Spássían - 2010, Qupperneq 19

Spássían - 2010, Qupperneq 19
19 ef við skoðum söluhæstu höfunda undanfarinna ára. Jújú, Arnaldur er vissulega alltaf á toppnum, hann er svona eins og malt og appelsín, ómissandi fyrir jólin. Þar fyrir utan seljast sumir krimmahöfundar ágætlega en ég verð ekki var við annað en að annar skáldskapur seljist líka ljómandi vel. Krimmarnir einoka langtífrá efstu sæti sölulistanna, þar eru líka Einar Kárason og Einar Már Guðmundsson, Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson, Kristín Marja Baldursdóttir, Kristín Steinsdóttir, Sjón, Bragi Ólafsson, Auður Jónsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og fleira gott fólk. Sumir þessara höfunda selja miklu meira en ég nokkurn tímann og það er fínt. Krimmarnir fara reyndar langmest af fullorðinsbókum út af bókasöfnunum en það skiptir tæpast sköpum um afkomu fólks eða framtíð annarra bókmenntagreina. Ég held að ef fólk skoði tölfræðina sjái það að þetta tal um að krimminn sé að kaffæra allt er bara bull.“ Hann þvertekur þó ekki fyrir að óvenju mikil útgáfa á þýddum glæpasögum sé nýjasta útgáfan af dæmigerðri íslenskri „bólu“ sem eigi mögulega eftir að springa. „Það sama á við um þetta og fiskeldið og loðdýraeldið, það lifir sem er lífvænlegt og annað dettur upp fyrir. Ef höfundar skila af sér lélegum bókum hættir fólk að kaupa þær, í hvaða flokk eða skúffu sem þær falla.“ Íslenskar glæpasögur á góðu flugi Ævar Örn er þvert á móti ánægður með að íslenskar glæpasögur skuli vera komnar á þetta flug. „Þær eiga sér stutta hefð í vissum skilningi. Þótt þær hafi komið strjált út allt frá byrjun 20. aldar voru þær alltaf dálítið á skjön. Frá 1996 byrjaði glæpasagnaútgáfan svo fyrir alvöru. Sumar eru mjög góðar og aðrar eru ekki jafn góðar, en fólkið sem skrifar þær gerir það vegna þess að því finnst það gaman. Og við erum ekki að taka neitt frá neinum – við erum að bæta við.“ Þá finnst honum mikil fjölbreytni innan greinarinnar. „Við erum tiltölulega fá, íslenskir krimmahöfundar, en við komum úr mjög ólíkum áttum og gerum töluvert ólíka hluti. Við eigum auðvitað ýmsa hluti sameiginlega en ég held að enginn sem les bók eftir Arnald myndi halda að hún væri eftir Viktor Arnar Ingólfsson og enginn sem les Viktor halda að þetta væri bók eftir mig, enginn sem les mig halda að þetta væri bók eftir Yrsu Sigurðardóttur og svo framvegis. Þá er ég ekki bara að tala um stílinn heldur líka innihald, efnistök og áherslur. Við erum með blaðamanninn hjá Árna Þórarinssyni, þunglyndu og einmana lögguna hjá Arnaldi, lögfræðinginn hjá Yrsu, teymið hjá mér og svona má halda áfram. Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir kemur svo úr allt annarri átt, vinnur sagnaarfinn yfir í nútímann og glæpasöguna, sem mér finnst mjög skemmtilegt. Flóran í þessum litla, íslenska krimmagarði er ótrúlega fjölbreytileg.“ Þurfum líka að taka á samtímanum Hann viðurkennir þó að íslenskar glæpasögur séu fremur jarðbundnar. „Við erum kannski flest á klafa norræna, félagslega raunsæisins hvað það varðar. Á móti kemur að ég er ekkert einn um það að kalla eftir aðeins meiri umfjöllun höfunda „fagurbókmennta“ um íslenskan raunveruleika. Það er voða gaman að fá fallegar, skrítnar og skemmtilegar sögur en mér finnst nauðsynlegt að skáld reyni líka að spegla sinn samtíma. Það er furðu lítið um það hjá öðrum en glæpasagnahöfundum. Það er engin ein rétt sýn og mér er alveg sama hvernig þeir gera það en þetta eru þvílíkir tímar sem við erum lifum á að það hljóta allir að þurfa að taka á þeim á einhvern hátt, í listinni líka. Auðvitað er til æðisleg list sem stendur fyrir utan allt og getur sagt okkur eitthvað um samtímann og okkur sjálf en mér finnst að það hljóti að vera mikilvægt að einhverjir listamenn í hverri einustu listgrein bregðist við og vinni úr því andrúmslofti sem við lifum og hrærumst í hverju sinni. Þó er það svo að fáir rithöfundar aðrir en Eiríkur Örn Norðdahl, Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Mikael Torfason, Guðrún Eva Mínervudóttir að einhverju leyti, og svo sumir glæpasagnahöfundar, vinna með samfélagið sem við lifum í. Ég er örugglega að gleyma einhverjum, en flestir aðrir eru meira og minna í sínum eigin heimi, mislangt aftur í öldum eða inni í súrrealískum fantasíum eða hvar sem er annars staðar en hér og nú. Þetta er allt saman fínt og gaman, frábært og skemmtilegt. Brilljant bækur eftir frábæra höfunda og mér dettur ekki í hug að fara fram á að þeir hætti þessu og fari að skrifa eitthvað annað. En einhver okkar þurfa líka að taka á samtímanum. Ég er í þeirri deild og ég neita að kalla hana 2. deild – þótt það sé allt önnur deild.“ Ævar Örn á gamlan Land Rover sem skipar stóran sess í hjarta hans. Í Öðrum lífum kemur gamall Land Rover einmitt inn í líf lögreglumannsins Stefáns en höfundurinn upplýsir að sá skrjóður muni koma enn meira við sögu í næstu bók og í raun tryggja sér sæti meðal aðalpersóna seríunnar. Auður Aðalsteinsdóttir

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.