Spássían - 2010, Page 22

Spássían - 2010, Page 22
 22 Ragnar Jónasson. Snjóblinda. Veröld. 2010. Einstæðingurinn, uppgjafa heimspeki- og guðfræðineminn og nýútskrifaði lögregluþjónninn Ari Þór Arason er aðalsöguhetja glæpasögunnar Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson. Þetta er önnur bók höfundar og framhald þeirrar fyrstu, Falskrar nótu, sem kom út um síðustu jól. Sú bók féll ágætlega inn í íslenska glæpasagnaflóru og hið sama má segja um Snjóblindu. Sagan, sem gerist á Siglufirði, er römmuð inn af snjó, þverhníptum fjöllum, þröngum fjörðum og myrkri. Ari fær vinnu sem lögregluþjónn á Siglufirði, pakkar öllu saman og skilur kærustuna eftir í Reykjavík þar sem hún situr og les læknisfræði. Á Siglufirði finnur Ari enn meira til einstæðingsskapar síns en fyrr og þess að vera aðkomumaður. En það er líka þrengt að honum á stað þar sem allir telja sig vita allt um alla. Leyndarmálin leynast þó víða og allir hafa eitthvað að fela. Tvö dularfull dauðsföll eiga sér stað í bænum. Fyrst finnst gamall drykkfelldur rithöfundur látinn í áhugaleikhúsi bæjarins, rétt fyrir frumsýningu, og stuttu síðar finnst ung kona nær dauða en lífi úti í snjónum. Siglufjörður er lokaður af vegna snjóþyngsla og glæpirnir hvíla þungt á íbúum þessa fámenna staðar. Glæpasagan sjálf er spennandi, hröð og heldur manni við efnið. Frásögnin skiptist hratt á milli tíma og staða sem skapar spennu og ruglar lesendur hæfilega mikið í ríminu. Fléttan skiptist í raun í tvennt og þrátt fyrir að bæði málin séu spennandi er betur unnið úr máli gamla rithöfundarins en ungu konunnar í snjónum. Ýmsar skemmtilegar aukapersónur koma líka við sögu sem tengjast málunum beint eða óbeint. Fámennt lögregluliðið leggur sig fram við að leysa glæpina og Ari stendur sig vel þrátt fyrir reynsluleysið. Upp komast svik um síðir og þeir sem það eiga skilið fá makleg málagjöld. Sú persóna sem lesendur hafa líklega mestan áhuga á er Ari og saga hans. Þá sögu hefði höfundur mátt vinna betur, enda úr nægu að moða. Sambandið við kærustuna einkennist af efa og óvissu og er samskiptaleysið milli þeirra svo mikið að á þessum stafrænu tímum virðist það hálfótrúlegt. Ari á líka vingott við unga stúlku, píanókennara, á Siglufirði en lítið er fjallað um tilfinningar hans til hennar eða það tilfinningaumrót sem hlýtur að fylgja því að þykja vænt um tvær stúlkur í einu. Píanókennarinn á sér líka áhugaverða fortíð sem lítið er unnið úr. Það er hinsvegar ljóst að sögu Ara er langt í frá lokið þó svo tveir glæpir hafi verið upplýstir. Sambönd hans eru á óljósu stigi í bókarlok, auk þess sem lesendur vilja eflaust vita meira um ýmsar aukapersónur. Þrátt fyrir nokkra hnökra er Snjóblinda góð glæpasaga og það er viss léttir að fá hvíld frá miðaldra og yfirleitt þunglyndum lögregluþjónum skandinavísku glæpasagnahefðarinnar. Söguna mætti vissulega þétta og þjappa á stöku stað en lesendur geta hlakkað til að lesa meira um löguregluþjóninn Ara, því höfundur er þegar farinn að leggja drög að þriðju bókinni. Helga Birgisdóttir Morð í myrkri og snjó

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.