Spássían - 2010, Page 48

Spássían - 2010, Page 48
 48 Mad Men segir frá hópi af auglýsingamönnum á Manhattan í New York og fólkinu í lífi þeirra. Þættirnir leika sér að fortíðarþránni og höfundar nýta sér fortíðina til að fjalla um ýmis samtímaleg málefni. Á yfirborðinu bregða þeir upp mynd af einfaldari tíma, áferðarfallegri og öðruvísi. Hönnunin er stílhrein, fatnaður klæðskerasaumaður, hárið fullkomið, öllum frjálst að reykja og drekka eins og þá lystir. En þessi ofuráhersla á yfirborðið bregður um leið ljósi á það sem býr undir fallegu myndinni. Því það býr gjarnan flagð undir fögru skinni og þessi tími reynist ekki vera svo snotur þegar betur er að gáð. Sögusviðið er 7. áratugurinn – fyrir næstum hálfri öld. Venjur, aðferðir, starfshættir og viðhorf hafa breyst mikið síðan þá og ekki að ástæðulausu. Konur jafnt sem karlar áttu í erfiðleikum með að standast kröfur tíðarandans. Framhjáhald, drykkja, kynferðisleg áreitni, fordómar og fljótfærnislegar ákvarðanir voru ráðandi öfl í lífi fólks í bland við örlagavalda á borð við Víetnam stríðið. Það er sláandi fyrir nútíma áhorfendur hversu hægt viðhorf til manna og málefna hafa breyst þrátt fyrir ágætis viðleitni síðustu hálfa öldina. Aðalsöguhetjur Mad Men eru fallega hvíta fólkið og fara þar Don Draper og kona hans Betty fremst í flokki. Hann er auglýsingamaður og táknmynd bandarísku karlmennskunnar, hún er fyrrum fyrirsæta og heimavinnandi húsmóðir og bæði eru þau óhamingjusöm. Saman eru þau eins og klippt út úr tímariti 7. áratugarins; ímynd hins fullkomna pars. Varla örlar á hörundsdökku fólki og þá aðeins þegar nærvera þeirra er nauðsynleg til að bregða ljósi á líf hinna hvítu. Réttindabarátta svartra er í hámæli í fjölmiðlum á sjöunda áratugnum og alls kyns óeirðir og átök blossuðu upp út frá henni. Við sjáum Betty Draper segja afsakandi við svarta heimilishjálpina: „Kannski er þetta ekki rétti tíminn fyrir réttindabaráttuna.“ Þessa hugsun má yfirfæra á framleiðendur þáttanna sem hafa stundum legið undir ámæli fyrir að tækla ekki hin erfiðari samfélagsvandamál tímabilsins: Allir eru svo sympatískir og af vilja gerðir – það er bara ekki rétti tíminn. Það er heldur ekki rétti tíminn fyrir breytingu á viðhorfum til kvenna. Þær konur sem komast inn fyrir þröskuldinn og fá sína stöðuhækkun lenda á enn hærri tálmum en þær rákust á áður. Peggy Olsen, fyrrum ritari Dons Drapers, er tákngervingur hinnar metnaðarfullu konu sem er engu að síður fangi síns eigin óöryggis. Karlarnir sem komu auga á hæfileika Peggyar og veittu henni stöðuhækkun, frá einkaritara í auglýsingamanneskju, líta ekki á hana sem jafningja. Hún fær ekki sömu laun, hún fær ekki sömu tækifæri og alls ekki sömu sjálfsögðu virðingu. Það er aldrei rétti tíminn. Á hinum enda skalans er skrifstofustjórinn Joan og nýi eiginmaðurinn hennar. Þau haga sér bæði eftir handritinu; hann á að vera skurðlæknir, hún eiginkona skurðlæknis. Þegar hlutirnir ganga ekki upp eins og þau höfðu ætlað spóla þau í förunum og eiga erfitt með að finna sér leið upp úr þeim. Í nóvember 1963 breytist allt. Bandaríska þjóðin upplifir hamfarir þegar forsetinn er skotinn og í kjölfarið tekur við nýr heimur – heimur þar sem allt hefur hrunið og óvissa ríkir en einnig heimur þar sem möguleikar opnast og öllu hinu staðnaða og rykfallna er rutt úr vegi. Nýr heimur býður upp á ný tækifæri. Gamlar stofnanir eru rifnar niður og reynt að reisa aðrar við með bættum gildum. En það gengur brösulega. Þótt viljinn sé fyrir hendi er fólk tregt til að gangast breytingunum á hönd. Það tekur tíma að kenna því nýja leikreglur og á meðan hefur lítið og fjársvelt fyrirtæki ekki efni á því að halda uppi göfugum hugsjónum. Auðvelt er að stilla atburðarás fjórðu þáttaraðarinnar andspænis því sem hefur átt sér stað í efnahagsmálum undanfarin tvö ár. Íslendingar hafa fundið fyrir því á hvað áþreifanlegastan hátt en Bandaríkin hafa einnig átt í kröggum og ástandið endurspeglast nokkuð augljóslega í þáttunum. Þegar líður á fjórðu seríu fer söguþráðurinn að hverfast um það sem gerist í lífi fólks þegar fyrrum traustum stoðum er kippt undan því. Það reynir að krafla sig upp úr lægðinni en ástandið er viðkvæmt og ekkert má undan láta svo að allt hrynji ekki á ný. Lexían er sú, að þegar lítur út fyrir að leiknum sé tapað er eina leiðin upp á við að breyta leikreglunum. Ásta Gísladóttir Fyrir þremur árum hófu bandarísku sjónvarpsþættirnir Mad Men göngu sína. Fljótlega hófst sýning á þeim hér á landi og hófst þriðja þáttaröðin á Stöð 2 þann 28. nóvember síðastliðinn en alls hafa fjórar verið gerðar. Þættirnir hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og ótal viðurkenningar, enda runnir úr smiðju framleiðanda Sopranos-þáttanna sem nutu mikillar velgengni. Sögusviðið er Manhattan sjöunda áratugarins. En hvað er það við þá senu sem heillar nútíma áhorfendur? Klæðskerasaumaður fatnaður, hárið fullkomið og allir reykja gegnumÍglansmyndina

x

Spássían

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.