Bændablaðið - 12.01.2023, Síða 58

Bændablaðið - 12.01.2023, Síða 58
58 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. janúar 2023 Spámenn tískunnar telja að á nýju ári muni ókynbundin tíska öðlast frekari vinsældir á almennum mörkuðum, þar sem vörumerki og smásalar endurspegla breytt viðhorf neytenda til kyns. Er það viðhorf aðallega knúið áfram af kynslóðinni sem kallast Gen-Z. (fædd 1996–2015), en glöggir tískuunnendur muna e.t.v. eftir tímabili fyrir um hálfri öld eða svo, þegar svokölluð „blurred bounderies“ þóttu hámóðins. Var þá kynbundinni markaðssetningu kollvarpað og hetjur á borð við Boy George skutu upp kollinum. Ókynbundin tíska áranna áður Í gegnum söguna hefur auðvitað verið hrist hressilega upp í kynhlutverkunum og því vert að muna að hvorki árið 1983 né núna, árið 2023, er verið að finna upp hjólið. Í raun þvert á móti. Flappertískan svokallaða í kringum 1920 er dæmi, svona ef öldin síðasta er tekin fyrir, en þá kitluðu hönnuðir á borð við Coco Chanel, kvenkyns neytendur sína með hönnun strandarbuxna og buxnadragta. Hár þótti mest móðins klippt rétt niður fyrir eyru og margar konur reyktu opinberlega, þá gjarnan með munnstykki. Snemma á fjórða áratugnum klæddist leikkonan Marlene Dietrich buxum á frumsýningu og þótti afar djörf, en tók þó skrefið og fylgdu aðrar á eftir. Sem önnur dæmi má nefna nöfn á borð við Elvis Presley sem notaði andlits- og augnfarða auk Mick Jagger og David Bowie sem báðir eru þekkt nöfn er kemur að kynlausri tísku. Unisex-hönnun óþarfi En aftur að deginum í dag. Eitthvað hefur verið um á síðustu tveimur árum eða svo, að tískuhönnuðir hafi reynt að fóta sig við hönnun þess sem þeir kalla „unisex“. Hafa þær tilraunir fengið frekar neikvæða gagnrýni fremur en hitt og ekki talin þörf á slíkum fatnaði þótt sjónarhorn unga fólksins í dag sé á þeirri línu. Frekar ætti að hætta að flokka þann fatnað sem hannaður er, eftir kynjum, enda skilgreinir fjöldinn í dag sig helst eftir litrófi kynvitundar. Núnú, með það bak við eyrað hafa tískurisar á borð við Calvin Klein og Gucci tekið nýja stefnu. Samstarf CK við (fata- og hjólabrettafyrirtækið) Palace bauð upp á línu gallafatnaðar í svokallaðri yfirstærð, hettupeysur og nærfatnað þar sem ekkert var flokkað eftir kyni, heldur ætlað þeim öllum. Gucci hefur getið sér gott orð varðandi hönnun og framleiðslu ókynbundins fatnaðar og hefur unnið bæði með kven- og karlstærðir til jafns. Samstarf Uniglo á síðastliðnu ári við Marni, kom einnig sterkt inn, en auglýsingaherferðir sýndu flíkur einungis ótengdar kyni. Kynleysi innan vörumerkja Í síauknum mæli fjarlægja nú vörumerki kynjaflokka fyrir að minnsta kosti einhvern hluta framleiðslu sinnar. Merkið Phluid Project frá New York, kynskiptir t.d. ekki fatnaði sínum heldur fer hönnun þeirra eftir sérsniðnu stærðarlíkani. Uniqlo hannaði „Made For All“ safn þar sem karl- og kventísku var blandað saman í verslunum þeirra, bæði á netinu og annars staðar. Merkjarisarnir hafa svo undan- farið tekið sinn eigin snúning á tískupöllunum. Fyrirsætur hafi klæðst fatnaði óháð hvaða kyni hönnunin er upphaflega ætluð. Strunsuðu karlkyns fyrirsætur Raf Simons niður pallana í kjólum með nýlakkaðar neglur og hjá Maison Margiela klæddust þeir pilsum og háum stígvélum. Í kjölfar þeirra orða má segja frá skóhönnuðinum fræga, Christian Louboutin, sem býður nú upp á takmarkað magn háhælaðra ökklastígvéla fyrir karlmenn. (Með rauða sólanum að sjálfsögðu.) Og svona áður en fólk krossar sig í bak og fyrir má minna á diskótímabilið þar sem annar hver karlmaður gekk í háhæluðum skóm. Má ætla að áframhaldandi þróun ókynbundinnar tísku verði því einn af hápunktum hönnunar og markaðssetningar á árinu sem nú er að hefjast – og haldist í hendur við innkaup og áhuga stærsta neytendahópsins – sem er víst Z-kynslóðin eins og áður wwvar nefnt. /SP Snjótittlingur er smár en harðgerður spörfugl sem finnst hér allt árið. Hann er að mestu staðfugl en hluti stofnsins hefur vetursetu í Skotlandi og hingað koma grænlenskir snjótittlingar og ýmist dvelja hér yfir veturinn eða stoppa við á leið sinni til Bretlandseyja þar sem þeir hafa sínar vetrarstöðvar. Þeirra helstu varpstöðvar eru á hálendinu og upp til fjalla, en þeir finnast einnig í grýttu landslagi við ströndina. Þegar á varptímanum stendur eru skordýr hluti af mikilvægri fæðu fyrir ungana en snjótittlingar eru annars fræætur. Snjótittlingar skipta um búning þegar vorar. Fuglinn sem er á myndinni er í vetrarbúningi, þá líta kynin nánast eins út. Þegar vorar skerpast litirnir í búningi kvenfuglsins en karlfuglinn tekur aðeins dramatískari breytingar. Á sumrin verður karlinn nánast alhvítur en svartur á baki og vængjum að hluta. Karlfugl í sumarbúningi nefnist sólskríkja. Þeir hópast saman þegar vetrar og eru mjög félagslyndir. Þegar jarðbönn verða þá leita þeir niður í byggð, oft í stórum hópum. Þegar þeir leita niður í byggð á veturna er kærkomið að gefa þeim alls konar fræ. Þeir eru mjög hrifnir af kurluðum maís en þiggja einnig hveitikorn og brauðmola. Þetta getur verið mikilvægt fyrir þessa litlu fugla í mestu vetrarhörkunni þegar birtutíminn er lítill og næturnar langar og kaldar. Mynd og texti / Óskar Andri Víðisson Af tískupöllunum: Ókynbundin tíska árið 2023 Þessir 12 cm hælaskór eftir Christian Louboutin heita Stage O Rioca og eru fáanlegir í stærðum 36-46. FRÆÐSLA

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.