Sjómannablaðið Víkingur

Volume

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2020, Page 94

Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2020, Page 94
94 – Sjómannablaðið Víkingur Við Íslendingar höfum ávallt verið veikir fyrir gáfumönn- um. Og það er gáfulegt að lesa bækur. Þess vegna hafa bókaskrif og bókaútgáfa blómstrað hérlendis frá örófi alda. Fyrir vikið fengum við arf, sjálfar Íslendingasögurnar, sem sannfærði okkur um að við værum sérstök, jafnvel ögn betri en margur annar og vissulega ekki fædd til að vera hjú annarra þjóða. Við værum þvert á móti merkilegur mannkyns- stofn sem hefði alla burði til að standa á eigin fótum. Þessu fengu Danir að kynnast æ betur þegar leið á 19. öld og sein- ast uppgáfust þeir á þessum þrjóskupúkum norður í hafi. – Þið skuluð þá bara sigla ykkar sjó, sagði danskurinn og 1. des- ember 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda konungsríki. Enginn kóngur varð þó nokkru sinni jafn-pirraður út í Íslendinga og Kristján tíundi sem er þó eini konungurinn sem ríkt hefur yfir frjálsu Íslandi. En nú er ég á góðri leið út á hálan ís og reyndar líka í allt aðra sálma en meiningin var með þessum skrifum. Mig langar nefni- lega til að bregða upp mynd af speki landans. Byrjum á Konráð Gíslasyni en hann sagði: „Andi hvers einstaks, hversu vel sem hann er af Guði gjörr, verður að engum þrifnaði, nema hann njóti annarra að, og taki birtu af hugum annarra.“  „Ég held mér sé nú best að hætta að yrkja.“ Bjarni Thorarensen, amtmaður og skáld, þegar hann heyrði Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar. * „Enginn skyldi svigurmæli til sín taka nema eiga þættist.“ Guðmundur Arason, búandi á Auðkúlu í Arnarfirði á fyrri hluta 19. aldar, við sýslumanninn þegar sá síðarnefndi ætlaði að móðg- ast yfir orðum er Guðmundar hafði látið falla.  Steingrímur Matthíasson læknir skrifaði í nóvember 1919. Hann var þá staddur í Berlín: „Það er svo að sjá, sem mannssálirnar fjarlægist hvorar aðra, því fleiri sem þær koma saman til að lifa í einni kássu.“  „Þjóðarmeðvitundin er orðin spillt af margra alda hordauða. Allir telja sér skylt yfir að hylma. Þetta er svo almennt. Þaðan allar þessar krankleikasögur í fé á vorin. Ljóta nafnið má eigi nefna, en ljóta verkið má vinna ár eftir ár. ... Sú hugsun þarf að komast fram, komast í hámæli, svo sár og beisk sem hún er og illa þökk- uð, að skömmin á að bíta miklu sárar en skaðinn.“ Þórhallur Bjarnarson biskup vorið 1916 þegar hann átaldi íslenska bændur fyrir að horfella búpening sinn.  „En þó hefur það oftast verið og víðast, að skömmin hefur skömm heitið og dyggðin dyggð, jafnvel hjá þeim, sem ekki hafa dyggðina elskað né hatað skömmina.“ Jón Vídalín í postillu sinni.  „Það er ekkert orðið eftir af mér nema andskotans hugurinn til að kvelja mig.“ Þórður Tómasson á Rauðafelli í hárri elli en hann hafði ungur verið mikill kappsmaður.  „Óvön ferðum, illa járnuð, menn þungir, létt riðið, lána hana ekki.“ Ólafur Guðbrandsson, er bjó í Litluhlíð á Barðaströnd, þegar maður nokkur falaði af honum til láns skjótta hryssu. Ólafur var þekktur fyrir að vera gagnorður, hirða vel um allar skepnur og ekki vildi hann fyrir nokkurn mun ofþjaka hrossum sínum.  „Hún þarna, góðan, er eins og skrifari á tjörn í stormi guðs misk- unnar.“ Með þessum orðum lýsti Bjarni Pétursson hafnsögumaður Ragnheiði Jónsdóttur, eiginkonu Jóns Kolbeinssonar kaupmanns í Stykkishólmi, en hún riðaði nokkuð höfði.  „Giftu þig og stattu þig!“ Matthías í gullbrúðkaupi Schiötshjóna á Akureyri í nóvember 1916. Kvaðst hann vilja bæta þessum orðum við svartnættisþenkingu Sókratesar en þessi víðfrægi Aþenubúi sagði forðum: „Giftu þig! Þú verður ekki ánægður. Giftu þig ekki! Og þú verður heldur ekki ánægður.“  „Lýðstjórn er sífeldum breytingum og byltingum undirorpin og endar oft í harðstjórn eða óstjórn; því þar sem margir ráða, ræður enginn.“ Frímann B. Arngrímsson.  „Ég hef lagt alla mína sál í myndirnar handa ykkur, ég hef brotið hjartað í mér í sundur í liti til að gefa ykkur.“ Jóhannes S. Kjarval þegar hann varð áttræður árið 1965.  Speki landans Jóhannes Kjarval í Fjörunni á Akureyri.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.