða um 13% tímans
og í dölum er hægviðri að meðaltali
um 16% tímans.
Munurinn milli stöðvaflokka sem
er á 3. mynd kemur ekki á óvart.
Lág tíðni hægviðris við ströndina
á sér að öllum líkindum nokkr-
ar orsakir. Í fyrsta lagi veitir sjór
vindinum minna viðnám en land,
ekki síst þegar stillt er og engin
alda. Í öðru lagi er sjór við Ísland
oftar en ekki hlýrri en loftið. Við
þær aðstæður spillast hitahvörf við
jörð gjarnan og þá er ólíklegra en
ella að þær aðstæður komi upp að
vindur „fljóti“ ofan á köldu lofti við
yfirborð jarðar eins og lýst er hér
að framan. Í þriðja lagi er iðulega
hafgola við ströndina á sumrin, en
hún er því fátíðari sem fjær dregur
sjónum. Fjöllin veita greinilega skjól
sem um munar í dölum og fjörð-
um. Munurinn á dölum og fjörðum
er ekki mikill og það bendir í þá
átt að þau áhrif sem sjórinn hef-
ur til að fækka hægviðrisstundum
á strandarstöðvunum dvíni inni á
fjörðum. Allt er þetta þó mjög háð
aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.
Árstíða- og dægur-
sveifla
Vaknar þá spurningin hvenær ársins
og hvenær sólarhringsins helst sé að
vænta hægviðris. Fjórða mynd sýnir
árstíðasveiflu hægviðris í Reykjavík.
Að vetrarlagi er hægviðri að meðal-
tali um 5% athugana en í allt að 12%
2. mynd. Haf- og landgola, fall- og brekkuvindur. – Sea-breeze, land-breeze, katabatic and anabatic flow.