Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Qupperneq 63
406
vegna aukinna dreifingarmöguleika höfundaréttarverndaðs efnis á netinu.12
Tilskipunin sem er hluti af EES-samningnum var innleidd í höfundalögin
með lögum nr. 9/2006.13
1.2 Eintakagerð og netið
Skilgreining á því hvað telst vera eintakagerð er að finna í 1. mgr. 2. gr.
höfl. en þar segir: „Það er eintakagerð, þegar hugverk (bókmenntaverk eða
listaverk) er tengt hlutum, einum eða fleiri.“ Spyrja má hvort skilgreining
1. mgr. 2. gr. höfundalaga taki til stafrænna eintaka? Skilgreining 2. gr. til-
skipunar nr. 2001/29/EB er mun víðtækari en þar segir að aðildarríki skuli
kveða á um „einkarétt til að heimila eða banna, með beinum eða óbein-
um hætti, tímabundna eða varanlega eftirgerð með hvaða hætti sem er og
í hvaða formi sem er, í heild eða að hluta“. Ljóst er að einkarétturinn til
eintakagerðar samkvæmt tilskipuninni nær til allrar eftirgerðar, án tillits til
hvort um hliðræna eða stafræna eintakagerð er að ræða, og burtséð frá því
hvaða tækni er notuð við eintakagerðina eða hvort um áþreifanlegt eintak
er að ræða eða ekki og hvort tilurð eintaksins er tímabundin eða ekki. Sam-
kvæmt orðanna hljóðan nær skilgreining íslensku höfundalaganna hins veg-
ar eingöngu til áþreifanlegra eintaka. Það endurspeglar tæknistig þess tíma,
þ.e. ársins 1972, þegar lögin voru upphaflega samin. Hins vegar var það mat
löggjafarvaldsins þegar tilskipunin var innleidd í íslensk höfundalög árið
2006 að ákvæði 1. mgr. 2. gr. höfl. væri túlkað á þann hátt að það næði til
allra þeirra réttinda sem talin væru upp í 2. gr. tilskipunarinnar og því þyrfti
ekki að breyta því.14 Það hefði þó verið til skýringarauka ef sett hefði verið
svipað ákvæði og er að finna í 2. mgr. 2. gr. dönsku höfundalaganna15 þar
sem segir í lauslegri þýðingu: „Það telst einnig eintakagerð að flytja verk á
búnað sem hægt er að afrita það af.“16 Þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. 2. gr.
höfl. hafi ekki verið breytt er ljóst að það telst eintakagerð að setja efni á
netið (upphal)17 og að sækja efni af netinu og hlaða því á einstaka tölvu (nið-
12 Sjá I. kafla almennra athugasemda með frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum,
lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi, 2005-2006, 222. mál, þingskjal 777, hér eftir nefnt frum-
varpið til höfundalaga 2006.
13 Sjá umfjöllun um innleiðingu tilskipunarinnar í Rán Tryggvadóttir: „Áhrif nýrrar tækni á
höfundarétt“. Lögrétta, 1/2006, bls. 29-49.
14 Sjá fylgiskjal II með frumvarpi til höfundalaga 2006.
15 Bekendtgørelse af lov om ophavsret, LBK nr. 763 af 30/06/2006, sótt á slóðina
http://www.retsinfo.dk/_GETDOCM_/ACCN/A20060076329 þann 19. október 2006.
16 „Som fremstilling af eksemplarer anses også det forhold, at værket overføres på indretn-
inger, som kan gengive det.“
17 Á þetta reyndi m.a. fyrir bandarískum rétti í málinu UMG Recordings, INC. gegn MP3.
COM, INC. Veffyrirtækið M hlóð á netþjón sinn tugum þúsunda geisladiska á MP3 formi og
bauð síðan áskrifendum beinlínuaðgang í gegnum vefsíðu sína að þeim skrám ef áskrifend-
urnir sönnuðu að þeir ættu fyrir viðkomandi geisladisk/a. Stefnendur málsins voru handhafar
höfundaréttar verka á viðkomandi geisladiskum og töldu þessa þjónustu M vera brot á höf-
undarétti sínum. Dómurinn taldi að M hefði brotið á einkarétti rétthafa til að gera eintök. Sjá