Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 103
K l a p pa r s t í g u r 16
TMM 2013 · 2 103
kveikja í bálkestinum. Bölvað vesen. Það er til of mikils mælst að notfæra sér
hjálpsemi fólks til að ráðast í slíkt líknardráp.
Ef Lína langsokkur fengi nóg af lífinu hvernig myndi hún bera sig að? Hún
myndi allavega sjá um þetta sjálf, það er morgunljóst. Færi bara á eilífðar
fyllirí með hestum og öpum þessa heims, dröggaði sig inn í sjálfseyðingu
og blús. Nei, að sjálfsögðu ekki hún Lína. Hún myndi kaupa sér bláan
þyrlufugl sérhannaðan til handanferða fyrir gullið sitt. Myndi fylla fuglinn
af pönnukökum og sýrópi, taka síðan af stað um miðja nótt án frekari
ummerkja. Sjónarhóll yrði samur við sig og löngu síðar flytti þangað inn
nýbökuð fjölskylda með viðkvæma hamingjuna í farangrinum. Það væri nú
ekki svo slæmt. Að hefja nýtt líf á Sjónarhóli fimmtíu árum eftir dularfullt
hvarf herragarðseigandans.
Af öðrum aðferðum má nefna útigang og óbyggðir, kynlíf, sjúkdóma, sult,
ofát, drykkju og ástarmein. Ég hafði reyndar ekki hugarflug í að ganga svo
langt að elska til dauða. Það hefur þó verið margreynt. En ég velti aðferðar-
fræði sjálfseyðingarinnar töluvert fyrir mér þennan kalda vetur þegar
ánamaðkarnir ásóttu mig sem aldrei fyrr. Ég átti ótal andvökunætur. Bron-
kítis var orðið mitt vanalega ástand og ég ímyndaði mér að ég væri komin
með tæringu. En þetta var ekki einu sinni lungnabólga heldur einungis
þrálátur hósti og væg bólga í berkjum. Mér datt stundum Seltjörn í hug
sem möguleg sviðsetning en fannst hún full nálægt mannabyggðum og Sel-
tjarnarnesið eiginlega ekki nógu aðlaðandi. Þórbergur hafði löngum verið
á leiðinni í Seltjörn eða í sjóinn frá Gróttu en aldrei tekist ætlunarverkið.
Skórinn var eitthvað að þvælast fyrir honum. Það má nefnilega ekkert út af
bregða þegar sjálfsaftaka er annars vegar. Flæktar reimar, gat í stígvélum,
óvænt símtal getur gert út af við ráðagerðina.
II
Þetta var vetur ánamaðkanna. Ég bjó á Klapparstíg númer 16, ein með
kanarífuglum sem fóru gríðarlega í taugarnar á mér. Eftir á að hyggja held
ég að þeir hafi átt sökina á þessu djúpa þunglyndi sem sótti á mig. Ég deildi
eldhúsi með fjölskyldu á neðri hæðinni en salerni með ungum tónlistar-
manni sem svældi gras í öll mál og fyrrnefndum SS-foringja. Sá bauð aldrei
góðan dag en gnísti þess í stað tönnum og barði saman hælum þegar maður
heilsaði honum.
Þetta var sá alversti vetur sem ég hef lifað. Fólkið í húsinu stráféll úr hinum
ýmsu meinum, fannst í nærliggjandi kjöllurum, baðkörum, bakgörðum
og meira að segja einn nágranni dó sisvona á bekk í Hljómskálagarðinum.
Gamla konan á móti dó inni hjá sér úr engu nema sjálfri sér. Fólkið átti sér
einskis ills von, flutti inn í húsið á Klapparstíg og þá fór feigðin óðara að
bæra á sér og fyllti þau djúpstæðri dauðaþrá. Sem er þrá sem býr með okkur