Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Blaðsíða 65
408
leiðir yfirleitt til lakari afrita23 og því ólíklegra að þau yrðu notuð til frekari
eintakagerðar.24 Öðru máli gegnir um stafræn afrit, því þar er oftast ómögu-
legt að greina á milli frumeintaks og afrits. Þetta hefur í för með sér að engu
máli skiptir hvort afrit sé gert af frumeintaki eða afriti, hvort sem um er að
ræða afrit sem gert er á löglegan eða ólöglegan hátt. Spurningin um lögmæti
eintaka sem afrit til einkanota eru gerð frá hefur sérstaklega komið til álita
vegna dreifingar verka í gegnum jafningjanet. Flestar tónlistarskrár og
kvikmyndaskrár sem eru í dreifingu eru þar í óþökk rétthafa og því ólögleg
eintök. Norrænar frændþjóðir okkar hafa á undanförnum árum sett sérstök
ákvæði sem kveða á um að eintakagerð til einkanota takmarkist við eintaka-
gerð af löglegum eintökum.25 Áður en þær breytingar voru gerðar voru
ýmsir fræðimenn á því að það bryti í bága við skuldbindingar ríkja sam-
kvæmt alþjóðasamningum að heimila stafræna eintakagerð til einkanota af
ólöglegum eintökum.26 Því hefur verið haldið fram hér á landi að þar sem
ekki sé beint ákvæði í núgildandi höfundalögum sem banni eintakagerð til
einkanota af ólöglegum eintökum þá sé vafasamt að slíkt sé ólöglegt.27 Á
hinn bóginn má segja að aðild Íslands að Bernarsáttmálanum28 og TRIPS
samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar29 leiði til þess að túlka verði
undanþáguna um eintakagerð til einkanota á þann veg, þegar um stafræna
eintakagerð sé að ræða, að hún sé eingöngu heimil af löglegum eintökum
þar sem annað skaðaði „…í óeðlilegum mæli réttmæta hagsmuni rétthafa“
en báðir sáttmálarnir innihalda ákvæðið um „þriggja þrepa þröskuldinn“30
sem skilyrði fyrir öllum undanþágum frá einkarétti höfunda.31
1.3 Birting efnis á netinu í skilningi höfundalaga
Hugtakið birting í höfundaréttarlegum skilningi er skilgreint í 3. mgr. 2.
gr. höfundalaga. Þar segir að verk teljist birt þegar það er flutt opinberlega,32
23 T.d. ljósrit, símbréf, upptaka á segulband af útsendingu útvarps o.s.frv.
24 Sjá umfjöllun um þetta atriði í Rán Tryggvadóttir: „Áhrif nýrrar tækni...“, bls. 40-41.
25 Danir árið 2001, sjá 3. mgr. 11. gr. dönsku höfundalaganna, sbr. lög nr. 472 frá 7.6.2001,
sbr. FT 2000-2001, Tillæg B, bls. 1095, o.áfr., en Norðmenn og Svíar árið 2005, sjá 4. mgr. 12.
gr. norsku höfl. eins og þeim var breytt með lögum nr. 97/2005 og 4. mgr. 12. gr. sænsku höfl.
eins og þeim var breytt með lögum nr. 359/2005.
26 Sjá Peter Schönning: „Lovlige kopier af ulovlige eksemplarer?“, UfR 2000 B, bls. 504.
27 Sjá grein í Morgunblaðinu, 1. október 2004, sem er byggt á viðtali við Eirík Tómasson,
prófessor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra Sambands tónskálda og eigenda flutn-
ingsréttar, STEF.
28 Sjá auglýsingu nr. 11/1999 í C-deild Stjórnartíðinda.
29 Sjá auglýsingu nr. 62/1995 í C-deild Stjórnartíðinda. TRIPS stendur fyrir Trade Related
Aspects of Intellectual Property Rights.
30 Sjá 2. mgr. 9. gr. Bernarsáttmálans og 13. gr. TRIPS samningsins.
31 Sjá Schönning: „Lovlige kopier ...“, bls. 504.
32 Flutningsrétturinn tekur til þess að verk sé flutt opinberlega að áhorfendum viðstöddum,
t.d. leiksýning eða tónleikar, og einnig flutningur verka um þráð eða þráðlaust, t.d. með út-
varpssendingum.