Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Qupperneq 9
B r o s t i n f r a m t í ð – 2 0 á r u m s í ð a r
TMM 2013 · 2 9
nauðsyn og trúlega tekið betur eftir fyrirvörum Búkharíns við sýndar-
réttarhöldin í Moskvu en Laxness gerði þótt viðstaddur væri.
Einari tekst að stofna hér flokk sem var á skjön við Moskvulínuna, án
þess að gera uppreisn gegn henni (þannig var því lýst af manni sem vel
þekkir til) – nýtir sér meðvitað tækifæri þegar Moskvueftirlitið er ekki
fullkomið og gerir það með vinstri armi Alþýðuflokksins. Finnlandsstríðið
kemur síðan sem pólitísk krísa og Héðinn hrökklast út. Aldrei var þó reynt
í alvöru að bolsévísera þennan flokk; hann var í reynd gegnumskorinn af
flokksbrotum og klíkum. Einar stjórnaði flokknum af töluverðri kúnst; það
er t.d. athyglisvert að staða Sósíalistaflokksins styrktist á árinu 1956, þegar
kommúnistaflokkar í Vestur-Evrópu urðu fyrir meiri eða minni áföllum;
eftir 1958–59 fer að halla undan fæti.
Einar áttaði sig ekki á breytingunum austantjalds, sem byrjuðu með for-
dæmingu Krústsjoffs á Stalín. Flokksþingið 1956 held ég reyndar að hafi
verið minna áfall fyrir hann en marga aðra, en eftirmálinn var allur flóknari.
Einar hafði ríka persónutöfra, gat virkað mjög sannfærandi á fólk og taldi sig
sennilega einn og sér geta tekið að sér – um óákveðinn tíma – hlutverkið sem
Lenín ætlaði forystuflokki. Ef ég má sletta ensku, mundi ég segja að sjálfs-
mynd hans hafi á síðustu formennskuárunum verið farin að nálgast einhvers
konar „one-man Leninist party“.
Ég var með Einari á sósíalistaráðstefnu í Rostock í Austur-Þýskalandi
1960 og hlustaði á hann tala um sögu verkalýðsflokka á Íslandi og segja
m.a. að saga þeirra væri eins og Íslendingasögurnar. Þjóðernisrómantík
var mjög ríkjandi hjá honum. Árið 1968, eftir innrásina í Tékkóslóvakíu,
skrifaði hann grein í Rétt þar sem hann líkti ríkisvaldinu við ófreskju, með
tilvísun í drauginn Glám í Grettissögu. Flokkurinn væri hins vegar í eðli
sínu heiðarlegur og góður. Þannig talaði Einar jafnvel á hinu fræðilega plani
– marxismi, lenínismi og þjóðernisrómantík runnu saman í eitt. Á pólitísku
plani hér heima skipti skilgreining hans á sérstöðu Íslands miklu máli – hér
var veikt ríkisvald, enginn her, og – að hans áliti – lýðræðisleg hefð sem
náði aftur til þjóðveldisins. Einar var popúlisti í gömlu merkingu þess orðs.
Alþýðan var ein og góð. Á Íslandi var, a.m.k. meðal sósíalista, jafn mikið
talað um alþýðuna og verkalýðsbaráttuna, alþýðan var eins konar absolutum
stjórnmálahugsunar Einars. Þetta skýrir líka hversu auðveldlega hann gat
unnið með hægrisinnuðum stjórnmálamönnum af popúlísku tagi, sér í lagi
Ólafi Thors.
Í bókinni þinni „Brostin framtíð“ er tótalítaríanismi sem hefur verið íslenskað
sem alræði, höfuðatriði í greiningu þinni á sovéska módelinu. Segja má að
öll saga Vestur-Evrópu frá stríðslokum 1945 sé uppgjör við það siðferðishrun
álfunnar sem alræði olli.
Þín fræði eru greining á „nútímanum“ eða „modernity“ og einkennum hans
innan ramma þar sem Hannah Arendt og greining hennar á alræði kemur