Strandapósturinn - 01.06.1980, Síða 153
átti bátinn. Hásetar voru vinnumaður fóstra míns, ég og vinnu-
kona frá Felli, er Steinunn hét. Þar eð þetta var fyrsta ferð mín
undir Horn, eins og hér var kallað, verð ég að geta sérstaklega
eins atviks, er kom fyrir mig í þessari ferð. Eftir hvítasunnuhretið
fórum við á sjó út með Hælavíkurbjargi, en þar var fátt um fisk
og bað ég því formanninn að lofa mér að skreppa í land undir
bjarginu, því ég þóttist vita, að mikið væri af dauðum fugli þar,
en hann kvað ofanfall mikið því leysing væri í bjarginu og mætti
búast við stórskriðum á hverri stundu. Eg var nú ekki trúaður á
það og þrábað hann um að hleypa mér í land. Lét hann loks
tilleiðast og lenti með mig í svonefndri Stapabót. Gekk ég þar í
land, en báturinn hélt aftur frá landi. Fór ég nú að tína saman
dauða fuglinn og hafði fljótlega hirt 20—30 fugla, er ég allt í einu
heyri hvin mikinn í lofti. Varð mér þá litið upp og sá að loftið yfir
mér var svart af fugli og grjótflugi úr bjarginu. Ekkert afdrep var
þarna nærri til að hlaupa í nema einn steinn, tæpast axlarhár,
sem hallaðist nokkuð framyfir sig til sjávar. Stökk ég í ofboði
þangað og þrýsti mér sem fastast inn undir steininn. Dundi nú
grjótið niður í kringum mig og sumt langt út i sjó. Bráðlega linnti
þó grjóthruninu og fór ég að reyna að hreyfa mig, en þá var
smágrjót og leir fallið svo að mér og ofan á mig, að ég gat lítið
hreyft mig, en þegar ég hafði losað lítið eitt um mig dundi önnur
skriða niður þarna á sama stað og engu minni. Þegar hún var um
garð gengin gat ég loks, með erfiðismunum, losað mig úr grjót-
mulningnum og leimum, er hlaðist hafði að mér og yfir mig, og
stóð nú upp alveg óskaddaður. Þetta hefi ég æ síðan kallað Guðs
kraftaverk, enda sögðu þeir, sem í bátnum voru, að þeim hefði
ekki til hugar komið, að þeim auðnaðist að finna mig dauðan,
hvað þá lifandi og að öllu óskemmdan, þvi allir klettar í fjörunni
voru gjörsamlega kaffærðir undir skriðunni nema þessi eini
steinn, sem ég hafði hniprað mig undir. I þessu grjóthruni hafði
farist mikið af svartfugli og ætlaði ég að hirða eitthvað af honum,
en formaður minn skipaði mér þá, hörðum orðum, að flýta mér
út í bátinn. Eg gat þó kippt með mér 10 fuglum, 5 í hvorri hendi.
Eftir þetta lofaði Bóas mér aldrei í land undir bjarginu, en hann
lofaði mér þó, þetta sama vor, að síga í bjargið eftir eggjum.
151