Spássían - 2010, Side 54

Spássían - 2010, Side 54
 54 Marta Helgadóttir hefur staðið fyrir leshring síðan haustið 2007 sem er um margt frábrugðinn öðrum hefðbundnum leshringjum. Leshringurinn sem um ræðir fer nefnilega eingöngu fram á bloggsíðu Mörtu á netinu. Þar eru þær bækur sem fjalla skal um valdar með lýðræðislegum hætti og svo skiptast þátttakendur á skoðunum. Marta var í leshring á skólaárum sínum og hafði mjög gaman af. Hugur hennar hefur lengi hneigst til smásagnaskrifa og opnaði hún bloggsíðu sína með það í fyrirrúmi að þjálfa sig til skrifta. Bloggsíðan skyldi verða einhvers konar dagbók um eigin hugrenningar, kvikmyndir, bækur og annað menningartengt efni. Hún skrifaði þar meðal annars um þær bækur sem hún var að lesa hverju sinni og vakti athygli hennar hversu margir lesenda bloggsins tjáðu sig um sömu bækur í þar til gerðu athugasemdakerfi. Því vaknaði hjá henni hugmyndin að setja á laggirnar skipulagðan leshring með þessu fyrirkomulagi. „Við völdum sem sagt að taka fyrir sameiginlega eina bók í mánuði og síðan stillti ég upp fyrirfram ákveðnum spjalldegi þar sem við myndum tjá okkur um bókina. Sunnudagar urðu fyrir valinu.“ Þátttaka í leshringnum er engum kvöðum bundin og getur fólk því tekið þátt þegar því hentar eða þegar það hefur áhuga. Marta telur að það geti vel verið lykillinn að langlífi hringsins sem nú hefur starfað í þrjú ár. Þátttakendur eru á öllum aldri, flestir á aldrinum 35-65 ára, ívið fleiri konur en karlar, en leshringurinn er öllum opinn. Þar má finna fólk úr öllum áttum samfélagsins og ólíkum starfsgreinum, svo sem verkfræðing, lækni, sálfræðing, húsmóður, öryrkja og bókasafnsfræðing svo eitthvað sé nefnt. Þar sem bókaspjallið í leshringnum fer eingöngu fram á netinu er búseta engin fyrirstaða og því geta þeir sem búa erlendis einnig tekið þátt. „Sumir taka alltaf þátt, en sumum heyrir maður ekki frá svo mánuðum skiptir. Margir fylgjast þó með framvindu mála og skjóta svo upp kollinum aftur síðar. Vegna þess að kvaðir eru engar og enginn er í skammarkróknum fyrir að vera ekki alltaf með, þá dettur fólk gjarnan inn aftur þegar aðstæður þess og frítími leyfa“, segir Marta. Leshringurinn fer skemmtilega leið að því að velja þá bók sem næst skal taka fyrir, en valið takmarkast þó við fagurbókmenntir. Þátttakendur senda inn tillögur að bókum sem þeir vilja taka fyrir og setur Marta þær upp í lista sem hópurinn velur svo úr. Bækurnar mega helst ekki fara mikið yfir 300-400 blaðsíður svo sem flestir sjái sér fært að taka þátt. Þessi aðferð til að velja bækur hefur marga kosti að mati Mörtu. Fólk fær tækifæri til þess að kynnast virkilega góðum bókmenntum og höfundum sem það annars hefði jafnvel aldrei sóst eftir að lesa. Þannig getur leshringurinn orðið til þess að víkka sjóndeildarhring lesenda fagurbókmennta. Umræða um bækurnar er mjög frjáls. Enginn listrænn stjórnandi er í leshringnum heldur er fólk hvatt til að tala útfrá eigin upplifun. Marta segir tilganginn síður en svo vera að greina bækur útfrá ströngum bókmenntafræðilegum sjónarmiðum eða gera um þær einhvers konar ritdóm með tilheyrandi stjörnugjöf. „Tilgangurinn er fyrst og fremst að njóta þess að deila hughrifum okkar af lestrinum og skoðunum og hafa ánægju og fróðleik af“, segir Marta. Marta hefur aldrei upplifað neitt neikvætt í tengslum við leshringinn. Þvert á móti segist hún hafa kynnst nágrannakonu sinni í gegnum netspjallið. „Þótt Ísland sé lítið og við séum fá eru vegalengdir stundum mislangar á milli húsa ekki síður en í stórborgum erlendis“, segir Marta glaðlega. „Fyrir mig hefur verið afskaplega gefandi að halda utan um þennan litla leik sem leshringurinn er. Það er ekki mikið fyrir þessu haft. Samskiptin eru almennt einstaklega skemmtileg og oft fróðleg, þótt að mestu sé um netsamskipti að ræða. Ég hef kynnst lauslega nokkrum úr hópi leshringsfélaganna, þetta er gott og vandað fólk sem mér finnst ég vera ríkari manneskja af að þekkja”. Vetrarvertíð leshringsins er nú hafin. Slóðin er http://martasmarta.blog.is/ blog/leshringur og eru allir áhugasamir velkomnir. Katrín Guðmundsdóttir le sh rin gu r

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.