Morgunblaðið - 25.11.2022, Blaðsíða 74
MENNING74
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. NÓVEMBER 2022
Engjateigi 5 // 581 2141 // hjahrafnhildi.is
Skoðið
hjahrafnhildi.is
Marc Cain
MosMosh
Stenströms
Bitte Kai Rand
Creenstone
PBO
Reset
Gardeur
Gil Bret
LaSalle
Spanx
Depeche
Högl
Wonders
NeroGiardini
Kennel & Schmenger
Bukela
25.11-28.11
SVARTIR DAGAR
*Ath. afsláttur gildir ekki af vörum frá Goldberg og Heresis
20% AF ÖLLUMVÖRUM*
Fyrst er brot úr inngangi
Ragnars Inga Aðalsteins-
sonar, en síðar sögur úr
bókinni:
„Helgi Thordarson
biskup vísiteraði í Hofteigi
rétt fyrir miðja nítjándu
öld og segir í bréfi sem
birt er hér í bókinni að
íbúar þar séu einangraðir
frá öðrum byggðum. Hann
telur að það hafi skaðað
siðferði þeirra og lífsmáta. Ég get
tekið undir það að vissulega var
sveitin ekki mjög tengd þéttbýlinu
þegar ég var þar í uppölslu en hvort
það var til góðs eða ills skal ég ekki
tjá mig um.[…]
Það var annað með hreindýra-
veiðarnar. Ég komst ungur að því að
maður talaði ekki um hreindýr við
ókunnuga. Hreindýraveiðar voru
vissulega hluti af raunveruleika
Jökuldælinga – en um þær var ekki
rætt. Gestkomandi á bæ fór ekki
að spyrja af einhverri framhleypni
hvaða kjöt væri í sósunni sem
var á diskinum. Það var bannað
samkvæmt landslögum að skjóta
hreindýr og í sveitinni sýndu menn
hver öðrum þá einföldu tillitssemi
að vera ekki að hnýsast í kjött-
unnurnar.
Svo kom að því að hreindýraveið-
ar voru leyfðar og sérstök nefnd
úthlutaði leyfum á hvern bæ. Þar
komu upp ýmisleg túkunaratriði.
Bóndi einn, sem hafði reyndar lengi
átt góðan riffil, fékk tilkynningu
um að hann fengi fimm leyfi. Hann
túlkaði það umsvifalaust sem fimm
hópa og sagt var að hann hefði fellt
um hundrað hreindýr það haustið.“
*
Jón Jónsson á Hvanná var oddviti
Jökuldælinga í 50 ár, eða frá 1904
til 1954. Hann átti mörg skemmtileg
og oft óvenjuleg tilsvör. Og sitthvað
kom upp á sem valdið gat ágrein-
ingi innan sveitarstjórnarinnar.
Þegar Sigurður Þorsteinsson leitaði
eftir því að flytja með sína stóru
fjölskyldu í Teigarsel kom það mál
inn á borð Jóns oddvita
sem tók því fagnandi og
gerði allt hvað hann gat
til að greiða götu Sigurð-
ar á allan hátt, enda fór
svo að þau hjón settust
þar að og komu sér fyrir
með barnahópinn. Þegar
þetta gerðist voru erfiðir
tímar og hreppsnefndar-
menn brugðust ókvæða
við þegar þeir fréttu af
þessu, töldu verulega hættu á að
sveitarsjóður yrði fyrir búsifjum
af þessu fólki. Einhverjir þeirra
gerðu sér ferð í Hvanná og spurðu
Jón hvers vegna í ósköpunum hann
hefði ekki borið þetta undir sveit-
arstjórn. Jón átti það til að stama
svolítið meira en venjulega þegar
honum var mikið niðri fyrir en svar-
ið var gefið í fullri hreinskilni og
ekkert dregið undan:
„Þa – þa – þa – það var ekki hægt.
Þi – þi – þi – þið hefðuð aldrei sam-
þykkt það.“
*
Kolbeinn Ingi Arason flugstjóri
flaug lengi hjá Flugfélagi Austur-
lands og var staðsettur á Egilsstöð-
um. Sá hann þar um leiguflug hvers
konar og var oft mikið að gera. Ein-
hverju sinni fékk hann boð um að
fljúga til Hornafjarðar, taka þar lík
af manni sem hafði dáið vofeiflega
og fara með það suður til Reykja-
víkur til krufningar. Kolbeinn brá
við skjótt, flug suður á Hornafjörð
og lenti þar. Á flugvellinum beið bíll
með líkið. Það var í svörtum líkpoka
og í körfu sem var borin inn í vélina
og ströppuð niður með þar til gerð-
um útbúnaði. Eftir það var dyrum
vélarinnar lokað og Kolbeinn fór í
loftið, stefndi til Reykjavíkur.
Þetta gekk allt ljómandi vel fram-
an af. Það var ekki fyrr en vélin var
komin í fulla hæð með tilheyrandi
lækkuðum loftþrýstingi að undar-
legir atburðir tóku að gerast. Það
byrjaði með því að Kolbeinn heyrði
hljóð upp úr líkpokanum. Líkið rop-
aði með miklum hávaða og stuttu
seinna leysti það vind með ekki
minni látum. Síðan heyrði Kolbeinn
að það var hreyfing í pokanum. Lík-
ið var farið að aka sér til, það var
á hreyfingu – hann heyrði skrjáfið
en það var orðið skuggsýnt og hann
gat illa séð hvað var að gerast. Hann
sat ólaður niður í flugmannssætið
og mátti sig ekki hræra þaðan.
Aðspurður hvernig honum hafi
liðið þegar þetta var að gerast segir
Kolbeinn:
„Þetta var ekki þægilegt, Ég hafði
aldrei áður flutt lík og ég hafði ein-
faldlega ekki hugmynd um hvað var
að gerast. Ég ætla ekkert að rifja
það upp sem fór í gegnum hugann.
Það er langt um liðið og farið að
fyrnast yfir mestu geðsveiflurnar.
En til Reykjavíkur komst ég og lenti
heilu og höldnu og lögreglubíllinn
kom og sótti líkið.Næst þegar ég
flutti lík til krufningar fékk ég föður
minn, sem þá var orðinn eftirlauna-
maður, til að sitja í vélinni með mér.
Það er strax skárra, þegar líkið fer
á hreyfingu, að hafa líka einhvern
annan félagsskap.“
*
Jökuldal er gjarnan í daglegu tali
skipt í tvennt, annars vegar er talað
um Efra-Dal og hins vegar Út-Dal.
Skilin eru um Gilsá, þar sem Þjóð-
vegur 1 liggur ofan af Fjöllunum.
Þjóðvegurinn liggur svo út dalinn,
yfir Jökulsá út við Selland þar sem
Jökuldal lýkur og Jöklsárhlíðin
tekur við og þar stefnir hann til
suðausturs í átt að Egilsstöðum.
Þeir sem búa á Efra-Dal hafa
lengst af verið lausir við allt sem
heitir umferðarlögregla. Lögreglu-
menn halda sig á Þjóðvegi 1 og
skipta sér yfirleitt ekki af því sem
gerist á fáfarnari leiðum. Efradæl-
ingar gátu þess vegna sparað sér
heilmikil útgjöld vegna bílviðgerða.
Willis-jeppi á bæ einum þar uppfrá
var þekktur undir nafninu Grafn-
ingur. Það heiti kom til af því að
umsjónarmaður bílsins, sonur hins
skráða eiganda sem ekki kunni á bíl
sjálfur, ók gjarnan út að Gilsánni
og lagði bílnum þar í uppþornuðum
lækjarfarvegi, þar sem hann sást
ekki frá Þjóðvegi 1 og gekk svo út
að þjóðveginum í veg fyrir rútuna.
Grafningur var dugnaðarbíll en
viðhaldinu var nokkuð ábótavant.
Hann var til dæmis lengi aðeins
með bremsu á einu hjóli, vinstra
framhjólinu, og þess vegna þurfti
alltaf að beygja til hægri þegar
bremsað var. Þetta kom hins vegar
ekki að sök, sagði ökumaðurinn,
vegna þess að það var engin lög-
regla á Efra-Dalsveginum.
Gísli Pálsson á Aðalbóli og frændi
hans Pálmi Indriðason á Brú voru
á árum áður þekktir fyrir að fá sér
stundum ótæpilega í tána. Svo fór
þó að lokum að þeir hættu báðir að
drekka og urðu stakir bindindis-
menn á áfenga drykki. Árið eftir
að þeir breyttu þannig lífsvenjum
sínum til hins betra voru þeir í
fjárragi og þurftu að flytja nokkrar
kindur á bíl ofan úr Hrafnkelsdal út
í Klaustursel. Þá gerðist sá fáheyrði
atburður að lögreglumenn úr um-
ferðardeildinni óku upp Efra-Dal.
Sagan segir að þeir hafi verið að
leita að gæsaskyttu sem lá undir
grun um að hafa skotið á aðra gæsa-
skyttu – sem er auðvitað óásætt-
anlegt. Einhvers staðar á móts við
Grund mæta þeir þeim frændum
sem voru á gömlum og margvið-
gerðum bíl að flytja kindurnar.
Lögreglumenn veittu því athygli
að bíllinn var ekki með númer og
stöðvuðu þegar í stað þetta ökutæki
og tóku það í skoðun. Töldu þeir
nú upp fyrir þeim frændum hvert
atriðið eftir annað sem var í ólagi
og urðu æ vandlætingarfyllri eftir
því sem athugasemdunum fjölgaði.
Að lokum stóðst Pálmi ekki mátið
og segir við lögreglumennina:
„Þetta er nú ekki mikið. Þið hefð-
uð átt að koma hér í fyrra.“
Löggæslumennirnar spurðu á
móti hvað hann ætti við með því og
Pálmi svaraði:
„Þá hefðum við verið fullir líka.“
*
Það mun hafa verið árið 1962.
Þetta var í febrúar og á Vaðbrekku
var fjölgunarvon. Birgir Þór Ás-
geirsson, síðar bóndi á Fossvöllum,
var heima þegar þetta gerðist og
hann var sendur með tvo hesta til
að sækja ljóðsmóðurina, Brynhildi
Stefánsdóttur frá Merki. Birgir var
annálaður hestamaður, vanur alls
kyns ferðaslarki og þekkti leiðina
eins og vasana sína. Enda var það
eins gott. Leiðin upp dalinn var
vörðuð gríðarlegum svellbólstrum
sem flestir lágu undanhallt beint
ofan í Jökulsárgljúfrin. Auk þess
voru himinháir snjóskaflar víða á
leiðinni og þetta ferðalag því alls
ekki fyrir viðvaninga. Hestarnir
tveir voru rauðstjörnóttur klár sem
hét Stjarni, reiðhestur Aðalsteins
á Vaðbrekku, og hryssa sem Danni
á Vaðbrekku átti, mikið dugnað-
arhross sem hét Flikka.
Birgir reið fyrst út á Út-Dal og
fann þar ljósmóðurina. Setti hann
hana upp á Stjarna en sat sjálfur
á Flikku. Riðu þau svo upp eftir
dalnum uns þau komu í Gilsá. Þá
var komið kvöld og þau ákváðu
að gista þar. Hestarnir voru settir
inn í skemmu þar sem talið var að
færi vel um þá og búið um Birgi og
Brynhildi og þau lögðust til svefns.
Þau voru rétt búin að festa blund
þegar hringt var með miklum látum
í Gilsá. Það var Danni sem lét þau
vita af ástandi konunnar – vatnið
var farið og fæðing að fara af stað.
Nú var ekki beðið boðanna.
Birgir og Brynhildur hentust í fötin
og stukku út í skemmu þar sem
hestarnir voru. Kom þá í ljós að
þeir höfðu komist í einhvern gamlan
og skemmdan mjölafgang sem
gleymst hafði þarna í skemmunni
og voru orðnir veikir. En konan
var komin af stað, vatnið farið og
ekki til setunnar boðið. Þau lögðu á
hrossin og hleyptu upp eftir dalnum
svo að hófaskellirnir glumdu milli
fjallshlíðanna. Veikir eða ekki veikir
– hestarnir skyldu koma ljósmóður-
inni á leiðarenda.
Þetta var á tíma sveitasímans og
þegar Danni hringdi hafði það ekki
farið fram hjá neinum á dalnum
hvað var að gerast. Hringing um
nótt táknaði að eitthvað alvarlegt
var að ske og sveitungarnir fylgdust
grannt með framvindu málsins.
Þegar nokkuð var liðið á nóttina fór
Jóhann bóndi á Eiríksstöðum, Lolli,
af stað á móti þeim. Hann gekk út
fyrir Hólahornið og beið þeirra þar
vegna þess að hann vissi af afar
vondum svellbólstri á veginum
og ákvað að beina hestafólkinu á
betri leið og öruggari. Þegar þau
nálguðust staðinn sáu þau ljósið frá
lugtinni og fylgdu leiðbeiningum
Lolla og gekk það allt farsællega.
Þangað til að ljósið féll á Flikku.
Sagan segir að þegar lugtarljósið
skein á merina hafi komið í ljós að
hún var dauð og hafði hugsanlega
verið það lengi. Þegar ljósið kom
féll hún til jarðar og Birgir átti ekki
annars kost en spretta hnakknum
af henni og ganga til bæjar. Þeir
sem söguna sögðu fullyrtu að ef
Lolli hefði ekki komið með ljósið
hefði Birgir komist á henni alla leið
í Vaðbrekku.
En Brynhildur komst svo um síðir
á leiðarenda. Þá var barnið fætt og
Danni hafði sjálfur tekið á móti því.
Hann var búinn að vera við nógu
margar fæðingar til þess að hann
vissi nákvæmlega hvernig þetta fór
fram. Danni var vanur að ganga í
þau verk sem þurfti að vinna hverju
sinni – fæðingarhjálp eins og annað.
Og þar með lýkur sögunni. Hún
fór vel að öðru leyti en því að
Flikka varð ekki eldri en þetta. En
stundum, þegar upp koma viðkvæm
mál, sem alveg eins gætu legið í
þagnargildi, er til orðtak um það
á Jökuldal og er þá vísað til þess
þegar ljósið féll á hrossið undir
Birgi forðum. „Við skulum ekkert
vera að lýsa á merina!“ segja þeir
og svo er málið látið afskiptalaust.
Það er oft farsælast.
Bókarkafli Í bókinni Líkið er fundið, eftir
Ragnar Inga Aðalsteinsson frá Vaðbrekku,
er að finna sögur af Jökuldælingum.
Sögur af Jökuldælingum
Ragnar Ingi
Aðalsteinsson
Kolbeinn
Arason
Hákon
Aðalsteinsson