Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 18
Á r n i S n æ va r r
18 TMM 2013 · 2
2 voru bætt upp með skemmtilegum vinnustað – þeim skemmtilegasta sem
ég hef nokkru sinni verið á.
Menn litu stórt á sig og ég var engin undantekning, og auðvitað var það
eldfim blanda að vökva sinn innri alkóhólista af mikilli samviskusemi og
gegna starfi þar sem egóið – sem var nógu stórt fyrir – var blásið út og maður
breiddi úr sér og þóttist allt vita á sjónvarpsskjám landsmanna.
Páll Magnússon, fréttastjóri og síðar útvarpsstjóri, sagði eitt sinn að hann
kæmist upp með að borga fólki tíu til tuttugu prósent verri laun en það fengi
í sambærilegum störfum annars staðar: „ánægjustuðullinn“ sagði stjórinn
glottandi og þótt við urruðum í gegnum samanbitnar varir, vissum við að
hann hafði hárrétt fyrir sér.
Páll hafði einfaldan smekk og valdi aðeins það besta og fékk gott betur
en tíu til tuttugu prósenta hækkun á gjöfulli fiskimiðum Kára klára hjá
Íslenskri erfðagreiningu. Hann kvaddi með stæl og í kveðjuveislu heima
hjá honum í Garðabænum útnefndi hann Kristin Hrafnsson leiðinlegasta
mann sem hann hefði unnið með og mig næstleiðinlegastan. Ég varð grænn
af öfund út í Kristin. Á þessum tíma var lítið um að fréttamenn blönduðu
sér í baráttuna um að vera starfsmaður mánaðarins, en það hefur vafalaust
breyst eins og annað.
Innan fárra missera vorum við Kristinn báðir með skófar arftaka Páls á
rassinum. Þeim fannst við semsagt ekkert skemmtilegri en Páli.
Páll Magnússon og Deng Xiaoping áttu fleira sameiginlegt en að vera
stuttir til hnésins. Þeir voru nefnilega sammála um að sama væri hvort
kötturinn væri hvítur eða svartur svo lengi sem hann dygði til að veiða mýs.
Mýsnar voru fréttirnar og enginn velktist í vafa um að Páll væri fagmaður
fram í fingurgóma, þótt sumum þætti hann helst til trúaður á að fréttirnar
kæmu af sjálfu sér rétt eins og vandamálin sem leystu sig sjálf á meðan hann
brá sér frá á milli hádegisverðar og fréttalesturs. Eftir á að hyggja var þetta
sennilega alveg hárrétt hjá honum.
Sem fréttamaður var enginn fremri arftaka Páls, Karli Garðarssyni, í að
hlaupa á milli funda pólitíkusa og rétta fram hljóðnemann hnitmiðað og á
hárréttu augnabliki og spyrja leiftursnöggt: „Hvað kom út úr fundinum?“
Fréttastofurnar eru hins vegar fullar af minnisvörðum um kollega sem van-
mátu Karl Garðarsson. Sagt er að hann hafi orðið fréttastjóri eftir að hafa
óumbeðinn skýrt yfirstjórninni frá því að hægt væri að reka fréttastofuna
fyrir snöggtum minna fé en jafnvel smámunasamasta baunateljara hefði
órað fyrir. Formúlan var einföld: færri starfsmenn áttu að vinna meira fyrir
minna kaup. Hann kunni á Excel og sumir sáu engan mun á honum og því
ágæta prógrammi.