Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Page 45

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Page 45
45 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA Hvernig er hægt að koma í veg fyrir byltur hjá öldruðum? Umhverfisþættir geta snúið að hönnun bæði einkasvæða og almenningssvæða og félags- og efnahagslegir þættir eru lágar tekjur og takmarkaður aðgangur að heilbrigð- iskerfi og félagslegri þjónustu (Kaminska o.fl., 2015). Umhverfisþættir, svo sem blaut gólf, lausar snúrur, ónóg lýsing, óreiða og skófatnaður, hafa áhrif en einnig getur orsökin verið að aldraðir noti ekki viðeigandi hjálpartæki, eins og stafi, göngugrindur og upphækkanir á salerni (Tabloski, 2014). Ýmis atriði hafa áhrif á byltuhættu. Rannsakendur hafa bent á að ef til staðar eru fleiri en tveir af eftirfarandi þáttum þá sé um aukna byltuhættu að ræða: Fyrri byltur, göngulagstruflanir, hreyfiskerðing, jafnvægistuflanir, hræðsla við að detta, sjónskerðing, vitræn skerðing, þvagleki, hættur í umhverfi, fjöllyfjanotkun, geðlyf og hjartalyf og vöðvaslappleiki (Sharma, 2016; Tabloski, 2014). Þetta eru því atriði sem hjúkrunarfræðingar ættu að hafa í huga við mat á byltuhættu. Afleiðingar bylta Afleiðingar bylta eru margvíslegar en sem betur fer eru áverkar af þeirra völdum í færri tilfellum alvarlegir. Byltur eru algengasta orsök áverka hjá öldruðum í Bandaríkjunum og tvær helstu ástæður fyrir dauða af slysförum hjá öldruðum þar eru byltur og umferðarslys. Algengustu beinbrot af völdum bylta eru á framhandlegg, hrygg og mjaðmagrind. Aldraðir, sem eru 85 ára og eldri, eru í 10-15 sinnum meiri hættu að hljóta mjaðmabrot en fólk 65-85 ára. Mjaðmabrot valda miklum heilsufarsvanda- málum og hafa mikil áhrif á lífsgæði og fjórðungur þeirra sem mjaðmabrotna þurfa að vera allt að einu ári á sjúkra- húsi og margir komast aldrei heim aftur (Tabloski, 2014). Kostnaður vegna bylta er mikill fyrir heilbrigðiskerfið og hefur áhrif á líf og heilsu aldraðra. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands (e.d.) þá lést á árunum 2005 til 2009 þrjátíu og einn einstaklingur 67 ára og eldri hér á landi vegna afleiðinga bylta. Í skýrslu, sem Landlæknisembættið gerði (2005) um slys á öldruðum á Íslandi árið 2003, kem- ur fram að hjá eldri en 65 ára, sem komu á slysadeild LSH vegna slysa, var orsök áverka einhvers konar fall hjá 67% þeirra og tæplega 18% lögðust inn á LSH eða aðra stofnun. Af þeim sem lögðust inn voru 60% (N=567) með beinbrot og þar af rúmlega 28% með mjaðmabrot eða um 158 aldraðir. Algengustu brotin voru á framhandlegg eða 132, þar á eftir komu brot á rifi, bringubeini og brjósthrygg, sem voru 76, og brot á lendarhrygg og mjaðmagrind voru 38. Í rannsókn Sigrúnar Sunnu Skúladóttur (2014) kom í ljós að fjöldi 67 ára og eldri, sem lögðust inn á LSH vegna mjaðmabrots á árunum 2008-2012, var svipaður milli ára eða 193 til 222 á ári. Alvarlegar afleiðingar bylta geta verið kostnaðarsamar en samkvæmt upplýsingum frá hagdeild LSH kosta aðgerðir á mjöðm og lærlegg um 2,5 milljónir króna og því til mikils að vinna að fækka alvarleg- um beinbrotum vegna bylta hjá öldruðum. Gerð var rannsókn á Landsspítala á afleiðingum bylta árið 2005-2009 hjá inniliggjandi sjúklingum þar sem stuðst var við skráð óvænt atvik samkvæmt atvikaskrán- ingakerfi LSH (Eygló Ingadóttir og Hlíf Guðmundsdóttir, 2011). Niðurstöður sýndu að talsverðir áverkar voru hjá 4,5% sjúklinga sem duttu á tímabilinu og miklir áverkar hjá 1,4% sjúklinga. Athyglisvert var að byltur tengdar salernisferðum voru þriðjungur bylta og voru þeir einstak- lingar líklegri til að hljóta áverka heldur en sjúklingar sem ekki voru að fara á salerni. Einnig kom í ljós að 42% bylta verða að næturlagi og þá flestar á milli klukkan tvö og fjögur. Byltur tengjast að auki matmálstímum á daginn. Svipaðar niðurstöður koma fram í rannsókn Huey-Ming og Chang-Yi (2012) sem gerð var á sjúkrahúsi í Michigan í Bandaríkjunum. Rannsakendur leggja til að sérstaklega þurfi að huga að öldruðum, minnisskertum einstaklingum sem þurfa aðstoð við ADL, ásamt því að leggja áherslu á að fækka byltum á næturvöktum. Gera þurfi fleiri rann- sóknir á áhrifum vinnuumhverfis til að fækka byltum út af salernisferðum en þær eru líklegri til að valda sjúklingum áverka en byltur af öðrum orsökum. Hvað getum við gert til að fækka byltum? Skima og meta byltuhættu Samkvæmt klínískum leiðbeiningum til að draga úr byltum á LSH (Landspítali, 2007) er ráðlagt að skima eftir byltuhættu með Morse-byltumatstæki þegar einstaklingar eldri en 67 ára leggjast inn á spítalann. Matið felur í sér að skoðaðir eru sex þættir hjá sjúklingi: 1) fyrri byltur, 2) fleiri en ein sjúkdómsgreining, 3) hvort þurfi aðstoð við gang, 4) hvort sé með vökva í æð eða æðalegg, 5) stöðugleiki við göngu og 6) meðvitaður um takmarkanir sínar (Morse, 1989; Agency for Healthcare Research and Quality, 2013). Einstaklingur er síðan í byltuhættu ef hann fær fleiri en 45 stig. Ef sjúklingur er talinn í byltuhættu fer fram mat hjúkrunarfræðings, læknis, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa til að hægt sé að setja fram einstaklingsbundna fjölfaglega meðferð (Landspítali, 2007). Morse-byltumatið er talið áreiðanlegt og er eitt algengasta matið sem notað er þegar metin er byltuhætta á bráðasjúkrahúsum (Baek o.fl., 2014). Önnur byltumatstæki hafa verið útbúin til að skima eft- ir hættu á byltu. Hendrich II-byltumatið er matstæki sem talið er henta vel þegar verið er að meta byltuhættu hjá öldruðum á hjúkrunarheimilum, göngudeildum (Hendrich, 2007; Tabloski, 2014) og sjúkrahúsum (Hartford Institute for Geriatric Nursing, e.d.). Skoðaðir eru aðrir áhættuþætt- ir fyrir byltum en við Morse-byltumatið. Áhættuþættirnir eru karlkyn, óráð (rugl), minnisskerðing eða sljóleiki til staðar, þunglyndiseinkenni og hvort einstaklingur missir þvag, hefur næturþvaglát eða tíð þvaglát. Einnig hvort sundl eða svimi er til staðar, hvort viðkomandi tekur inn róandi lyf og hvort hann getur staðið sjálfur upp úr stól eða þarf aðstoð við það. TUG-próf, sem metur göngulag og jafnvægi, er hluti af þessu mælitæki. Þetta mat ætti

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.