Spássían - 2010, Síða 49

Spássían - 2010, Síða 49
49 Ævar Þór hefur bók sína á því að standa á haus og virða heiminn fyrir sér. Það sem kemur honum fyrir sjónir er eðlilega á hvolfi og stórskemmtilegt. Ekki er nóg að fólk gangi á loftinu og setji upp skeifu heldur fara ferðamenn heim til sín, byggingariðnaðarmenn rífa niður hús og útvarpið hlustar í stað þess að útvarpa. Þannig eru bæði höfundur og lesandi komnir í svipaðar stellingar þegar haldið er yfir í næstu sögu. Í bókinni er að finna 31 örsögu þar sem heimurinn er á einhvern hátt öðruvísi en við eigum að venjast. Ævar beitir fyrir sig súrrealisma og fantasíu, án þess að skeyta um niðurnjörvaðar bókmenntagreinar, og eru sumar sögurnar í raun ljóð á meðan aðrar gætu flokkast sem stuttleikrit. Margar þeirra eru hreinræktaður vísindaskáldskapur sem er ánægjulegt að sjá í íslenskri útgáfu og mættu fleiri höfundar vera óhræddari við hann. Sögurnar eiga það allar sameiginlegt að vera mjög stuttar, flestar 1-3 síða, og hugmyndirnar sem þær varpa fram eru frumlegar og vekja forvitni. Í „baksíðufrétt 3: draumar“ segir t.a.m. frá japönskum vísindamönnum sem finna upp tæki sem les drauma. Við þetta strita þeir og reyna að komast að leyndardómnum um eðli drauma, því þá dreymir um viðurkenningu. Þetta er örstutt og einföld saga sem stillir upp draumum svefns og vöku andspænis hvor öðrum og vekur spurningar í hugum lesenda. Það er reyndar lýsandi fyrir margar sögur, þær velta upp fleiri spurningum en þær svara. Í upphafi bókar er stutt tilvitnun úr Nashyrningunum eftir Eugène Ionesco um firringuna og húmorinn sem rökleysan bíður upp á. Í sögum Ævars er að finna meiri húmor en rökleysu og stundum óskar maður þess að haldið hefði verið áfram með söguna, fundin einhver lausn, í stað þess að hætta þegar hápunktinum er náð. Hvernig farnast Guðmundi á leið til Mars? Hvernig fór fyrir afriti Gunnars? Stökk Jón? Hvað fann fornleifafræðingurinn? Hvað sá Lísa inni á baði? Þegar á líður fer lesandinn að kannast við frásagnartækni Ævars, eða kannski að sjá heiminn jafnmikið á hvolfi, og hættir að láta koma sér á óvart. Þessi bók er eins og girnilegur sushibakki, hver biti gómsætur en varasamt að borða of mikið í einu því hætt er við að bitarnir fari að bragðast eins. Það er þó lítill galli á annars stórfínu verki. Öll umgjörðin er vel unnin og forsíðumyndin skemmtilega súrrealísk og í takt við tóninn í bókinni. Ævar Þór Benediktsson. Stórkostlegt líf herra Rósar og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki. Nykur. 2010. bókasushi Ásta Gísladóttir Bragðgott

x

Spássían

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.