Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2016, Blaðsíða 111
að í máli Jóns hafi æ verið nægilega líkt síðari hluta é til að hljóðin gætu
almennt myndað heilrím.
Auk þessa er rétt að líta nánar á dæmið vér : fær úr Krossvísum. Vís -
bendingar eru um að é í stöðu á eftir v og á undan l eða r hafi snemma fjar -
lægst í máli sumra og fallið saman við æ. Í stafsetningu koma fram merki
um breytinguna í orðunum vél og véla snemma á 13. öld og í for nafninu
vér um 1300 (Björn K. Þórólfsson 1925:xiv–v, 1929a:235, sjá einnig Kock
1895:140 o.áfr.). Í umræddu dæmi ríma því mögulega fær og vær (< vér)
og óvíst að um sé að ræða rím é : æ. En hvort sem tvö dæmi eru um rím é
: æ hjá Jóni Arasyni eða aðeins eitt er ljóst að sú fullyrðing að Jón beiti
ríminu oft á ekki rétt á sér.49
Á öðrum stað segir Björn (1929a:236) að Jón Arason rími stundum é
við æ, en þar er enn fullyrt að Hallur Ögmundarson geri þetta oft. Vísað
er til útgáfu Jóns Þorkelssonar (1922–27) á kvæðum Halls en þar hef ég
einungis fundið eitt dæmi, vætti : rétt í 30. erindi Michaelsflokks (1922–
27:377). Aftur á móti reyndust vera að minnsta kosti átta dæmi um é : æ í
hálfrími.50 Því er ljóst að þrátt fyrir fullyrðingar Björns styður kveðskap-
ur Jóns og Halls ekki þá ætlun að útbreiðsla tvíhljóðunar æ hafi verið lítil
fyrir 1550.
Dæmin um é : æ í kvæðum Jóns og Halls eru að vísu ekki einangruð.
Björn leitaði einnig að dæmum í elstu rímum er þá voru útgefnar, alls 38
rímum og rímnaflokkum (sjá 1929a:235, nmgr. 2). Mest af þessu efni er
líklega samið á 14. og 15. öld, en a.m.k. tvennar rímur eru taldar frá 16. öld
(um aldursgreiningu, sjá Björn K. Þórólfsson 1934:289 o.áfr. og Hauk
Þorgeirsson 2013:248 o.áfr.). Hér fannst alls 21 dæmi um rím é : æ. Einnig
leitaði Björn í dróttkvæðaútgáfu Finns Jónssonar (1908–15) og fann fjög-
ur dæmi í ungum helgikvæðum (Björn K. Þórólfsson 1929a:235). Hann
tók ekki með dæmi með fornafninu vér en taldi með sex dæmi með
orðunum vél eða véla. Eðlilegra hefði verið að undanskilja þau því eins og
Björn nefnir sjálfur eru heimildir um lækkun é > æ í vél og véla alveg eins
og um samsvarandi breytingu í vér. Sé það gert standa eftir nítján dæmi.
Aldur tvíhljóðunar í forníslensku 111
49 Raunar er óvíst að Jón Arason hafi samið Ljómur og jafnvel er talið að þær gætu
verið frá 15. öld (ÍB 2:301). Heimildir fyrir því að Jón Arason sé höfundur Krossvísna eru
ungar eða frá seinni hluta 17. aldar (Jón Helgason 1936:252).
50 Í Gimsteini: mér : færi 53:1 (Jón Þorkelsson 1922–27:310), sér : væri 97:5 (1922–
27:320); í Náð: ættum : stétta 9:3 (1922–27:329), ættir : stéttum 21:7 (1922–27:332), ætt :
réttri 30:1 (1922–27:334), ætt : réttum 37:7 (1922–27:336), hét : mæti 76:7 (1922–27:345); í
Michaelsflokki: héruðum : vær 59:1 (1922–27:383). Í Gimsteini er einnig: Eraklius : kæri
97:7 (1922–27:320).