Rökkur - 01.10.1922, Side 25
Hugsaðu þér, lesari minn, hóp af ungum, pólskum alþýðustúlk-
um, með dökkbrún, tindrandi augu, og hrafnsvart hár. Þær eru
lágar vexti, en þreknar. Búningurinn er margvíslega litur, oft og
tíðum. Og þegar þær hafa sem mest við, þá skreyta þær sig með
ýmis konar fánýtu glingri, armböndum og eyrnahringum. Á virk-
um dögum og við alla vinnu ganga þær berfættar, og eru þá ekki
alltaf hreinlegar að sjá. Þunglyndislegar og fámálugar eru þær að
jafnaði. — Nema við vín. Þá verða þær ofsakátar, dansa og syngja
og láta illum látum.
Þær eru nokkurs konar farfuglar. Koma til Danmerkur með vor-
inu og hverfa suður á bóginn aftur þegar haustar að.
Það var síðla sumars 1914. — Styrjöldin hafði geisað í nokkrar
vikur.
Gunnar Arnar var nýkominn að Hábæ á Suður-Sjálandi. Hann
var ungur íslendingur, sem dvaldi erlendis, til þess að kynna sér
ýmislegt, sem að verklegum framkvæmdum laut. Á Hábæ ætlaði
hann að dvelja nokkra mánuði.
Það mun hafa verið á laugardagskvöldi, er hann leit í fyrsta sinni
svipaðan hóp og þann, er að framan var lýst.
Allan daginn höfðu þær verið úti á rófnaökrunum. En um kvöld-
ið fóru þær til næsta þorps, dönsuðu og fengu sér neðan í því.
Þær héldu um mittið hver á annarri og sungu pólska söngva,
sem hann botnaði ekkert í.
Þá leit hann Gösku í fyrsta sinn. Hún bar af öllum hinum, var
hærri vexti og tígulegri. Drættirnir í andliti hennar voru göfugir,
og hún var svipmeiri og andlitsfríðari en nokkur hinna. Það var
eitthvað drottningarlegt í fari hennar, eitthvað hugljúft, en hulið,
sem honum var áður óþekkt.
Um það bil er sólin hneig til viðar, handan við skógarbeltið í
vestrinu, sátu þeir Gunnar Arnar og Mads Larsen óðalsbóndi á
Hábæ úti í blómagarðinum og reyktu úr pipunum sínum.
Þeir nutu kyrrðar og friðar náttúrunnar í ríkum mæli, og dáð-
ust að hinni óumræðilega ljúfu fegurð, sem bar fyrir augu þeirra.
Hlý kvöldgolan lék um lauf trjánna og aftansólin glampaði á
vötnum og tjörnum.
25