Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Page 102
S o f f í a B j a r n a d ó t t i r
102 TMM 2013 · 2
mig út í neinar Sylviu Plath-stellingar, þótt mér væri nokk sama um afdrif
þessa fólks. Þetta hefði getað endað með fjöldamorði á Klapparstíg 16.
Jæja, en annar möguleiki var vissulega að stökkva. Út úr kirkjuturni til
dæmis eða fyrir lest eins og Anna Karenína hans Tolstojs. Ég var reyndar of
huglaus fyrir stökkið og svo finnst mér slíkar aðfarir óþarflega sóðalegar ef
satt skal segja. Þetta var einnig fyrir tíma lestarsamgangna á Íslandi. Ég var
meira til í að láta mig hverfa svo að lítið beri á. Eins og ánamaðkur ofan í
moldina. Og eins og ánamaðkurinn þá nærist ég á vatninu og þrái vatnið svo
að drukknun var álitlegri kostur. Mér skilst reyndar að það sé sársaukafullur
dauðdagi. Hver svo sem var til frásagnar um það. En best hefði verið að fá
að sofna svo lítið bæri á í baðkarinu þennan kalda vetur því ég átti unaðs-
legt baðkar sem staðsett var undir opnanlegum þakglugga. Á glugganum
var óvenjulangt stormjárn svo hægt var að halda þakglugganum galopnum
og ímynda sér að maður væri að lauga sig undir berum himni umvafinn
norður ljósum. Baðkar er sígild staðsetning. Minnir um margt á gröfina,
næsti bær við rúmið.
Ég sá fyrir mér mynd eftir David þar sem byltingarleiðtoginn Marat liggur
vafinn í sáraumbúðir í tígulegu baðkarinu. Hönd hans slútir fram af baðkars-
brúninni og fjaðurpenni hefur runnið úr hendi hans. Charlotte Corday drap
hann reyndar svo hann hafði ekkert um sinn dauðdaga að segja.
Hún stakk hann í baði. En ef ég hefði valið baðkarið þá lægi kveðjubréfið
líkt og einmana laufblað á gólfinu sem hefði síðan sópast undir lausa fjöl
eða flís og fyndist tvö hundruð árum síðar. Ég veit reyndar ekki hvað ég ætti
að hafa skrifað í bréfið. Það hefði þurft að vera sótsvartur sannleikur sem
ferðast milli kynslóða um tímalausa áþján manneskjunnar.
Kannski þægilegast að vera einfaldlega tekin af lífi. Fallöxin er afgerandi.
Mér líka ekki núverandi aftökumátar. Að vísu má segja að það að skera
í sundur æðar sé aðferð sem ánamaðkurinn þekkir. En það er helst til of
hægfara ferðalag nema ef skorið er á slagæðar í hálsi. Ég hefði kosið vatnsbað
frekar en blóðbað.
Hafið heillaði mest. Óendanlegt djúp og maður hefði verið dáleiddur
þangað af selsaugum einum saman og förinni ekki heitið neitt annað en
heim. Fallegt. Jeff Buckley fylgdi söng sírena út á reginhaf og hvarf. Virginia
Woolf skellti steinum í vasann áður en hún hélt af stað héðan og sökk.
Eða leggjast til svefns á ánni, loka augunum eins og Ófelía, viti sínu fjær.
Öruggasta leiðin er þó eflaust að skjóta sig í hausinn á hóteli. Karlmannlegt.
Hemingway og vískí. En æ nei, ég hafði nú ekkert byssuleyfi og var smeyk
við að munda vopn.
Bálkestir og krossfesting komu líka upp í hugann þennan kalda vetur.
Alvöru fórnardauði sem hæfði ástandinu. En þá hefði ég þurft að ráða til
mín fólk í vinnu við að negla mig á krossinn og koma síðan krossinum og
sjálfri mér upp á góðum stað með útsýni. Eða jafnvel að fá einhvern til að