Gerðir kirkjuþings - 2019, Qupperneq 87
87
Í ofangreindri fasteignastefnu kemur fram að þjóðkirkjan skuli varðveita tilteknar
sérstakar sögulegar fasteignir þar sem menningarleg eða önnur veigamikil rök hnígi til
þess. Kirkjuþing ákveði hvaða fasteignir, aðrar en kirkjur, skuli varðveittar hverju sinni,
á þeim grundvelli. Fasteignirnar Möðruvellir í Hörgárdal og Mosfell í Mosfellsdal teljast
falla undir að hafa þetta sögulega gildi og því stendur ekki til að selja þær. Í 37. máli
kirkjuþings er óskað söluheimildar annarra eigna, sem tilgreindar eru í málinu.
Fjárhagsstaða kirkjumálasjóðs er ekki góð og taprekstur viðvarandi. Eitt af hlutverkum
sjóðsins er að reka prestssetur kirkjunnar. Rekstur prestssetra er þungur og oft eru prestssetur
rekin með tapi fyrir kirkjumálasjóð. Tillögu þessari er ætlað að fækka prestssetrum í
samræmi við framangreinda stefnumörkun kirkjuþings. Með sölu eignanna fást fjármunir
og dregið er úr taprekstri kirkjumálasjóðs. Jafnframt er gert ráð fyrir að leigutekjur af
eignum sem ekki verða seldar, heldur leigðar út á almennum markaði, aukist. Í öllum
tilvikum er mjög rúmur frestur sem umráðamenn prestssetranna hafa til að afhenda þau.
Um einstakar tillögur:
- Kjalarnessprófastsdæmi.
Mosfellsprestakall.
Prestssetur Mosfellsprestakalls er Mosfell í Mosfellsdal, þ.e. íbúðarhúsið á jörðinni
Mosfelli ásamt lóð. Jörðin er að öðru leyti í vörslu kirkjumálasjóðs. Í prestakallinu búa
um 11.500 manns sem er langt umfram viðmiðunarmörk kirkjuþings um íbúafjölda.
Mosfellsprestakall telst vera á höfuðborgarsvæðinu og er því ekki talin þörf á að halda
prestssetur þar, enda ekki lögð til prestssetur í prestaköllum á höfuðborgarsvæðinu og
þarf því að gæta samræmis. Núverandi umráðamaður var skipaður árið 2008 og rennur
því skipunartími út árið 2023.
Útskálaprestakall.
Prestssetur Útskálaprestakalls er að Skagabraut 30, Suðurnesjabæ. Í prestakallinu búa um
3.500 manns og eru því umfram viðmiðunarmörk um íbúafjölda. Í nágrannaprestaköllum,
þ.e. Keflavíkur-, Njarðvíkur- og Grindavíkurprestaköllum eru ekki lögð til prestssetur. Því
er vart sjáanleg ástæða til að halda prestssetur í prestakallinu. Núverandi umráðamaður
var skipaður árið 2009 og rennur því skipunartími út árið 2024.
- Vestfjarðaprófastsdæmi.
Holtsprestakall.
Prestssetur Holtsprestakalls er prestssetursjörðin Holt í Önundarfirði. Vegna nálægðar
við Ísafjörð þykir eðlilegt, til að gæta samræmingar, að leggja til að skylda til að leggja til
prestssetur verði aflögð. Þess má geta að jörðin og mannvirki eru nú leigð út á almennum
markaði.
- Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
Dalvíkurprestakall.
Prestssetur Dalvíkurprestakalls eru tvö. Annars vegar prestsbústaðurinn Dalbraut 2, Dalvík