Gerðir kirkjuþings - 2019, Page 11
11
einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn
aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins. Ég mun halda áfram að
tilheyra kristinni kirkju þótt leiðir skilji á milli hennar og ríkisins.
Nýlegt samkomulag milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar felur í sér að hún verður ekki
lengur eins og hver önnur ríkisstofnun heldur mun hún fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem
ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag.
Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í
átt að fullum aðskilnaði með farsæld þjóðarinnar og þjóðkirkjunnar að leiðarljósi.
Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið sem ég hef hér vísað til mun þjóðkirkjan áfram
njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar Áfram
verður gert ráð fyrir menningarlegum og fjárhagslegum tengslum. Með samningnum
er ekki verið að hækka eða lækka þær greiðslur sem renna til þjóðkirkjunnar skv.
kirkjujarðasamkomulaginu frá árinu 1997, en samningurinn felur í sér nýja viðmiðun
fyrir þessar greiðslur, mikla einföldun á fjárhagslegum samskiptum og að starfsmannamál
verða á hendi kirkjunnar.
Allt er þetta skynsamlegt og til mikilla bóta fyrir þjóðkirkjuna en það ríður á að
kirkjunnar fólk taki höndum saman og axli ábyrgðina á framkvæmd samningsins. Hjá
þessu ferli verður ekki komist og að þessu hefur verið stefnt lengi. Við skulum hins vegar
vanda okkur í þessu ferli.
Það er mikilvægt að hugsa til þess að jafnvel þó svo að hin lútherska kirkja verði ekki
Þjóðkirkja, þá er það undir henni sjálfri komið hvort hún verði áfram þjóðarkirkja. Það er
undir henni komið að halda tengslum við þjóðina og viðhalda þeirri stöðu sem hún hefur
nú þegar í þjóðarsálinni.
Að endingu vil ég vitna aftur í prédikun afa míns, en hann flutti hana við vígslu
Grundarfjarðarkirkju 31. júlí árið 1966. Orðrétt sagði hann:
„Vér höfum lagt oss fram um að vanda gerð kirkjunnar allt frá því grundvöllur hennar
var lagður hér á þessum stað. Vér höfum líka kappkostað að gera búnað hennar allan sem
bestan. Og þó er enn margt eftir. En ég segi í dag eins og einn af biskupum kirkju vorrar sagði
þegar minnst var á að nýreista kirkju skorti enn ýmislegt. Hann sagði: „Kirkjur eru alltaf í
smíðum.“
Þessi síðustu orð geta vel átt við um þjóðkirkjuna í heild sinni. Hún er alltaf í smíðum
og hún verður að finna réttan samhljóm við þjóðina svo hún fái að vaxa og dafna. Ef
vel tekst til mun henni vegna vel, óháð því hvernig tengslum hennar verður hagað við
ríkisvaldið í framtíðinni. Ef kirkjan miðlar boðskap sem hefur vægi og þýðingu í aðstæðum
hversdagsins og gagnvart álitamálum framtíðarinnar; ef fólkið ber traust til kirkjunnar og
leitar til hennar í betri tíð og verri - þá verður kirkjan áfram þjóðkirkja. Hver svo sem laga-
og stjórnskipunarleg staða hennar verður.