Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Síða 14
14 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA
„Komið nær og lítið á mig“: Hjúkrun fólks með heilabilun og hegðunartruflanir
bandarískur félagsfræðingur sem hefur áratugareynslu
af vinnu með einstaklingum með heilabilun (Stacpoole
o.fl., 2015). Með þessari nýju aðferð verður þjónustan
heildrænni og einstaklingsmiðaðri. Namastestefnan hefur
verið innleidd á fjölda hjúkrunarheimila í Bandaríkjum,
Bretlandi, Kanada og Ástralíu auk þess sem nokkur
líknarheimili hafa hana að leiðarljósi. Rannsóknir á
árangri af Namastestefnunni hafa sýnt aukna ánægju hjá
starfsfólki, íbúum og aðstandendum einstaklinga með
heilabilun. Auk þess hefur notkun svefn- og geðlyfja
minnkað, byltum og húðvandamálum fækkað og verkja-
meðferð orðið markvissari. Samkvæmt Namastestefnunni
er meðferð sniðin að því að auka lífsgæði fólks með langt
gengna heilabilun. Íbúarnir eyða deginum í þar til gerðu
herbergi í návist starfsfólks sem hefur tíma og hefur rólega
nærveru, í stað þess að liggi í rúminu, sitji í hjólastól eða
ráfi um. Persónumiðuð meðferð, sem stuðlar að vellíðan,
felur meðal annars í sér handa- og fótaþvott með nuddi,
andlitsþvott, rakstur og húðhirðu. Unnið er með skynfæri
einstaklinga og þeir örvaðir á ákveðinn hátt. Það skilar
sér í betri líðan, meiri ró og minni þörf á lyfjum. Þess
er gætt að íbúarnir hafi alltaf greiðan aðgang að mat og
drykk en reynslan hefur sýnt að fólk drekkur betur í þessu
umhverfi og matarlyst eykst (Stacpoole o. fl., 2015).
Hjúkrunarheimilið Skógarbær innleiddi Namastestefnuna
á einni deild í mars 2016 með mjög góðum árangri en
vísbendingar eru um að dregið hafi úr óróleika á deildinni,
byltum fækkað og geð- og svefnlyfjanotkun minnkað
(Valdís Björk Guðmundsdóttir, munnleg heimild, 6.
september 2016).
Sýn Tom Kitwood á heilabilun
Eins og Tom Kitwood (2007) fjallar um í bók sinni Ný
sýn á heilabilun þarf fólk með heilabilun helst af öllu á
kærleik að halda. Starfsmaðurinn þarf að veita skilyrðis-
lausan kærleik og vera örlátur og sáttfús. Viðurkenningar
þarf að veita af heilum hug án þess að vænta endurgjalds
eða umbunar (Kitwood, 2007). Kærleikur er eitthvað sem
allir þurfa og flestir geta auðsýnt eða öðlast en manneskja
með heilabilun er mun berskjaldaðri og oftast nánast ófær
um að eiga frumkvæði að því að uppfylla þessar þarfir. Þótt
það fari eftir hverjum og einum, persónuleika viðkomandi
og lífssögu í hve miklum mæli fólk þarfnast kærleikans þá
er það nánast undantekningalaust að þörfin eykst samhliða
vitrænni skerðingu (Kitwood, 2007).
Aðrar helstu þarfir aldraðra, og þá sérstaklega þeirra
sem eru með vitræna skerðingu, eru að öðlast huggun, ná
tengslum við aðra, eignast hlutdeild í samfélagi manna og
viðhalda virkni og sjálfsmynd. Að veita huggun felur í sér
að veita þá öryggistilfinningu sem skapast af því að vera
nákominn annarri manneskju, að skynja nærveru hennar
og fá að sefa sorgir sínar og angist. Þegar manneskja fær
heilabilunarsjúkdóm má búast við því að þörf hennar fyrir
huggun verði mikil þar sem hún þarf að takast á við margs
konar missi, t.d. ástvinamissi, minnkandi getu í öllum
athöfnum og smátt og smátt endalok þess lífs sem hún
áður þekkti. Með tímanum hættir viðkomandi að þekkja
sjálfan sig í spegli og sína nánustu. Þar sem viðkomandi
upplifir sig einan og yfirgefinn hefur hann ríka þörf fyrir
skilyrðislausa kærleiksríka nærveru (Kitwood, 2007).
Til að geta gegnt hlutverki sínu sem manneskja þarf
viðkomandi að hafa félagstengsl sem mynda eins konar
öryggisnet. Manneskja með heilabilun hefur sterkari þörf
fyrir slíkt en flestir því að hún býr sífellt við aðstæður
sem virðast undarlegar. Manneskjan hefur þróast sem
félagsvera og er þörfin fyrir að tilheyra hópnum mjög rík
hjá þeim sem eru með heilabilun. Til að einstaklingur með
heilabilun fái viðurkenningu og hafi skýra stöðu innan
hópsins er mikilvægt að þessi þörf sé uppfyllt, sérstaklega
þegar sjúkdómurinn ágerist (Kitwood, 2007).
Sjálfsmynd einstaklinga með heilabilun
Af ofangreindu má sjá að aðalviðfangsefni þeirra sem
annast fólk með heilabilun er að viðhalda sjálfsmynd
þeirra og viðurkenna þá sem einstakar persónur með
fortíð og væntingar þrátt fyrir stöðuga hnignun á andlegu
atgervi. Þegar þörfum einstaklingsins er fullnægt og
honum finnst hann vera einhvers metinn og hafi hlutverk
er líklegra að sjálfsmynd hans styrkist (Kitwood, 2007).
Til þess að þetta sé raunhæft er þekking umönnunaraðila
á sjúkdómnum og skjólstæðingnum grundvallaratriði en
einnig verður umönnunaraðilinn að viðurkenna eigin tak-
markanir og kunna að nýta þann styrk sem hann býr yfir.
Margar rannsóknir á minnisheimt hafa sýnt að góð um-
önnun eflir taugastarfsemi en slæm umönnun getur brotið
manneskjuna niður og jafnvel stofnað henni í hættu og það
getur þar af leiðandi haft áhrif á framvindu sjúkdómsins til
hins verra (Kitwood, 2007; Svava Aradóttir, 2003).
Til að einstaklingi með heilabilun líði sem best er
mikilvægt fyrir umönnunaraðilann að hafa umhverfið
rólegt, öruggt og fyrirsjáanlegt, tryggja að ekkert komi
þar á óvart og forðast aðstæður sem hræða eða valda
streitu. Ef einstaklingur verður órólegur eða ör þá er gott
að reyna að beina athygli hans eitthvað annað, t.d. með
samræðum eða tónlist. Það getur reynst róandi að fara inn
á herbergið til að skoða gamlar myndir. Mikilvægt er að
nota óhefðbundna meðferð ásamt lyfjameðferð því að lyfin
ein og sér taka ekki endilega á rót vandans og hafa jafnvel
aukaverkanir (Sadowsky, 2012).
Lokaorð
Kjarni málsins í faglegri umönnum fólks með heilabilun
er dreginn saman í heiti ljóðsins „Komið nær og lítið á
mig“ þar sem öldruð kona lýsir aðstæðum sínum á hjúkr-
unarheimili og framkomu starfsfólks. Það þarf að gæta
að högum manneskjunnar sjálfrar en ekki bara sjúkdóms-
greiningu hennar eða líkamlegum þörfum. Um er að ræða
faglega umönnun en ekki geymslustað fyrir þá sem ekki
geta lengur séð um sig sjálfir. Starfsumhverfið þarf að vera
gott og hvetjandi og mikilvægt að ofgera ekki starfsfólki.