Spássían - 2010, Page 12

Spássían - 2010, Page 12
 12 Glæpasagnahöfundar leggja áherslu á að skapa trúverðugar söguhetjur og einn liður í því er að gera ráð fyrir því að þær eigi sér líf utan ráðgátunnar. Við fáum innsýn í þetta persónulega líf og um leið er hversdeginum eins og við þekkjum hann stefnt saman við skelfilegustu glæpi og hrylling sem persónurnar rekast á við lausn gátunnar. Þetta færir glæpina nær okkur og auðveldar okkur jafnvel að trúa því að þeir séu hluti af veruleika okkar – sem er vitanlega áhrifamikil og ógnvekjandi tilhugsun. Dæmi um áherslu á hversdag sögupersóna eru ítarlegar lýsingar á matreiðslu og matarneyslu, til dæmis í sögum Lilju Sigurðardóttur og Ævars Arnar Jósepssonar: Raunsær hversdagur mætir ævintýralegum hasar Lilja Sigurðardóttir. Fyrirgefning. Bjartur. 2010. Glæpasagan Fyrirgefning eftir Lilju Sigurðardóttur er framhald af sögunni Spor sem fjallaði um íslenskan fjöldamorðingja og söguhetju á kafi í tólf spora kerfinu. Þeir lesendur Fyrirgefningar sem vita ekki af því þegar lestur hefst komast fljótlega að því, þar sem mikið er vísað til atburðanna í Sporum. Reyndar ákveður höfundur, þegar líður tekur á seinni hluta bókarinnar, að láta söguhetjuna beinlínis segja frá fyrri bókinni svo enginn ætti að geta látið tilvist hennar fram hjá sér fara: „Ég á líka tólf þéttskrifaðar stílabækur frá sporavinnunni minni [...] Mér hefur dottið í hug að nefna það við útgefandann að gefa mína sögu sérstaklega út. Ég myndi kalla hana Spor [...]“ (118). Eins og gefur að skilja verða AA-fundir og eilíf baráttan við fíknina áfram mikilvægur þáttur í lífi aðalpersónunnar. Meginþema Fyrirgefningar er hins vegar annars konar andleg átök; sú mikla reiði sem fórnarlömb ofbeldis þurfa að kljást við og, eins og titillinn gefur til kynna, fyrirgefningarferlið. Lilju tekst vel að skapa sannfærandi og nokkuð áhugaverðar persónur. Hún fylgir söguhetjunni Magna þétt eftir og eiga nákvæmar lýsingar á athöfnum hans og hversdegi eflaust að gæða hann lífi í hugum lesenda. Nostur hans við matargerðina endurspeglar til dæmis að einhverju leyti að hann er að reyna að takast á við nýja ábyrgð í lífi sínu og breyta um lífsstíl. Það er þó spurning hvort raunsæið þurfi að vera alveg svo mikið að hverri einustu máltíð sé lýst í smáatriðum; aðdraganda hennar, innkaupum, matreiðslu og neyslu. Þegar líður á bókina verður líka ljóst að raunsæið nær einungis til persónanna, umhverfislýsinga og samfélagsaðstæðna. Söguþráðurinn minnir helst á dæmigerða hasarmynd, með morði á morð ofan, flóknum samsærum og ólíkindalegri atburðarás. Lilja sýnir það í fyrstu köflum Fyrirgefningar að hún kann að byggja smám saman upp lúmska spennu. Hins vegar er lesandinn, ásamt söguhetjunni, nokkurn veginn búinn að átta sig á því um miðja bók hvernig landið liggur, og eftir það snýst aðalspennan um það hvernig flett verður ofan af glæpunum – því þeir eru fleiri en einn. Helsti gallinn er einmitt sá að plottið verður helst til yfirdrifið. Höfundur virðist ætla að viðhalda spennunni með hliðarflækjum og með því að auka sífellt ofbeldið og hasarinn. Samúð lesandans og innlifun fer hins vegar þverrandi við hvert dauðsfall þegar mannfallið er orðið eins og í meðal Hollywood hasarmynd. Fyrir utan það hefur höfundur góð tök á frásögninni og ég las bókina auðveldlega í einum rykk - eins og helst á að lesa spennusögur. Auður Aðalsteinsdóttir Flutningur Laxdælu til nútímans Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir. Mörg eru ljónsins eyru. JPV. 2010. Í þessari skáldsögu heldur Þórunn Erlu- Valdimars- dóttir áfram að skrifa rannsóknarlögreglumann- inn Leó inn í söguþráð Íslendingasagnanna eins og í Kalt er annars blóð frá 2007. Í þetta sinn er söguþráður Laxdælu grunnurinn að persónum og atburðarás glæpasögunnar. Helsti galli þessarar bókar sem glæpasögu er sá að glæpafléttan virðist auka- atriði í frásögninni: Forsagan og samsvaranir við Laxdælu er í forgrunni. Þessi flutningur Laxdælu til nútímans er sannarlega fullur af sniðugum lausnum og hugvitsamlegum tengingum en að sama skapi dregur þetta úr því að persónurnar verði áhugaverðar í sjálfu sér. Upplifunin af þeim, sérstaklega framan af, litast þannig full mikið af því að finna samsvaranir við persónur Laxdælu. Persónurnar verða aldrei heilar, þær eru einhvern veginn opnar í annan endann, jafnvel þegar frásagnarstíllinn einkennist af innri pælingum persónanna. Undantekningin er einna helst Leó rannsóknarlögreglumaður enda er tenging hans við söguþráð Laxdælu ekki eins skýr og annarra persóna. Stíllinn einkennist af stuttum setningum og að því leyti kallast hann á við stíl Íslendingasagna, en áherslan á innra líf persóna og hugrenningar þeirra og sögumanns um lífið og tilveruna gera þá tengingu aðeins yfirborðskennda. Þessar hugrenningar og pælingar gera þetta verk að samtímaskáldsögu sem fjallar um mótsagnir og fáránleika í nútímasamfélagi, oft á frumlegan hátt. Þetta er því að sumu leyti áhugaverð skáldsaga en vantar þó talsvert upp á að úr verði góð glæpasaga. Ásdís Sigmundsdóttir Lúðubitar og morð

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.