Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 54
54 TMM 2013 · 2
Sverrir Norland
Álfur
Í dag er svo heitt í París að ég get ekki hugsað. Heilinn í mér mókir í þanka-
lausum hálfsvefni og á mér er eitthvert ráðleysisflökt. Ég eigra hingað
og þangað, nota gamla Dalí-sýningarskrá fyrir blævæng, skrifa nokkrar
klénar ljóðlínur, borða mangóís, fer úr öllu nema Spiderman-nærbuxunum.
Kærastan mín situr í breiða stólnum með nýja, hvíta áklæðinu og les um
forna, egypska listmuni. Bráðum fer hún í sumarpróf og því er hún með allt
á hornum sér. Sjálfur ætti ég að vera að skrifa skáldsögu, en þessa stundina
get ég ekki einbeitt mér að skáldsögum, hvorki mínum eigin né annarra. Auk
þess óttast ég að enginn vilji lesa skáldsögurnar mínar og að ég sé bjáni.
„Sestu niður,“ segir kærastan mín. „Hættu þessu ráfi.“
„Ég get ekki einbeitt mér ef ég sest niður.“
„Ég get ekki einbeitt mér nema þú setjist niður!“
Upp er komin alvarleg pattstaða í litlu íbúðinni okkar.
Ég sest, en stend strax aftur upp og held áfram að ráfa, nú af enn stefnu-
lausari ákefð en fyrr. Þannig hámarka ég prófkvíða kærustunnar minnar
með afar skilvirkum hætti.
„Þetta er óþolandi,“ segir hún með tárin í augunum. „Ég ætla út í göngu-
túr!“
Ég leggst úrvinda á gólfið þegar hún hefur rokið á dyr. Úti er fjörutíu stiga
hiti. Ég toga með erfiðismunum af mér Spiderman-nærbuxurnar og brýt
heilann um það hvað í ósköpunum ég sé að gera í Spiderman-nærbuxum.
Ekki sé ég Walt Whitman fyrir mér í Spiderman-nærbuxum, eða Simone de
Beauvoir, eða Borges. Þarna ligg ég ber í hugarkvöl minni drykklanga stund
og hugsa um þjóðþekkt skáld í Spiderman-nærbuxum: Kristján Fjallaskáld
í Spiderman-nærbuxum, Wislöwu Szymborska í Spiderman-nærbuxum,
Allen Ginsberg í Spiderman-nærbuxum. Ég heyri mýsnar brjótast um
holurnar í veggjunum. Venjulega skjótast þær leifturhratt milli skota sinna,
en í dag skjögra þær áfram eins og gigtveikar.
Fitugur svitadropi lekur pínlega hægt niður ennið á mér og hafnar í
vinstra auganu. Ég velti því fyrir mér hvað ég sé að gera við líf mitt.
Ég er um það bil kominn á þá skoðun að mér sé algjörlega ofaukið í til-
verunni þegar drepið er ákveðið á dyrnar, í mjög afdráttarlausum saltkjöt-