Gerðir kirkjuþings - 2019, Page 60
60 61
17. mál 2019
Flutt af kirkjuráði
Þingsályktun um jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar
Kirkjuþing 2019 samþykkir eftirfarandi jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar:
Jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar
I. KAFLI
Inngangur
Jafnréttisstefna kirkjunnar á að stuðla að jafnrétti eins og rétt og skylt er í samræmi við líf
og boðskap Jesú Krists. Undirstöðuatriði kristins boðskapar fela í sér jafnréttishugsjón og
skírn inn í kristið samfélag gerir engan greinarmun á kyni eða stöðu einstaklinga. Því er
jafnréttisstefna viðurkenning manngildis og jafnréttis allra einstaklinga.
Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur mið af gildandi jafnréttislögum á Íslandi, lögum um
jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum. Þar er
meðal annars lögð áhersla á að kynjasamþætting sé fest í sessi sem mikilvæg leið til að
koma á jafnrétti. Þá mun kirkjan vinna eftir lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 og
gæta að því í öllu sínu starfi að fylgt sé ákvæði 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr.
33/1944.
Jafnframt er tekið mið af því að þjóðkirkjan er aðili að Alkirkjuráði, Kirknaráði
Evrópu og Lúterska heimssambandinu. Samtökin hafa hvatt kirkjur sínar til að gæta að
jafnréttissjónarmiðum til hins ýtrasta.
Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur annars vegar til stjórnkerfis kirkjunnar og starfsmanna
hennar og hins vegar til starfsemi og þjónustu sem kirkjan veitir.
II. KAFLI
Hlutverk jafnréttisnefndar kirkjunnar
Jafnréttisnefnd kirkjunnar samanstendur af fimm aðalmönnum og fimm varamönnum,
sem kirkjuþing hefur kosið til fjögurra ára í senn. Jafnréttisfulltrúar starfa með
jafnréttisnefnd og sitja fundi hennar. Þeir hafa starfsstöð á þjónustusviði biskupsstofu og
sinna fræðslu út í söfnuðum. Helstu hlutverk jafnréttisnefndar kirkjunnar eru eftirfarandi:
1. Að vera ráðgefandi fyrir biskup Íslands og kirkjuráð í málefnum er varða jafnrétti
kynjanna.
2. Að hafa frumkvæði að fræðslu og aðgerðum, til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt
kynjanna innan kirkjunnar.
3. Að fylgjast með framkvæmd jafnréttisstefnunnar fyrir hönd biskups og kirkjuráðs
og gera tillögu til kirkjuráðs um endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar til
þriggja ára í senn, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.