Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Síða 38
Ve t u r l i ð i G . Ó s k a r s s o n
38 TMM 2013 · 2
Hér skal á það minnt – og ekki í fyrsta sinn sem það er gert2 – að í TMM
1949 hét kvæðið „Land þjóð og tunga“ en í bók sinni Á Gnitaheiði3 breytir
höfundurinn nafni þess í „Marz 1949“. Tveimur árum síðar er gamli titillinn
kominn á ný í safnritinu Svo frjáls vertu móðir sem Mál og menning gaf út á
tíu ára afmæli lýðveldisins, með ljóðum eftir 22 helstu skáld samtímans.4 Þar
hefur upphafi 2. línu 3ja erindis verið breytt úr „Álagastundin“ í „Örlaga-
stundin“ og hefur verið þannig í síðari prentunum, en annars er kvæðið
óbreytt.5 Afturhvarfið til frumtitilsins bendir til þess að höfundurinn hafi
viljað láta kvæðið hafa almennari skírskotun en sá nýi fól í sér.6 Undir
kvæðinu stendur „Marz 1949“, en mörg kvæði í safnritinu eru einmitt merkt
ári, sum mánuði og nokkur jafnvel degi.
Snorri Hjartarson hafði lengi búið í Noregi og í viðtali við „M.“ (vafalaust
Matthías Johannessen, síðar ritstjóra Morgunblaðsins), sem ber yfirskriftina
„Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein …“ í Morgunblaðinu laugardag-
inn 2. febrúar 1957, segir hann frá veru sinni í Noregi og Danmörku og
segist hafa verið því fegnastur að hafa ekki endað sem norskt prósaskáld:
„Það rann upp fyrir mér síðar, að ég var raunar útlagi í tvennum skilningi:
bæði frá landi mínu og tungu … Auk þess er ég alveg sannfærður um, að
það er ekki hægt að ná fínustu blæbrigðum tungunnar nema hafa drukkið
hana í sig með móðurmjólkinni“ (bls. 6). Viðmælandinn „M.“ bætir svo
við, áður en hann vitnar í kvæðið: „Snorri Hjartarson hefir einmitt fjallað
um þetta vandamál í einu kvæða sinna. Þar segir hann, að landið, þjóðin og
tungan séu órjúfandi heild og dýrð þessarar þrenningar hafi skinið um sig á
„dimmum vegi“ útlegðar og fjarvistar frá fósturjörðinni. Þar fann hann, að
hann var sjálfur aðeins til í þessari sönnu og einu þrenningu.“
M. lýkur tilvitnun sinni með: „Þú átt mig, ég er aðeins til í þér …“ og tekur
Snorri þá fram í fyrir honum: „Þú þarft ekki að taka meira, sagði skáldið,
þegar ég kvaðst ætla að vitna í kvæðið. Það kemur hérna svolítill áróður á
eftir!“, segir M.
Það sem á eftir kemur væri „Örlagastundin nálgast grimm og köld …“
en ekki er nánar vísað í kvæðið í viðtalinu né í þann áróður sem höfundur
boðar. Auðvelt er að geta sér til þess að þar hafi hann í huga þá hættu sem
honum þótti hernaðarbandalagið fela í sér.
Sú heilaga þrenning
Magnús Torfi Ólafsson (1923–1998), sem við minnumst best sem alþingis-
manns og mennta mála ráðherra, skrifaði ritdóma og bókmenntagreinar
í listatímaritið Birting á fyrstu árum þess. Í ritdómi í 1. árgangi 1955 (2.
tbl., bls. 44–45), um kvæðasafnið Svo frjáls vertu móðir, segir hann Snorra
Hjartarson tjá í þessu kvæði: