Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Side 50
393
foreldri sem almennur neytandi ekki greint þær frá vörum annarra aðila,
sem er viðmiðið við mat á sérkenni tákns.
7.2 Frjálsleg eða íhaldssöm nálgun við mat á skráningarhæfi
7.2.1 Frjálsleg og rýmkandi nálgun
Frjálslegri eða íhaldssamri nálgun við mat á skráningarhæfi vörumerkja
er í flestum skrifum og umræðum stillt upp sem andstæðum og oft í þeim
skilningi að frjálslega nálgunin sé nútímaleg og sú íhaldssama sé takmark-
andi einkaréttarnálgun. Það er þó of mikil einföldun að segja að sú fyrri sé
jákvæð og sú síðari neikvæð þegar kemur að skráningu vörumerkja.
Baby-Dry-málið er talið vera dæmi um frjálslega og rýmkandi nálgun
sem hafi markað tímamót. Umsækjandinn, Procter & Gamble, færði rök
fyrir því að það að merki væri lýsandi þýddi ekki að það gæti ekki haft sér-
kenni fyrir vöru ákveðins fyrirtækis. Þá byggði á sanngjarnri notkun merkis
og var á móti hinni svokölluðu einkaréttarlegu nálgun. Aðallögsögumað-
urinn í Baby-Dry-málinu virtist vera sammála þessum sjónarmiðum í áliti
sínu og hann staðhæfði að ákvæðinu sem bannaði skráningu lýsandi merkja
væri ætlað að hindra skráningu lýsandi vörutegunda sem ekki væri hægt að
veita vernd.217
Spyrja má hvort dómurinn í Baby-Dry-málinu hafi leitt til breytinga á
skráningarframkvæmd. Er unnt að halda því fram aðeins fimm árum eftir
að dómurinn var kveðinn upp, ef tekið er tillit til síðari dóma sem virð-
ast hafa dregið í land við túlkun á skráningarhæfi lýsandi merkja? Jafnvel
þótt unnt sé að sýna fram á að umsóknum um skráningu Evrópuvörumerkis
hafi fjölgað á árunum 2003-2006, samkvæmt tölum frá skráningarskrifstofu
ESB,218 er ljóst að umsóknir á árinu 2000 voru álíka margar og á fyrrnefndu
árabili. Það sýnir væntanlega að margir aðrir þættir en einn dómur um til-
tekna tegund vörumerkis hafa áhrif á fjölda umsókna. Mikilvægur þáttur
hér er óumdeilanlega tenging skráningarkerfis Evrópuvörumerkisins og
bókunar frá 27. júní 1989219 við Madrid-samninginn um alþjóðlega skrán-
ingu vörumerkja frá 14. apríl 1891, sem gilt hefur frá 1. október 2004, og
felur annars vegar í sér að unnt er að sækja um skráningu Evrópuvörumerk-
is á grundvelli bókunarinnar og hins vegar að hægt er að nota Evrópuvöru-
merkið sem grundvöll fyrir alþjóðlegri umsókn samkvæmt bókuninni. Þetta
hefur trúlega fjölgað umsóknum á árinu 2004 og 2005 og mun væntanlega
gera það í framtíðinni.220
217 Mál nr. C-383/99 P, Baby-Dry, 78. mgr. álitsins.
218 OHIM’s Annual Report 2005. www.oami.eu.int
219 Protocol Relating to the Madrid Agreement Concerning the International Registration
of Marks. www.wipo.int
220 Ísland er aðili að bókuninni frá 27. júní 1989, sbr. ákvæði gildandi vörumerkjalaga, nr.
45/1997.