Bændablaðið - 12.01.2023, Page 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. janúar 2023
Á þessu ári setjast bændur og þeirra fulltrúar niður við samningaborðið
og semja um breytingar á núgildandi búvörusamningum. Í fyrstu grein
rammasamningsins er farið yfir markmið þessa samnings en hann gildir
frá árinu 2017 til 2026.
Markmiðin eru margvísleg og fjalla meðal annars um að bændum sé tryggð
leiðbeiningarþjónusta og skýrsluhaldshugbúnaður, að gætt sé sjónarmiða um
velferð dýra og sjálfbæra nýtingu og að nýliðun sé auðvelduð.
Fyrsta markmiðið er hins vegar þetta:
Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi
ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og
fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði.
Er tilefni til að fara yfir hvernig staðan á þessum markmiðum er fyrir
endursamningana. Hér verður hagræðing og samkeppnishæfni landbúnaðarins
skoðuð betur.
Dregur úr ríkisstuðningi
Þegar litið er til hagræðingar í landbúnaði er hægt að horfa á marga
mismunandi mælikvarða. Ríkisútgjöld til landbúnaðarins hafa lækkað um
1,3% á ári að meðaltali (verðlag ársins 2021) á samningstímanum, 2017-
2021. Ekki er búið að færa inn endanlegar tölur fyrir 2022 en mögulegt er
að upphæðin hafi hækkað eitthvað á því ári vegna spretthópsgreiðslna sem
gæti fært meðaltalið í kringum 0%.
Sama gildir um framleiðslu mælda í tonnum. Munurinn á framleiðslu
ársins 2016 (kjöt, grænmeti, egg og mjólk lögð saman) og 2021 er -0,1%.
Á tímanum dróst kjötframleiðsla saman um 0,7%, eggja um 1,6% og mjólk
um 1,9%. Grænmetisræktun jókst hins vegar um 25,7%. Framleiðsluvirði
landbúnaðarafurða hefur lækkað örlítið á samningstímabilinu. Líklega er hægt að
benda á verð sauðfjárafurða sem stærstu orsök þess en síðan 2018 hefur verðið
verið að hækka. Nýjustu tölur um framleiðsluvirði er hins vegar frá árinu 2020
og vantar því tölur síðustu tveggja ára.
Má draga þetta saman og segja að ef þróun áranna 2017-2021 er borin saman
við árið 2016 hafi framleitt magn staðið nokkurn veginn í stað, á föstu verðlagi
hefur framlag ríkisins einnig verið nokkuð stöðugt en framleiðsluvirðið lækkað
örlítið. Hagræðing í aðföngum hefur verið töluverð. Að meðaltali fékkst 5,1%
meira kjöt af hverjum sláturgrip árið 2020 en árið 2016 ef hestar
eru frátaldir. Sú þróun heldur áfram lengra aftur í tímann.
Árið 2020 fékkst 11,1% meira kjöt af hverjum sláturgrip
en árið 2008. Starfsfólki í landbúnaði fækkaði líka
umtalsvert á tímabilinu.
Aukinni eftirspurn mætt með innflutningi
Á samningstímanum, frá árinu 2017 og til dagsins í dag, hefur verðvísitala
búvara án grænmetis hækkað um 4,2% á meðan innfluttar mat- og drykkjarvörur
hafa hækkað um 1,3%. Gerir það 29,9% hækkun á innlendum búvörum (án
grænmetis) á samningstímanum en 9% á innfluttum mat- og drykkjarvörum.
Á meðan þessi þróun hefur átt sér stað hefur innflutningur á mann aukist
töluvert meira en matvælaframleiðsla. Er ástæða þess að einhverju leyti sú að
erfitt hefur verið að spá fyrir um eftirspurn á landinu með tilkomu ferðamanna
og svo hvarfi þeirra um stund.
Samkeppnishæfni innlendra afurða hefur því a.m.k. ekki vænkast á
samningstímanum. Bæði hefur verð hækkað umfram erlenda samkeppni og
innflutningur matvæla hefur aukist og hefur nær allri aukningu á eftirspurn verið
svarað með innflutningi. Hagræðingaraðgerðir undanfarinna ára hafa gengið
vel, bæði þegar kemur að vinnuafli og aðföngum. Að viðhalda samkeppnishæfni
gagnvart erlendum staðgönguvörum hefur reynst erfiðara, að minnsta kosti
þegar einungis er horft á verð og magn. Fyrir þessari þróun eru margs
konar ástæður sem vert er að taka saman og hafa í huga á komandi
búgreina- og Búnaðarþingi sem og við samningaborðið við
fulltrúa ríkisins. /sfb
HAGTÖLUR LANDBÚNAÐARINS
Samanburður:
Hagræðing og samkeppnishæfni
íslenskra landbúnaðarvara
Verðbreyting milli ára eftir eðli & uppruna
Vísitala neysluverðs eftir eðli & uppruna
Ríkisstuðningur á móti framleiðsluvirði
Markaðir
154,7 kr
Evra
144,27 kr
USD
175,14 kr
Pund
322,2 kr
95 okt bensín
331,4 kr
Dísel
19,53 USD
Mjólk (USD/100 pund)
7,35 USD
Korn (USD/sekkur)
29,3 EUR
Kartöflur (EUR/100 kg)
1323 AUD
Ull (AUD/100 kg)
1,99USD
Ostur (USD/pund)
5123 EUR
Smjör (EUR/tonn)