Tímarit lögfræðinga - 01.12.2006, Page 81
424
hafa neitað að verða við þeirri beiðni þar sem þeir telja ekki vera rök fyrir
staðhæfingum rétthafasamtakanna.128 Framkvæmdastjóri rétthafasamtak-
anna Smáís129 lýsti því yfir að þeir myndu krefjast lögbanns gegn starfsemi
síðunnar ef forráðamenn hennar yrðu ekki við beiðni rétthafa um að loka
henni.130 Fróðlegt verður að sjá framhald þess máls en telja verður líklegt,
með hliðsjón af finnska BitTorrrent dómnum sem féll nýverið, að rétthafa-
samtök muni láta á þetta mál reyna fyrir dómstólum. Yrði niðurstaðan sú
sama? Það fer auðvitað eftir málsatvikum og sönnunarmati í því tiltekna
máli ef það kæmi til kasta dómstóla. En eru íslensk höfundalög að ein-
hverju leyti öðruvísi en lög nágrannaþjóða okkar sem myndi réttlæta aðra
niðurstöðu?
Innleiðing tilskipunar nr. 2001/29/EB hér á landi var gerð án þess að
hróflað væri við meginákvæðum höfundalaganna þar sem talið var að þau
rúmuðu þau réttindi sem tilskipunin kveður á um.131 Okkar höfundalög eru
því enn í höfuðatriðum eins og höfundalög hinna Norðurlandanna áður en
þær innleiddu tilskipunina. Því hefur verið haldið fram að fyrir innleiðingu
hennar í Noregi og Svíþjóð hafi skráarskipti í jafningjanetum verið lögleg.
Ekki hefur verið fallist á það, sbr. niðurstöður í Direct Connect jafningja-
netsmálum sem þar hafa gengið.132 Þeir dómar, sem og aðrir norrænir dómar
sem reifaðir hafa verið hér að framan, styðja þá afstöðu löggjafans hér að
ekki hafi verið bein þörf á að breyta ákvæðum íslensku höfundalaganna
vegna innleiðingar tilskipunarinnar að því leyti sem varðar ábyrgð vegna
brota sem framin eru með skráarskiptum höfundaverndaðra verka í jafn-
ingjanetum. Því má þó enn halda fram að breytingar í samræmi við breyt-
ingar hjá frændþjóðum okkar hefðu verið til skýringarauka fyrir notendur
laganna og aukið gagnsæi þeirra.133
Eins og fram er komið er réttarstaðan nokkuð ljós varðandi ábyrgð ein-
stakra notenda jafningjaneta vegna miðlunar af þeirra hálfu á tónlistar- og
kvikmyndaskrám sem fram fer án heimildar rétthafa, en hvað með ábyrgð
forráðamanna jafningjaneta hér á landi? Hvernig eru reglur um hlutdeild og
ábyrgð þjónustuaðila rafrænna viðskipta? Gilda einhverjar sérreglur hér á
landi sem myndu ívilna forráðamönnum íslenskra jafningjaneta? Ekki verð-
128 Sjá frétt Morgunblaðsins, „Vefsíðunni Torrent.is verður ekki lokað“, dags. 23. október
2006 og heimasíðu vefsíðunnar, www.torrent.is.
129 Samtök myndrétthafa á Íslandi, sjá www.smais.is.
130 Sjá frétt Morgunblaðsins, dags. 23. október 2006, http://mbl.is/mm/frettir/frett.
html?nid=1230326.
131 Sjá Rán Tryggvadóttir: „Áhrif nýrrar tækni ...“, bls. 47.
132 Sjá líka grein Henrik Pontén: „Finn fem fel om fideling“. Aftonbladet, 31. október 2006,
þar sem segir að skráarskipti, t.d. eins og eiga sér stað á sænska BitTorrent jafningjanetinu
„The Pirate Bay“, séu og hafi verið ólöglegar fyrir og eftir innleiðingu tilskipunar nr. 2001/29/
EB í sænsk lög.
133 Rán Tryggvadóttir, „Áhrif nýrrar tækni...“, bls. 48. Væntanlega verður úr því bætt í boð-
aðri heildarendurskoðun höfundalaganna, sjá I. kafla almennra athugasemda með frumvarp-
inu til höfundalaga 2006.