Spássían - 2010, Síða 26

Spássían - 2010, Síða 26
 26 Heimildamyndin Steam of Life (2010) var framlag Finna til Norðurlandaverðlaunanna þetta árið, en hún var einnig sýnd á RIFF og er með því besta sem ég sá á hátíðinni. Sögusviðið gæti vart verið einfaldara: Finnska sánan, í öllum sínum gervum, hvort sem er í skógarkofa, símaklefa, bifreið eða einfaldlega heilsuræktinni. Sánan er alls staðar, hún er óaðskiljanlegur þáttur finnskrar menningar og ber með sér rótgrónar tengingar við líkamlega og andlega heilsu. Hugmyndin að baki Steam of Life er að sama skapi einföld: kvikmyndagerðarmennirnir fylgja finnskum karlmönnum inn á þetta heilaga svæði og filma þá allsnakta og berskjaldaða. Það sést varla kona í myndinni, þetta er rannsókn á heimi karlsins, og að miklu leyti hugleiðing um karlmennsku og tilfinningar. Það er eins og karlarnir skilji allar byrðar samfélagsins eftir við dyrnar þegar þeir stíga inn í sánuna. Úti fyrir eiga þeir að sitja á tilfinningunum, halda uppi einhvers konar töffaralegum varnarvegg og takast á við lífið á yfirvegaðan og stóískan hátt, eins og sönnu hörkutóli sæmir. Þögla Gary Cooper týpan, sem byrgir allt inni í sér, er ímyndin sem margir karlanna í myndinni glíma við. En hún er ekki til staðar í sánunni. Þar fá karlarnir útrás fyrir allt sem á þeim hvílir og á köflum er ekki annað hægt en að tárast með þeim, svona er einlægnin sterk þegar maður situr allsber og grætur. Eða hlær. Það virkar í báðar áttir. Sánan hefur fylgt Finnum í langan tíma. Talið er líklegt að sánur hafi verið notaðar í allt að tvö þúsund ár, þótt skriflegar heimildir nái ekki lengra aftur en eitt árþúsund (samkvæmt vef The Finnish Sauna Society). Sánunni fylgir auk þess sú þjóðtrú að hún hreinsi ekki aðeins líkamann, heldur líka sálina – skoli burt syndirnar. Þessi trú verður að veruleika í Steam of Life, í það minnsta metafórískt. Henni eru gerð öllu bókstaflegri skil í hryllingsmyndinni Sauna (2008), sem var einmitt framlag Finna til Norðurlandaverðlaunanna í fyrra og er einnig mikið meistaraverk. Þar segir frá tveimur bræðrum á 16. öld. Þeir eru hluti af hópi sem sendur er til að draga ný landamæri á milli Svíþjóðar og Rússlands að loknu löngu stríði. Báðir eiga bræðurnir sína djöfla að draga og þegar hópurinn rekst á afskekkt þorp, sem ekki er merkt á nein kort, fara þessir sömu djöflar að gera vart við sig. Þorpið er byggt í kringum ævaforna sánu, svo gamla að enginn veit hvenær hún var reist, og hver sá sem stígur fæti þar inn þarf að opna sálina og horfast í augu við öll sín leyndarmál – hvort sem það er til góðs eða ills. Sauna er blanda af listrænni hugleiðingu og blóðugum hryllingi og galt þess að vissu leyti að vera of ljót fyrir listaliðið og of hæg fyrir hryllingsliðið, en útkoman er ægifagurt svitabað sem situr eftir í líkamanum (og á sálinni). Steam of Life og Sauna eiga margt sameiginlegt, þrátt fyrir afar ólíkar nálgunaraðferðir. Þær bera báðar vitni um fjölþætta tilveru mannsins og mátt þess að berstrípa líkama og sál til að komast að því hvað situr eftir þegar búið er að skafa samfélagið utan af okkur og við sitjum eftir nakin og berskjölduð. Hugsið til þess næst þegar tækifæri gefst að fara allsber í sánu. Gunnar Theodór Eggertsson Sáluhjálp í sánu … svona er einlægnin sterk þegar maður situr allsber og grætur. Eða hlær.

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.