Rökkur - 01.10.1922, Síða 56
er þá að hliðum borgarinnar bar,
er breytti hugans ljósi í kulnað skar.
Aleinn í stórborg heims, er hallar degi
og heim er orð, sem brennur þér í hug
og kofinn gamli, sól á láð og legi
— hve lyftir eigi sálu þinni á flug
sú myndin kær. — Þú málar aðra fegri
og myndin ein er öðrum dásamlegri:
Við rokkinn kona situr, silfurhærð,
er söng þig forðum, ruggaði í værð.
Nú einn, svo einn og húmið eitt þig huggar.
Sú hugsun friðar: Aðeins Guð þig sér.
En sérhver minning sálu þinni ruggar
í sólskin þess, er forðum hló við þér.
Þú hrekkur við. Og hrakorð ein þú heyrir.
þér hrýtur tár af augum; hvergi eirir.
Þín sál er fögur rós, en rót hver skorin.
Þín rétta jörð er þar, sem varstu borinn.
Nú einn, svo einn, og hægt á hugans ál
nú húmið sígur. Návist Guðs þú átt,
sem bergmál, brot úr söng í þinni sál.
Þú sér hann, skynjar vald hans, tign og mátt.
Nú veistu’ að móðir hver er milliliður
manns hvers og Guðs. Þú starir, horfir niður
á kaldan steininn. Svo til himins hátt.
Þér hefir skilizt hvað þú mikið átt.
Ei lengur einn. Þú gengur, horfir hátt
og hjartað berst, hver vöðvi þaninn er.
Þú elskar lífið aftur, ert í sátt
við alla menn, því nú þú skilur ger.
Þú vildir eitt sinn sigra heiminn sjálfan,
að sæi nafn þitt tignað landið, álfan.
Nú veiztu köllun þína. Kofinn móður,
er kóngshöll fegri’, ef ertu sonur góður.
'22.
56