Bændablaðið - 24.02.2022, Síða 31

Bændablaðið - 24.02.2022, Síða 31
Bændablaðið | Fimmtudagur 24. febrúar 2022 31 fékk ég vinnu á býlum sem fram leiddu osta víðs vegar um Banda ríkin þar sem bændur voru í tengslum við dýrin, mjólkuðu gripina, bjuggu til ostinn og seldu hann til neytenda, til að afla mér aukinnar þekkingar og reynslu. Menntun mín í mannfræði og áhugi minn á ostum fara vel saman og námið hefur styrkt getu mína til að skilja betur tengslin milli ostagerðarinnar og menningarinnar sem hún er hluti af. Eftir að hafa ferðast um og unnið við ostagerð í Bandaríkjunum í tíu ár langaði mig að víkka sjóndeildarhringinn og ferðast víðar um heiminn til að kynna mér þjóðfræði osta og ostagerðar.“ Tengsl fólks, búfjár og lands Warmedahl segir að í sínum huga sé ostur lokaafurð í löngu og flóknu framleiðsluferli sem felur í sér tengsl milli fólks, búfjár og lands. „Ostur er gott dæmi framleiðslu sem sýnir hvernig fólk getur lifað í sátt við náttúruna ásamt búfé og um leið haft jákvæð áhrif á lífsgæði fólks. Ostur er einnig dæmi um menningarlega arfleifð fólks á ákveðnum svæðum. Því miður er það svo að víða er listin að búa til osta að gleymast og margar aðferðir til að búa til ólíka osta að deyja út vegna kunnáttuleysis. Við getum því sagt að fjöldi ólíkra hefðbundinna osta sé í útrýmingarhættu.“ Verndaðir ostar tvíeggjað sverð „Undanfarið hef ég verið að skoða osta í Evrópu sem njóta staðarverndunar og verndunar vegna þess hvernig þeir eru búnir til.“ Um verndaða osta gilda svipaðar reglur og um kampavín. Einkaréttur er á mörgum þessum ostum og til að bera ákveðið heiti og vera sagður frá ákveðnu svæði þarf osturinn að innihalda viss hráefni og vera unninn eftir hefð. „Reyndar tel ég að vernd á vinnsluaðferð geti verið tvíeggjað sverð, bæði til góðs og ills, því um leið og verndin hampar einni framleiðsluaðferð getur hún haft letjandi áhrif á aðra og dregið úr fjölbreytninni. Á sama tíma og ein aðferð nýtur verndar er því hætta á að vinnsluaðferðir við aðra ólíka ostagerð á sama svæði glatist. Annað sem einnig dregur úr fjölbreytni osta á markaði í dag er sívaxandi þrýstingur á einsleitni markaðs vara með aukinni iðnvæðingu.“ Að sögn Warmedahl geta ostar og ostagerð enn verið ólíkir milli býla og jafnvel býla sem eru með sameiginleg beitarland. „Víða á Norður-Ítalíu er framleiddur fontina-ostur og ef farið er á milli býla er hann ólíkur að bragði á hverjum stað. Aftur á móti verða þeir sem framleiða verndaða osta að hafa þá nánast eins og breytileiki þeirra því takmarkaður. Kosturinn við verndunina er sá að framleiðslan er markaðssett og seld sem heild en það er ekki þar með sagt að hún viðhaldi ólíkum hefðum í ostagerð.“ Hefðir og nýsköpun „Annað sem ég hef verið að skoða er hvernig má viðhalda hefðbundinni ostagerð í nútíð og framtíð. Ostagerðarmenn í dag hafa greiðan aðgang að upplýsingum um ólíka ostagerð í heiminum í gegnum netið og það eykur möguleika þeirra til að búa til margs konar ólíka osta. Upplýsingarnar veita einnig möguleika til nýsköpunar og á sama tíma að viðhalda hefðum.“ Afbrigði búfjárkynja á undanhaldi Warmedahl segir annað sem mik- ilvægt sé að skoða í tengslum við hefðbundna ostagerð sé fækkun bú- fjárstofna þar sem fjölbreytni búfjár- kynja eða afbrigða innan búfjárstofna í heiminum er á hröðu undanhaldi. „Ástæða þessa er krafan um hámarksframleiðslu og að bændur ali búfjárstofna sem gefa af sér sem mest af afurðum og séu þannig fjár- hagslega hagkvæmir. Því miður hefur þetta leitt til sífellt meiri einsleitni búfjárkynja í heiminum og mér skilst að Íslendingar séu farnir að taka fyrstu skrefin í þessa átt. Eitt af því sem er merkilegt við íslenska mjólkurbúfjárstofna er hversu upprunalegir og sérstakir þeir eru og á það jafnt við um naut- gripi, sauð- og geitfé. Sú staðreynd ætti að vera framleiðendum á Íslandi til góðs og skapa þeim sérstöðu sem þeir geta nýtt sér við markaðssetningu séríslenskra afurða.“ Óendanlegir möguleikar „Þeir ostar sem ég hef mestan áhuga á í dag eru ógerilsneyddir ostar sem ein- göngu eru framleiddir og fáanlegir á afmörkuðum svæðum og framleiddir af bændum. Ég hef einnig verið að skoða osta sem framleiddir eru af gripum sem er beitt á mismunandi svæði á mismunandi árstímum.“ Warmedahl segir hreint göldrum líkast hversu ólíkt bragð geti verið af ostum sem framleiddir eru innan ákveðins svæðis en á ólíku beitarlandi og á ólíkum árstímum. „Reynslan af því að smakka slíka osta hefur opnað augu mín fyrir öllum þeim möguleikum sem eru í fram- leiðslu á ostum.“ Söfnun þjóðfræða Aðspurður segir Warmedahl að hugmyndin sé að einn daginn skrifi hann bók um osta og nýti sér upplýsingarnar sem hann hefur viðað að sér. „Ég glósa hjá mér það sem fólk segir mér og skrái eigin upplifun um ólíka osta, innihald þeirra og hvernig þeir eru framleiddir. Auk þess sem ég pósta upplýsingum á milk_trekker á Instagram og substack og að endingu vonast ég til að allt komi saman í bók. Einnig á ég mér draum um að gera heimildamynd um vinnubrögðin áður en aðferðirnar glatast, eins og líklega mun gerast í mörgum tilfellum.“ Hrært í mjólk við ostagerð á Englandi. Síðustu hreyturnar, sem ekki nást með vél- mjöltum, tuttlaðir úr kú í Slóveníu. Mozarella-gerð á Ítalíu. Jakuxi mjólkaður til ostagerðar í Tíbet. Cheddar-ostalager í Wales.Geit mjólkuð á litlu vistræktarbýli á Spáni þar sem Trevor starfaði sem sjálfboðaliði. Mynd /Einkasafn Ostagerð í Mongólíu.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.