Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Qupperneq 33
TMM 2013 · 2 33
Bubbi Morthens
Túrinn
Þarna stóð ég á bryggjunni. Þetta var svona dagur þegar vindurinn sem blæs
frá hafinu hvíslar í eyru þess sem nennir að hlusta: Allt getur skeð, vertu
viðbúinn, þú ert á leiðinni á sjóinn, drengur … og einmitt þá kemur maður
gangandi og segir: Heyrðu strákur, vantar þig ekki pláss? Nei, mig vantar
ekki pláss en einhvern veginn enda ég samt um borð.
Við sigldum út á opið hafið með fjöllin í kringum okkur líkt og þau sjálf
væru siglandi út fjörðinn. „Hvítu mávar, segið þið honum“ … Ég hataði þetta
lag. Hverjum dytti í hug að biðja þessa gargandi sjófugla eins og mávinn
eða múkkann um kveðju? Ekki mér. En seinna, löngu seinna, var maður í
sjónum við Vestmannaeyjar sem bað múkkann að fyrirgefa sér vonskuna
sem hann og vinir hans höfðu sýnt honum á lífsleiðinni, og svo bað þessi
maður sem svamlaði um í úthafsöldunni í marga klukkutíma, og félagar
hans allir horfnir ofaní endalaust djúpið, svo bað hann múkkann um kveðju
í land.
Ég þekkti sjálfan mig og vissi hvað beið mín. Ég mundi Gullfoss og sjó-
veikina. Eftir skamma stund lá ég ælandi í koju. Sjóveikin er hroðalegur
hnefi sem slær mann niður. Hún hefur þannig áhrif á þann sem fyrir henni
verður að hann er tilbúinn að játa hvað sem er, tilbúinn að deyja glaður, bara
að þessu linni. Í fjóra daga lá ég sveittur og bylti mér, milli þess sem ég ældi
þar til ekkert var eftir til að æla.
Maðurinn sem var með mér í klefa reykti London Docks vindla og reyk-
urinn leitaði uppi viðkvæmt nefið á mér, tróð sér uppí vitin á mér svo að
gallið lak út um hálfopinn munninn meðan krampakippir fóru um magann.
Þetta var kokkurinn um borð. Hann geymdi draumana sína undir skítugum
kodda, moggadon, valíum, díazepam og ýmislegt annað góðgæti sem fékk
sólina til að skína í myrkri hugans, þar sem mosagrænir draumar skriðu um
í myrkrinu og leituðu að gömlum uppskriftum. Kokkurinn átti það til að
standa nakinn uppá stól fyrir framan örmjóan spegil sem var fastur á skáp-
hurð með vindilinn í kjaftinum, svo hvítur var hann að húðin á honum var
nánast gegnsæ, stóð eins og hvít vofa, mannleg marglytta, kreppti vöðvana
og tautaði: Þær elska stælta karlmenn. Hvítur með sigin eistu og hrukk-
óttan lim stóð hann á kollinum og blés útúr sér reyknum og endurtók: Þær
elska stælta karlmenn. Ég var ekki viss um hvort ég væri orðinn brjálaður