Strandapósturinn - 01.06.1980, Blaðsíða 41
því að komast í 12 pund (hreinsaður) en farið minnkandi upp á
síðkastið. Hvað um það, Ólafur leit björtum augum fram á
veginn, glaður og reifur við viðmælendur sem margir voru hon-
um að fornu kunnir. Honum auðnaðist að halda í horfinu með
búskapinn með því að fá heyskap í Reykjarfirði, sem var honum
auðsótt en tímafrekt. Á ýmsu valt með tíðarfar, vorið 1915 var
afar kalt þar sem ís huldi firði og flóa langt fram á vor eða sumar,
þó voru góðviðri eftir að ísinn var lagstur að landi. Sérlega
kvillasamt var og lungnabólgufaraldur sem flesta lagði að velli er
hana fengu.
Umrætt vor fermdist Bjarni, sonur Ólafs og Elísabetar, bráð-
efnilegur piltur. Það vor fermdust 12 börn í Árneskirkju. Að
lokinni fermingu hélt hver heim til sín, sumir til einhvers smá-
fagnaðar, aðrir að auðu rúmi. Ekki löngu síðar veiktist Bjarni
hastarlega. Strax kom í Ijós að þar var um kvalafulla meinsemd í
fótlegg og hné að ræða, læknis var vitjað en lítið var hægt til bóta
að gera, þrautirnar rénuðu ekki. Að síðustu var hann sendur á
sjúkrahús á Akureyri. Kom það í hlut Elísabetar að fylgja syni
sínum eftir, var hún allt sumarið á Akureyri. Þessi dapurlega
sjúkrahúsvist endaaði með því að fóturinn var tekinn af Bjarna
nokkuð fyrir ofan hné. Það var komið fram á haust þegar þau
mæðgin komu heim.
Elísabet hafði aldrei verið hraust, en nú var hún niðurbrotin
eftir að hafa horft upp á þjáningar síns elskaða sonar og þreytt
margar andvökunætur. Ég held að flesta hafi sett hljóða sem litu
þennan glæsilega unga mann svona hart leikinn, en lífsgleði
hans og kjarkur máttu sín mikils. Hann tók fljótlega þátt í leik og
starfi jafnaldra sinna og var undra fljótur að komast áfram á
hækjunum.
Lengi var hann matsveinn á fiskibátum, sýnir það þrek hans
og óbilandi lífsorku. Hann var einn af fleirum ungum mönnum
úr Árneshreppi er fórust með vélbátnum Eyr frá Isafirði. Þá áttu
mörg heimili um sárt að binda.
Hverfum nú um skeið aftur í tímann. Haustið 1915 ákvað
Betty að fara til Reykjavíkur og læra ljósmóðurfræði. Mun hún
hafa verið hvött til þess vegna ótvíræðna hæfileika sinna. Þá var
39