Rökkur - 01.10.1922, Blaðsíða 84
„Ég ætla bara að tína nokkrar sóleyjar, mamma,“ kallaði hann.
Þórunn beygði sig niður og fór að þvo. Hún strauk hárið ljósa
frá augunum. Hátt og hvelft enni kom í ljós, stór, bládjúp augu.
Andlitið bar öll merki hreinnar fegurðar. í því voru allir drættir
hreinir og skírir. Fyrr hafði skinið ást út úr því, ást til alls þess,
sem andaði, og gott var og fagurt. En nú — aðeins ástin til drengsins
litla — í djúpri þreytu, andlegri og líkamlegri. Það skein út úr
andliti hennar, að innra fyrir var háð barátta, hörð barátta, milli
meðfædds æskufjörs — og þreytunnar, vonleysisþreytunnar, sem
smám saman sljóvgaði sálarkrafta hennar.------
„Mamma! Mamma! Nú kem ég!“ —
Hún horfði á litla, bláeyga glókollinn sinn. Hann kom hlaupandi
til hennar með fífla og sóleyjar í fanginu. —
„Mamma! Vaxa fíflar og sóleyjar í Ameríku?“
Þórunn horfði á hann undrandi, dálítið hörkulega, en hann
á hana með sakleysisbrosi á vörum.
„Því spyrðu þess, barnið mitt?“ spurði han og gat varla dulið
klökkvann í röddinni. —
Tumi svaraði engu strax. Hann var að vísu ekki heimspekilega
vaxinn, en hann vissi þó sínu viti, þó lítill væri. — Tumi var aðeins
á níunda árinu. — Hann var að brjóta heilann um, hvort hann
hefði sagt nokkra vitleysu.
»Ég þegi,“ hugsaði hann. „Það er vissara,“ sagði rödd þráans í
huga hans. Móðir hans strauk hár hans blíðlega. Blíðuatlot hennar
gat hann ekki staðizt. Hann lagði hendurnar litlu um háls hennar.
„Segðu mér, hvers vegna þú spurðir, Tumi minn.“
„Það var á laugardaginn, mamma, þegar ég fór að gráta,“ byrjaði
hann.
Hún minntist þess, sem þá hafði gerzt, þess, sem hún vissi deili
á. — Það var, þegar þau úr Holti komu úr kaupstaðnum. Þau
stóðu við um stund hjá henni. Inga litla, dóttir Holtshjónanna, var
með þeim, telpa á að gizka tíu, ellefu ára gömul, ljóshærð og bláeyg,
eins og Tumi. Hún sat á hné föður síns meðan hann drakk kaffið.
Tumi stóð úti við dyr og horfði á hana. Og hún hvíslaði að föður
sínum, með þýðu, hljómfögru röddinni: „Á hann engan pabba?“
Tumi átti ekki að heyra það. En hann heyrði það nú samt. Og
hann beit á vörina, vildi láta það sjást, að hann væri karlmaður,
og færi ekki að gráta, þó eitthvað bjátaði á, eins og lítil telpa. Faðir
Ingu litlu hafði engu svarað. Svo fór mamma hans fram til þess
84