Gerðir kirkjuþings - 2019, Blaðsíða 6
6 7
fastra nefnda þingsins. Viðbótarsamningurinn var síðan undirritaður af forsætisráðherra,
fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra, biskupi Íslands og forseta kirkjuþings.
Breytingin felur í sér að íslenska ríkið skuldbindur sig til þess að greiða ákveðna fjárhæð
sem gagngreiðslu til þjóðkirkjunnar og er miðað við gagngjaldið 2018. Greiðsla þessi er
óháð fjölda biskupa, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar. Hvað varðar frekari
skýringar vísast til inngangs og ákvæða viðbótarsamningsins, ásamt viljayfirlýsingu sem
er í höndum kirkjuþingsfulltrúa.
Aukakirkjuþingið í ágúst samþykkti einnig að fara þess á leit við kirkjuráð að skipuð
yrði nefnd til að koma með tillögur að útfærslu á samningnum. Sú nefnd hefur verið
skipuð og hlotið heitið Framtíðarnefnd. Hún mun vinna tillögur til kirkjuþings um það
hvernig viðbótasamningurinn verði útfærður. Nefndin hefur þegar hafið störf og er
Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, kirkjuþingsfulltrúi, formaður hennar. Forseti kirkjuþings
situr fundi nefndarinnar sem hittist vikulega. Ljóst er að kirkjuþing mun þurfa að setja
nýjar starfsreglur og nýjar samþykktir þar sem með þessum samningi verður fjárhagslegt
sjálfræði þjóðkirkjunnar stóraukið eins og fyrr segir. Í samræmi við það mun einnig þurfa
að einfalda mjög allt lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem
þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Nú verður þjóðkirkjunni í sjálfsvald sett hvort og þá hvernig
hún heldur áfram starfsemi þeirra sjóða sem reknir hafa verið á grundvelli laga og ber nú
fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveður sjálf fjölda starfsmanna sinna.
Þessi breyting á samspili ríkis og kirkju mun skýra og styrkja starfsemin þjóðkirkjunnar
og má segja að nú sé hún komin í ákveðna höfn til allt að 17 ára sem gefur tækifæri til að
efla kirkjulegt starf og laða fólk til samstarfs.
Þjóðkirkjan er, ásamt Alþingi, ein af elstu máttarstólpum þjóðarinnar og hafa verið
samferða alla tíð og verða það vonandi enn þrátt fyrir þennan aðskilnað sem orðinn er með
fyrr greindum samningi. Ég vil minna hér á að kristni og íslensk þjóð hafa átt samleið í eitt
þúsund ár. Kristni var lögtekin á Alþingi Íslendinga á friðsamlegan hátt. Kristni er svo samofin
menningu og sögu íslenskrar þjóðar að ekki verður skilið þar á milli. Ákvæði um þjóðkirkju
kom í fyrstu stjórnarskrá fyrir Ísland árið 1874 og hefur verið í stjórnarskrá landsins eftir
það. Skipulag og starfsemi þjóðkirkjunnar grundvallast á lögum settum af Alþingi. Löggjöf
hefur þó verið einfölduð talsvert á undanförnum árum og áratugum. Þrátt fyrir það eru
grunn stoðir kirkjunnar og helstu starfsþættir hennar lögmælt í dag, þótt kirkjan ráði miklu
um skipulag sitt, starf og forgangsröðun verkefna. Almennt má telja að vilji sé til þess að
fela kirkjunni enn meiri ábyrgð eigin mála með einföldun löggjafar og skýrari aðgreiningu
kirkju og ríkis. Í því felst þó ekki endilega vilji til að minnka stuðning og vernd ríkisins gagn-
vart kirkjunni heldur fyrst og fremst það að þjóðkirkjan ráði sínum eigin málum.
Mig langar einnig til að rifja það upp hér að árið 2012 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla
um tillögur stjórnlagaráðs en ráðið hafði það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána
og koma með tillögur að breytingu á henni. Ein af spurningunum tók á málefnum
þjóðkirkjunnar, hvort fólk vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni. Rúmlega
helmingur kjósenda vildi halda inni ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni. Kosningin
var dræm en að mínu mati skipti það máli að vera með þessa spurningu um stöðu
þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá til að höfða til kjósenda.